5.11.2009 | 23:06
Er stóriðja leið út úr kreppunni?
Staðhæfingar settar fram án raka öðlast stundum vægi langt umfram inntak þeirra. Þannig er umræðunni oft snúið upp í hinn gamalkunna leik með eða móti líkt og nú hefur verið gert í umræðu um byggingu orku- og stóriðjuvera. Tvær staðhæfingar í þeirri umræðu eru sérstaklega varhugaverðar, annars vegar að slíkar framkvæmdir séu nauðsynlegar, séu jafnvel leiðin út úr kreppunni og hins vegar að framtíð íslensks efnahagslífs sé best tryggð með nýtingu orkuauðlinda fyrir stóriðju. Önnur þeirra horfir til skamms tíma en hin lengra fram á veg. Báðar eru vafasamar, líklega rangar og jafnvel skaðlegar.Efnahagsleg áhrif stórframkvæmda verður að meta með hliðsjón af efnahagsstefnu bæði til skemmri og lengri tíma. Til skamms tíma, segjum 3 til 5 ára, er markmiðið að koma atvinnulífinu í gang. Það þarf að gerast innan þess ramma sem settur er af erfiðri stöðu í gjaldeyrismálum, skuldastöðu þjóðarbúsins, halla á rekstri ríkissjóðs og skuldum hans. Til lengri tíma litið er markmiðið að stuðla að vexti hagkerfisins með þeim hætti að það veiti þegnunum sem mest lífsgæði. Til þess þarf atvinnulífið að skila sem mestum virðisauka til þjóðarinnar fyrir vinnuframlag, fjármagn og auðlindir.
Áhrif til skamms tíma. Efnahagsleg áhrif stóriðjuframkvæmda til skamms tíma eru ekki einhlít. Helst hefur verið horft til áhrifa þeirra á vinnumarkað, aukinnar byggingarstarfsemi og atvinnusköpunar sem henni tengjast. Ekki má vanmeta þau áhrif en hafa ber í huga að þau eru að mestu leyti til skamms tíma. Áhrif hverrar stórframkvæmdar um sig getur verið nokkur hundruð eða fá þúsund ársverka um tveggja til þriggja ára skeið en eins og reynslan sýnir og sjá má í þeim hagspám sem gera ráð fyrir stórframkvæmdum á næstu árum fjara þau áhrif út.Áhrif stórframkvæmda, sem fjármagnaðar eru með erlendu fé, á gjaldeyrismál til skamms tíma eru einnig óljós. Til mjög skamms tíma litið gætu þær styrkt stöðu krónunnar en fljótlega kæmu líklega í ljós neikvæð áhrif sem gætu varað í einhvern tíma. Fyrst í stað kæmi erlent lánsfé inn í landið en endurgreiðslur og vextir næstu ár á eftir yrðu líklega hærri en tekjur í erlendri mynt. Þá má benda á að lán innlendra aðila til orkuframkvæmda verða væntanlega dýr næstu árin. Þannig eru stóriðjuframkvæmdir ekki líklegar til að bæta gjaldeyrisstöðu eða auka fjármálastöðugleika til skamms eða meðallangs tíma litið.Skammtímaáhrif orku- og stóriðjuframvæmda á ríkisfjármál eru ekki mikil. Tímabundið má reikna með auknum tekjum og minni bótagreiðslum. Þau áhrif fjara út að uppbyggingartíma liðnum en þá koma tekjur af þessum þáttum í eðlilegum rekstri. Áætla má að störf og afleidd störf í meðalálveri á ísl. mælikvarða séu um 0,6% heildarmannafla og tekjuskattar einstaklinga að meðtöldu tryggingagjaldi verði í samræmi við það. Líklegt er að sá slaki sem nú er á vinnumarkaði verði að mestu úr sögunni þegar ný álver kæmust í rekstur og því er ekki um viðbótartekjur að ræða fyrir ríkissjóð, aðeins tilflutning uppsprettunnar. Meðal annars vegna afskrifta á fjárfestingum verður ekki um teljandi aukningu á skattgreiðslum fyrirtækisins að ræða fyrstu 5 til 8 árin eftir miklar framkvæmdir eins og sjá má af reikningum íslensku álfyrirtækja.
Efnahagsleg áhrif til lengri tíma.Til lengri tíma litið eru forsendur fyrir mati efnahagslegra áhrifa aðrar en að framan greinir. Þá þarf einkum að meta gildi stóriðju með hliðsjón af varanlegum efnahagslegum áhrifum og samanburði við aðra kosti á nýtingu mannafls, fjármagns og náttúruauðlinda. Almennt er viðurkennt að skynsamlegt sé að láta frjálsan markað ráða sem mestu um hvað er framleitt, hvar og hvernig. Til þess að markaðurinn virki og skili hagkvæmum lausnum þurfa þó ákveðin skilyrði að vera uppfyllt svo sem að verðlagning á nýtingu náttúruauðlinda sé eðlileg og að neikvæð úthrif svo sem mengun séu verðlögð og komi fram í kostnaði við framleiðsluna. Gagnsæi í þessum atriðum er forsenda skynsamlegra ákvarðana.Margt bendir til þess að efnahagsleg áhrif stóriðju til langs tíma séu mikið minni en almennt hefur verið talið og að það svari vart kostnaði að leggja mikið undir með fjárhagslegum ívilnunum eða með því að binda nýtingu orkuauðlinda langt fram í tímann. Efnahagslegt gildi stóriðju ræðst mikið til af því hvernig sá virðisauki hún skapar skiptist á milli innlendra og erlendra aðila. Eins og nú háttar má reikna með að um 2/3 hlutar virðisaukans renni til erlendra aðila en einungis um 1/3 til innlendra í formi launa og hagnaðar innlendra aðila, sem selja iðjuverinu vinnu og þjónustu auk skatta af hagnaði starfseminnar.Áætla má að störf þ.m.t. afleidd störf vegna meðalálvers á Íslandi séu 0,5 til 0,7% mannaflans. Uppbygging slíkrar stóriðju er því ekki stórvirkt tæki í atvinnusköpun. Reikna má með að efnahagsleg áhrif þessa vinnuafls séu varla meiri en 0,5% af vergri landsframleiðslu. Ýmsir telja þó að mestar líkur á því að langtímaáhrif einstakra framkvæmda á atvinnustigið séu engin, þ.e. þær ryðji annarri atvinnu burt og efnahagsleg áhrif ráðist af því hvort starfsemin hafi haft í för með sér almenna framleiðniaukningu í landinu.Annar hluti efnahagslegra áhrifa eru skattar sem greiddir eru af hagnaði. Tekjuskattur meðalálvers á Íslandi eftir að afskrifatíma er lokið gætu verið 1 - 1,5 milljarðar á ári. Það er um eða innan við 0,1% af vergri þjóðarframleiðslu. Þriðji þátturinn er hagnaður af orkusölu til iðjuversins. Um hann er lítið vitað með vissu en hann er ólíklega mikill meðal annars vegna þess að álverin virðast hafa fengið býsna góða samninga um raforkukaup. Efnahagsleg langtímaáhrif af meðalálveri gætu skv. framangreindu verið á bilinu 0,1 til 1% af VLF. Er þó ekki tekið tillit til neikvæðra úthrifa Með það í huga að stóriðjuverin nota 75-80% af allri raforku sem framleidd er í landinu er sú spurningin áleitin hvort þetta sé þjóðhagslega hagkvæm nýting orkuauðlindanna.
Niðurstaða.Efnahagsleg áhrif stóriðjuframkvæmda til skamms tíma litið réttlæta ekki það vægi sem þeim hefur verið gefið í umræðu um viðbrögð við kreppunni. Þær hafa takmörkuð tímabundin áhrif á vinnumarkað en engin teljandi jákvæð áhrif á gjaldeyrismál og ríkisfjármál. Stóriðjuframkvæmdir eru því lítilvirk tæki til að komast út úr efnahagslægð. Engin rök standa til þess að láta skammtímasjónarmið hafa áhrif á ákvarðanir um uppbyggingu stóriðju.Eins og verðlagningu á nýtingu náttúruauðlinda, mengunarmálum og skattlagningu erlendrar stóriðju er nú háttað er vafasamt að efnahagsleg rök mæli með frekari uppbyggingu hennar. Nýting náttúruauðlindanna í þágu þeirra sem eiga þær kallar á ítarlega skoðun og breytingar á þessum atriðum áður en ákvarðanir eru teknar. Nýting á náttúruauðlindunum er svo stórt hagsmunamál fyrir þjóðina að ekki ætti að koma til álita að taka ákvarðanir um hana á grundvelli skammtímasjónarmiða, staðbundinna hagsmuna eða óvissra efnahagslegra forsenda.
2.2.2009 | 12:31
Efnahagsleg áhrif erlendrar stóriðju á Íslandi
Í grein sem ég hef birt á vefsíðu minni (sjá tengil hér til hliðar) er fjallað um þátt stóriðju í eigu erlendra aðila í efnahagslífi og atvinnulífi með því að athuga hvernig þáttatekjur af starfsemi stóriðjuvera skiptast á milli innlendra aðila og erlendra. Er m.a. skoðað framlag starfandi stóriðjuvera til efnahagslífsins og áhrif skatta á það. Ívilnanir í sköttum o.fl. til handa erlendum aðilum vegna stóriðju hafa m.a. verið réttlættar með því að þannig sé unnt að fá arð af orkuauðlindum. Lágt verð á raforku til stóriðju hefur á sama hátt verið réttlætt með þeim hag sem landið hefur af starfsemi stóriðjuvers. Margt bendir til þess að þversögnin í þessu hafi leitt til þess að við höfum leikið af okkur öllum trompum og sitjum uppi með tapað spil.
Samandregnar niðurstöður
Innlendur virðisauki af starfsemi stóriðjuvera á Ísland er ekki mikill. Samkvæmt ársreikningum þeirra álvera sem störfuðu á árinu 2007 má áætla að hjá þeim sé virðisaukinn samtals um 25 millj. króna. Svarar það til um það bil 1,8% af vergri þjóðarframleiðslu. Þessi virðisauki lendir að c. 2/3 hlutum hjá erlendum eigendum álveranna en einungis að 1/3 hluta hjá íslenskum aðilum. Svarar það til 0,6 0,7% af þjóðarframleiðslu.
Virðisauki vegna sölu á aðföngum til stóriðju er að mestu leyti hjá orkusölum en ekki eru tiltækar talnalegar upplýsingar um hann. Verð á raforku til stóriðju bendir þó til þess að hann sé ekki mikið umfram vaxtagreiðslur orkuveranna sem renna úr landi og viðunandi ávöxtun eiginfjár. Því eru líkur á að arður af orkulindinni, auðlindarentan, renni nær óskipt til orkukaupendanna, þ.e. stóriðjuveranna.
Starfsmenn við álverin þrjú sem starfandi eru að viðbættum afleiddum störfum eru um 1,7% af vinnuafli í landinu. Ætla má að til lengri tíma hafi erlendar fjárfestingar ekki áhrif á atvinnustig og fjölda starfa í landinu. Virðisauki vegna launa álveranna er því ekki viðbót við hagkerfið en kemur í stað launa fyrir störf sem ella hefðu orðið til. Skammtímaáhrif og svæðisbundin áhrif á atvinnustig kunna þó að vera til staðar.
Allstór hluti af virðisauka stóriðju og stórvirkjana fer úr landi í formi vaxta. Vegna skattalaga fær landið ekki hlut í þeim tekjum.
Helsti efnahagslegi ávinningur landsins af starfsemi stóriðjuvera í eigu erlendra aðila eru þeir skattar sem þeir greiða. Ætla má að skattgreiðslur meðalálvers sé um 1,2 milljarðar króna á ári. Það er einungis um 0,1% af þjóðarframleiðslunni. Skattar stóriðju skila sér auk þess seint vegna hagstæðra afskriftareglna. Á skattalöggjöfinni og í samningum við álfyrirtækin eru auk þess göt sem rýrt geta þessar tekjur.
Skattareglum hefur á síðustu árum verið breytt á þann veg að skattgreiðslur stóriðjuvera hafa verið lækkaðar um helming. Af þeim sökum verða tekjur landsins af álverum á mörgum næstu árum minni en þær hefðu orðið án fjölgunar álvera og án skattabreytinganna. Landið virðist einnig hafa afsalað sér valdi til að breyta sköttum á félög til hækkunar.
Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum. Hann er nú vart meira en 0,1 0,2% af þjóðarframleiðslu fyrir hvert álver. Arður af íslenskum auðlindum kemur aðallega fram í hagnaði iðjuveranna og rennur vegna lágra skatta að mestu ósnertur í vasa hinna erlendu eigenda.
Í pólitískri umræðum, m.a. um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, eru allir sammála um að náttúruauðlindirnar séu eign þjóðarinnar og að tryggja beri yfirráð yfir þeim. Það er holur hljómur í þeirri umræðu á sama tíma og náttúruauðlindunum er ráðstafað í þágu útlendinga og þeim gefinn arðurinn af þeim?
Greinina í heild má sækja með tenglinum hér að neðan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.2.2009 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (62)
16.12.2008 | 03:20
Leiðin út úr kreppunni og hækkun skatta
Meira en tveir mánuðir eru síðan heiminum var ljóst að kreppa er framundan, ekki aðeins fjármálakreppa heldur djúp efnahagslægð þar sem hagvöxtur mun stöðvast og landsframleiðsla dragast saman, atvinnuleysi aukast o.s.fr. Dýpt þessarar lægðar er ekki enn komin í ljós en áætlanir alþjóðlegra efnahagsstofnana er gert ráð fyrir að á í mörgum vestrænum löndum muni verg landsframleiðsla dragast saman um allt að 2% á árinu 2009. Á Íslandi er gert ráð fyrir að samdrátturinn verði meiri eða um 10%.
Flest ríki heims eru að búa sig undir að mæta þessu efnahagsáfalli. Auk ráðstafana á sviði peningamála hafa þau gripið til ráðstafa í ríkisfjármálum og sköttum. Á Íslandi blasir við önnur mynd. Hér þar sem þörfin er mest heyrist lítið frá stjórnvöldum um þessi mál. Engar hugmyndir eru ræddar, engar tillögur lagðar fram.
Í grein á heimasíðu minni, sjá tengil í greinasafn hér til hliðar, fjalla ég um notkun ríkisfjármála til viðnáms í kreppunni og hækkun skatta í þeim tilgangi og til að koma á sanngjarnara skattkerfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.11.2008 | 16:09
Ábyrgð á afleiðingunum
Í síðustu bloggfærslu fjallaði ég um ástæður þess að erlend ríki eins og Bretland og Holland hafa brugðist svo hart við óvissu og hiki um ábyrgðir á innistæðum þarlendra borgara í íslensku bönkunum. Var bent á þrýsting á stjórnvöld í þessum löndum og kröfur frá einstaklingum og félagasamtökum sem sáu fram á að glata sparnaði sínum í stórum stíl.
Til viðbótar við þetta er ljóst að stjórnvöldum í þessum löndum er það kappsmál að hagga ekki trausti almennings á því að innistæður í bönkum séu öruggar. Er það álitið hornsteinn fjármálakerfisins. Í kreppunni nú hafa ríkisstjórnir flestra landa lagt áherslu á að sannfæra þegna sína um að bankainnistæður þeirra séu tryggar og hafa þær lýst því yfir að bætt verði að fullu það sem á kann að vanta að innlánatryggingasjóðir geti staðið undir því. Talið var að að öðrum kosti hefði verið hætta á að inneignir yrðu teknar út úr bönkunum og fjármálastofnanir endanlega lagðar að velli.
Svo virðist sem að samstaða EES ríkjanna um þessi sjónarmið hafi verið svo mikil að upphafleg afstaða íslenskra stjórnvalda að ábyrgjast ekki innistæður í útibúum bankanna erlendis hefur þótt óviðunandi. Hún hefði rofið þá skjaldborg sem slegin hafði verið um öryggi bankainnlána og þannig geta ógnað enn frekar hinum fallvalta stöðugleika fjármálakerfisins. Einnig má gera ráð fyrir að sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að tryggja innistæður í bönkum Íslandi en ekki í útibúum erlendis hafi þótt brjóta í bága við þau jafnréttissjónarmið sem gegna ríku hlutverki í samstarfi Evrópuþjóða. Það hefur líklega ekki þótt sýna mikla ábyrgð af Íslendingum að hlaupast undan merkjum á þessum vettvangi né stórmannlegt að varpa henni á aðrar þjóðir.
Fram hafa komið rök þess efnis að lagalegar skuldbindingar Íslands standi ekki til þess að bæta töpuð innlán umfram það sem er á færi innlánatryggingasjóðsins og enn fremur að bætur til innlendra aðila eingöngu yrðu ekki taldar brjóta í bága við jafnréttissjónarmið við þær aðstæður sem nú eru. Hvernig hinni lagalegu stöðu kann að vera háttað virðist ekki skipta máli nú. Ástandið í fjármálaheiminum krafðist samstarfs og ábyrgðar allra ríkja sem vilja teljast fullburðug í samfélagi þjóðanna og ekki síst þeirra sem verst hafa staðið að málum. Því var ekki um að ræða lagalegt úrlausnarefni sem leysa mætti fyrir dómstólum heldur siðferðilegt og pólitískt mál sem kallar á pólitíska lausn.
Með því samkomulagi við Evrópuþjóðirnar, sem virðist í sjónmáli, tekur íslenska ríkið á sig hluta þeirra skuldbindinga sem íslensku bankarnir höfðu stofnað til en geta ekki efnt sjálfir. Ekki er fulljóst hversu mikil sú skuldbinding er. Það veltur m.a. á því hvers virði eignir bankanna reynast og ekki síður því hvort þær renna óskiptar til innistæðueigenda. Hætta er á að aðrir kröfuhafar telji þá hlut sinn fyrir borð borinn og leiti réttar síns.
Segja má að í samkomulagi þessu felist viðurkenning á ábyrgð íslenska ríkisins á því hvernig komið var, viðurkenning á því að íslensk stjórnvöld hafi brugðist. Þegar stjórnvöld bregðast hlutverki sínu bitnar það á þegnunum. Þeir verða að greiða skuldirnar. Þeir sem stýrðu siglingunni út í fenið ættu einnig að viðurkenna ábyrgð sína. Eigendur bankanna og þénarar þeirra sem mökuðu eigin krók á þessari vegferð ættu að sýna almenningi þann sóma að gera hreint fyrir sínum dyrum og hverfa af þessum vettvangi. Þeir sem bera þá pólitísku ábyrgð, sem nú hefur verið viðurkennd gagnvart erlendum aðilum, ættu einnig að sýna eigin landsmönnum þá virðingu að játa mistök sín og taka afleiðingunum.
13.11.2008 | 16:18
Ábyrgð á útrás bankanna
Ekki mæli ég bót framkomu breskra yfirvalda og aðgerðum þeirra í þeirri sorglegu atburðarás sem fólst í falli íslensku bankanna. Ég tel mig ekki heldur dómbæran á það hvort þeirra þáttur í atburðarásinni hafi verið afgerandi og hvort við værum í annarri og betri stöðu hefðu þeir farið fram af minna offorsi. Þá finnst mér litlu skipta hvort sú löggjöf sem þeir studdust við heitir einu nafni eða öðru. Reyndar hef ég ekki séð eða heyrt breskan talsmann taka sér í munn orðið hryðjuverkamaður um Íslendinga í þessu sambandi þótt upptalning hérlendra aðila á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins í miður þokkalegum félagsskap hafi síst verið gleðiefni.
Ég get hins vegar ekki neitað því að ég er nokkuð hugsi yfir viðbrögðum hér á landi við þessum atburðum þar sem mikið er gert úr meintri hryðjuverkaímynd hvort sem er í stórkarlalegum yfirlýsingum ráðamanna eða hjá upphafsmönnum múgsefjunarundirskrifta. Slík upphafning atburðanna á tilfinningasvið dregur athygli frá því sem raunverulega gerðist og gerir lítið úr því. Það má og túlka á þann veg að með því sé þjóðin að samsama sig gerendum, þ.e. bönkunum og axli ábyrgð af gerðum þeirra.
Það dylst engum að mikið tjón hefur verið unnið fyrir tilverknað íslensku bankanna og þeirra sem þeim réðu og veittu brautargengi. Íslenska þjóðin mun á næstu árum horfast í augu við hluta þess tjóns og hefur þegar séð 20 30 % rýrnun á eign manna í ýmsum sjóðum bankanna og tug milljarða tap lífeyrissjóða mun skerða lífeyri landsmanna langt inn í framtíðina. Er þá ótalið það tjón sem á eftir að verða af því hruni á atvinnustarfsemi sem leiða mun af falli fjármálakerfisins. Eins er að nefna tjónabætur sem íslenska ríkið kann að verða að greiða erlendum innistæðueigendum í íslensku bönkunum og hleypur á hundruðum milljarða króna. Ekki liggur enn fyrir hversu mikið þetta er þar sem enn er óljóst hvers virði eignir bankanna eru en ekki er ólíklegt að skuldaklafi ríkisins eftir ævintýrið verði 1- 2.000 milljarðar króna.
Á meðan við hér á Fróni bíðum með ugg í brjósti eftir upplýsingum um skuldir okkar, bíða grannar okkar víða um Evrópu líka eftir því fé sem þeir höfðu falið íslensku bönkunum til varðveislu eða lánað þeim. Þessar fjárhæðir eru taldar geta numið um 1.000 milljörðum króna í innistæðum og e.t.v. 8 10.000 milljörðum króna í lánum. Fólk og félög höfðu lagt fé inn í bankana í trausti þess að þeir stæðu undir nafni eða lánað þeim fé á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir birtu um sjálfa sig. Nú standa hundruð þúsunda Evrópubúa, sjóðir og félagasamtök og fyrirtæki, frammi fyrir því að eignir þeirra og sparifé hefur verið haft af þeim. Í mörgum tilvikum er um það að ræða raunverulegan ævisparnaði og lífeyri fólks, sem unnið hefur verið fyrir hörðum höndum en ekki skjótfenginn bónusgróða braskara með lífeyristryggingar í báðum höndum.
Það er eðlilegt að þeir sem orðið hafa fyrir skráveifum af þessu tagi láti heyra í sér og krefji stjórnvöld um skýringar og bætur því allt hefur þetta gerst innan ramma þeirra laga sem sett hafa verið og undir eftirliti stjórnvalda. Það er líka eðlilegt að viðkomandi stjórnvöld taki upp hanskann fyrir þessa aðila og krefjist skýringa og bóta hjá þeim aðila sem skaðanum hefur valdið. Að þessu virtu þarf harka breskra stjórnvalda og annarra í sömu stöðu ekki að koma á óvart. Þau hafa ærna ástæðu þótt deila megi um hvort einstök viðbrögð þeirra hafi verið innan þeirra marka sem við hæfi telst.
Það má líka velta því fyrir sér hvort kröfum sé beint að þeim aðila sem skaðanum hefur valdið og ætti að vera ábyrgur. Íslensku bankarnir sem skilið hafa eftir sig skuldaslóð voru einkafyrirtæki og störfuðu á engan hátt á ábyrgð íslensku þjóðarinnar þótt þeir hafi notað eða öllu heldur misnotað góðan orðstý hennar. Samningarnir um EES tryggja öllum fyrirtækjum rétt til að starfa hvar sem er innan svæðisins hafi viðkomandi ríki uppfyllt þær kröfur sem settar eru. Þau starfa hins vegar ekki á ábyrgð viðkomandi ríkja, sem bera ekki ábyrgð gerðum þeirra nema sýnt verði fram á að það hafi vanrækt skyldur sínar. Spyrja má hvað gert hafi verið sem veldur því að íslenska þjóðin sem slík liggur nú undir sök og mun væntanlega taka á sig þungar búsifjar vegna ábyrgðarlauss framferðis einkafyrirtækja.
Þessi spurning er áleitnari fyrir þá sök að óljóst er hversu íslenskir íslensku bankarnir voru í raun og veru. Í greinum sem ég tók saman fyrr á árinu og greint var frá í bloggfærslum í febrúar og mars 2008 og finna má á vefsíðu minni ( http://web.mac.com/inhauth/Indriði_H._Þorláksson/Vefrit.html ) gerði ég úttekt á eignarhaldi á íslenskum kauphallarfélögum og áhrifum erlendrar eignaraðildar á hag landsins af starfsemi þeirra. Meðal þess sem þar kemur fram er að meirihluti eignarhalds að stærstu fyrirtækjum í Kauphöllinni var í höndum erlendra aðila og á það einnig við um bankana. Nokkrir þessara eigenda og þeir stærstu þeirra eru heimilisfastir í þeim löndum, svo sem Englandi og Hollandi, sem nú sækja að Íslendingum og krefjast ábyrgðar íslensku þjóðarinnar á skaða sem félög í umráðum þarlendra aðila hafa valdið. Um þetta verður fjallað nánar í annarri bloggfærslu innan tíðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.10.2008 | 12:01
Að lenda í því - að hengja bakara fyrir smiði.
Að lenda í því. Orðalagið ber með sér að sá sem lendir í því sé saklaus af ásetningi og hafi ratað eins og óviti í einhver vandræði. Hann eigi að taka í fangið og hugga. Í yfirlýsingum stjórnmálamanna og fjármálafursta nú kemur hvað eftir annað fram að bankarnir hafi lent í einhverju. Hvað það er er falið í tali um gjörningaveður og náttúruhamfarir. Eftir stendur sú mynd að útrásarhetjur landsins hafi siglt glæstum fleyum um heimshöfin uns þeir lentu óforvarendis í slíku ofviðri að eftir sitji á skeri löskuð fley, rúin reiða og seglum með skemmdan farm.
Hafa vænir menn enn að ósekju orðið leiksoppar illra örlaga? Hafa lofsungnir snillingar hvorki séð né mátt sjá hvað framundan var? Kunnu þeir ekki að að búa skip sín til siglinga nema í blíðviðri? Brugðust þeir sem áttu að setja siglinagareglurnar skyldu sinni og beindu sjónaukunum að villiljósum í stað boðanna framundan? Um þetta á ekki að ræða núna að mati skipstjóranna og strandkafteinanna. Fyrst þarf af bjarga skipshræunum á land.
Vissulega á að bjarga því sem bjargað verður og ganga vel til verks. En það útilokar ekki að strax eigi að greina hvers vegna svo er komið sem raun ber vitni. Það er m.a. nauðsynlegt til að ekki verði gripið til skaðlegra ráðstafana, svo sem til nýrra lánveitinga af fé skattborgara til ógjaldfærra fyrirtækja, sem dæmi eru um í öðrum löndum og kröfur hafa verið um hér.
Sök á óförum íslensku bankanna hefur verið lýst á hendur alþjóða fjármálamarkaðar og skýringin á öllu er talinn lausafjárskortur. Er það svo? Er kreppan og lausafjárskorturinn orsök eða afleiðing. Er það skýring á því að verðgildi íslensku krónunnar hrapar. Hagfræðingum sem eru ekki helteknir af bauðmolahagfræði síðustu ára, ber flestum saman um að rót fjármálavandans liggi í óábyrgri lánastarfsemi á fjármálamarkaði. Dæmi um hana er fasteignabólan í BNA og hrun fjármálastofnana þegar hún sprakk. Nærtækara dæmi eru gífurlegar lántökur íslensku bankanna og endurlán í vanhugsuð og ofmetin útrásarverkefni. Verðfallin hús og uppblásin viðskiptavild nægir ekki til að tryggja lánin. Er að undra að nýtt lánsfé fáist ekki inn í fjármálastofnanir sem farið hafa fram með óábyrgum hætti?
Á Íslandi kemur til viðbótar að á sama tíma var lagt í lítt grundaðar og illa tímasettar stórframkvæmdir, sem ásamt auknum fjármálaumsvifunum leiddu til þess að staða íslensku krónunnar varð alltof sterk og gerði það að verkum að þjóðin gat lifað um efni fram árum saman eins og viðvarandi viðskiptahalli ber vott um. Verðfall krónunnar og verðbólga af þeim sökum var aðeins tímaspursmál.
Þegar afleiðing óráðsíunnar blöstu hófust köll á björgun ríkis og seðlabanka með auknum lánum til bankanna. Við þessar aðstæður var ekkert vit í að leggja til nýtt lánsfé. Nýr lánveitandi yrði aðeins einn af mörgum sem ekki fengi fé sitt að fullu til baka. Þetta á líka við um lán ríkja og seðlabanka til lánastofnana. Þau væru sólundun á fé almennings. Af þessum ástæðum var upphafleg björgunaráætlun bandarísku stjórnarinnar óviðunandi og ekki líkleg til árangurs í breyttri mynd. Kaup undirmálslána bjargar engu og kaup á hærra verði er gjöf til þeirra sem sólundað höfðu fé sínu. Lán Seðlabanka Íslands til ógjaldfærra banka hefðu á sama hátt engu bjargað og verið sólundun á almannafé. Framlag á hlutafé er skárri kostur nægi það til að rétta skipið við en óráð að öðrum kosti. Þriðji kosturinn, yfirtakan, var illskárst. Með henni lendir stærsti skellurinn á þeim sem beint og óbeint báru ábyrgð á því hvernig komið var og þeim sem stofnað höfðu til viðskipta við þá. Innlán njóta verndar, þó ekki bankanna sjálfra heldur tryggingasjóðs innlána og ríkisins.
Skýringar á því hvers vegna svo er komið eru vafalaust margar. Fyrst er að nefna hversu auðveldlega stjórnmálamenn láta hentifræði og kreddukenningar leiða sig til óstjórnar. Mikilvægustu efnahagsstofnanir þjóðarinnar voru afhentar auðmönnum án þess að tryggja með nokkrum hætti að rekstur þeirra færi ekki úr böndum. Allt regluverk um fjármálastarfsemi var í lágmarki og stofnanir á því sviði vanmáttugar að mannafla, þekkingu og reynslu. Í kjölfarið fylgdi glórulaus útþennsla sem byggðist fyrst og fremst á því að ódýrt erlent lánsfé, eignir lífeyrissjóða og annað sparifé landsmanna var notað til að sprengja upp fasteignamarkaðinn innanlands og að bakka upp skuldsettar yfirtökur eigenda bankanna á erlendum félögum á yfirverði. Í stað aðhalds fengu fjármálafurstarnir hástemmdar þjóðarlofsræður.
Í stað ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum á þennslutímum kusu stjórnvöld sér hlutverk jólasveinsins. Blindaðir af skammvinnum uppsveiflutekjum og eignasölu gáfu þeir hinum velmegandi gjafir með skattalækkunum um leið og þeir brutu niður jafnræðissjónarmið og jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Með þessu var einnig vanrækt að nota tekjuafganginn til að byggja upp gjaldeyrisforða þjóðarinnar.
Um það má deila hvort Seðlabanka Íslands hafi tekist vel til með nýtt hlutverk sitt og rekið rétta peningamálastefnu við þær aðstæður sem honum voru skapaðar. Eflaust orkar ein og önnur aðgerð hans eða aðgerðaleysi tvímælis. Vandséð er þó að meiri undanlátssemi hans við kröfum bankanna og annarra um minna aðhald hefði breytt ástandinu til batnaðar eða hvað varanlegur akkur hefði orðið af því að aukinn gjaldeyrisforði og lán til bankanna hefðu skapað tímabundið traust til starfsemi sem ekki var traustsins verð.
Ekki kæmi mér á óvart að þegar öldurnar lægir og hagstjórnarsaga þessa tímabils verður skrifuð verði dómur hennar sá að þrátt fyrir ýmsa galla og veilur í sviðsframkomu hafi hlutverki Seðlabankans verið betur sinnt en annarra leikenda í þessum harmleik. Það kemur þó líklega ekki í veg fyrir að þjóðin lendi í því núna að hengja bakara fyrir smiði.
4.4.2008 | 08:51
Á að lækka álögur á eldsneyti?
Ástæðan fyrir hækkun á verði á eldsneyti á síðustu misserum eru tvíþætt. Olíuverð á heimsmarkaði hefur hækkað og íslenska krónan fallið. Hækkun verðs á bensíni og dísilolíu hefur vakið óánægju og fram hafa komið kröfur um að ríkið lækki verðið með því að draga úr álögum. Þessar kröfur hafa komið fram hjá FÍB og vörubílstjórum sem haft hafa í frammi mótmælaaðgerðir studdir m.a. af jeppamönnum. Ekki er nema gott eitt um það að segja að einstakir hópar í þjóðfélaginu neyti þess réttar að láta rödd sína heyrast og veiti stjórnvöldum aðhald. En þeim rétti fylgir sú skyldu að rökstyðja mál sitt skilmerkilega.
Talsmenn þeirra sem krefjast lækkunar álaga á eldsneyti láta að því liggja að þeir séu að berjast fyrir hagsmunum almennings og virðast fá nokkurn hljómgrunn ef marka má undirtektir borgara sem fjölmiðlar hafa tekið tali. En er það svo? Myndi hagur almennings batna ef álögur á eldsneyti yrðu lækkaðar? Slíkt er óvíst og reyndar ólíklegt.
Hækkun á olíuverði á heimsmarkaði þýðir einfaldlega að við sem þjóð og einstaklingar verðum að greiða hærra verð en áður fyrir þessa vöru og höfum að sama skapi minna til að nota í annað. Þessi hækkun er staðreynd sem við verðum að sætta okkur við en getum brugðist við með því að draga úr neyslu á eldsneyti og þannig dregið úr skerðingu á annarri neyslu. Lækkun á álögum hér á landi breytir engu þar um og myndi hafa það eitt í för með sér að síður drægi úr akstri og við myndum í reynd greiða meira úr landi fyrir eldsneyti og hafa minna til annarra nota.
Lækkun á álögum er þannig engin leið til að bregðast við hærra oliuverði á heimsmarkaði. Það bætir ekki stöðu þjóðarbúsins og heimilanna. Lækkun álaga á eldsneyti hefði einungis í för með sér að kostnaðinum af hækkuninni yrði dreift með öðrum hætti. Sú breyting yrði í stórum dráttum sú að þeir sem nota mikið eldsneyti, aka á stórum og neyslufrekum bílum svo sem stórum jeppum, myndu koma betur út en hinir nægjusamari eða bifreiðalausu bæru stærri hluta hinnar óhjákvæmilegu hækkunar.
Talsmenn lækkunar láta eins og hún skipti engu fyrir ríkissjóð eða jafnvel að hann hafi grætt mikið á verðhækkununum. Hvort tveggja er rangt. Bensín og olíugjaldið er föst krónutala á hvern seldan lítra af eldsneyti sem ekki hefur hækkað í samræmi við verðlag. Þessar tekjur fara nú lækkandi að raungildi vegna verðfalls krónunnar og verðbólgu. Samdráttur í eldsneytiskaupum gæti enn dregið úr þessum tekjum. Ekki er að vænta samdráttar í samneyslu og ef ekki verður dregið úr framkvæmdum t.d. vegagerð munu aðrir skattar óhjákvæmilega hækka. Lækkun þessara gjalda myndi því færa skattbyrði af þeim sem nota mikið eldsneyti yfir á aðra.
Meint hækkun virðisaukaskatts vegna hærra eldsneytisverðs er sýnd veiði en ekki gefin. Hækkun á eldsneytisverði langt umfram aðrar vörur leiðir annars vegar til þess að eldsneytiskaup dragast saman og þar með verður hækkun virðisaukaskattsins minni en ætla mætti og hins vegar er óhjákvæmilegt að önnur neysla dregst saman þar sem heimilin hafa ekki úr ótakmörkuðum tekjum að spila og virðisaukaskattur af henni minnkar. Heildaráhrifin á tekjur af virðisaukaskatti eru því langtum minni en haldið hefur verið fram og e.t.v mjög litlar. Lækkun virðisaukaskatts á eldsneyti myndi í stórum dráttum hafa sömu áhrif og lækkun bensín- og olíugjalds, þ.e. færa kostnað vegna heimsmarkaðsverðs frá þeim sem nota mest eldsneyti yfir á hina sem minna nota og auka skattbyrði þeirra.
Af framansögðu má vera ljóst að lækkun eldsneytisverðs með lækkun álaga er ekki vitleg aðgerð. Hún myndi engum ábata skila heimilunum almennt en dreifa þegar áföllnum kostnaði ranglátlega og vera efnahagslega óhagkvæm.
Auðveldara er að rökstyðja hækkun á álögur á eldsneyti við núverandi aðstæður en lækkun þeirra. Eldsneytisbrennsla er stór þáttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er viðurkennt að ein virkasta leið til að draga úr notkun eldsneytis væri að hækka verð á því með sköttum. Ekki hefur verið pólitískur vilji hjá þjóðum heims að fara þá leið. Hækkun gjalda á eldsneyti væri skynsamleg frá sjónarhóli umhverfismála en einnig frá efnahagslegu sjónarmiði í heimi þar sem eftirspurnin vex sífellt og framleiðendur hafa sjálfdæmi um verð og magn.
Það er ekki við því að búast að litla Ísland breyti heiminum að þessu leyti en þótt aðeins sé litið til landsins má sjá gild rök fyrir hækkun gjalda á eldsneyti eða a.m.k. rök gegn lækkun þeirra. Þrátt fyrir hækkandi verð á eldsneyti hefur innflutningur á bifreiðum aukist stórlega frá ári til árs með aukna mengun, umferðatafir og önnur einkenni köfnunardauða borga að fylgifiskum. Bifreiðum hefur ekki aðeins fjölgað heldur hefur stórum eyðslufrekum bílum fjölgar mest. Hækkun á verði eldsneytis með hækkun álaga kynni að hafa góð áhrif, draga úr fjölgun bíla einkum þeirra neyslufreku. Auknar tekjur með þessum hætti mætti nota til að lækka aðra skatta á móti, auka tekjujöfnun í skattkerfinu sem dregið hefur úr á síðustu árum eða styrkja velferðarkerfið.
7.3.2008 | 15:44
Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum
Í greininni Útrás og innrás, fjallaði ég almennt um hvaða áhrif fjárfestingar yfir landamæri geta haft á íslenskt efnahagslíf og tekjur ríkissjóðs. Þar kom fram að efnahagsleg áhrif útrásar eru að verulegu leyti undir því komin hver á útrásarfyrirtækin, hvert hagnaðurinn rennur og hvar honum er ráðstafað. Í greininni Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum (sjá viðhengi) er greint frá niðurstöðum athugunar á umfangi erlendra fjárfestinga hér á landi og eignarhaldi á félögum sem skráð eru í Kauphöllinni.
Samkvæmt skýrslum Seðlabanka Íslands hefur erlend fjárfesting á Íslandi vaxið mjög á siðustu árum. Við nánari skoðun sýnir sig að þessa aukningu má nær alfarið rekja til BENELUX landanna og svokallaðra aflandssvæða. Íslensk fjárfesting í þesssum löndum hefur vaxið samsvarandi og bendir allt til að hér sé um sama féð að ræða, þ.e. fjárfest hafi verið í félögum á þessum svæðum og þau síðan fjárfest í íslenskum félögum.
Til að kanna þetta nánar var gerð úttekt á eignarhaldi á þeim félögum sem skráð eru í Kauphöllinni m.t.t. að hve miklu leyti þau væru beint eða í gegnum milliliði í eigu erlendra aðila. Ennfremur var kannað hvar þessir erlendu eigendur væru heimilisfastir. Niðurstöðurnar voru mjög í samræmi við skýrslu Seðlabankans Það sem lesa má úr fyrirliggjandi talnalegum gögnum er m.a.:
Eignarhald erlendra aðila á félögum í Kauphöllinni er frá 0 og uppí 75% og um 31,5% að meðaltali.
Erlent eignarhald er til staðar í 89 tilvikum (af 440) eða um fimmti hver eigandi er skráður erlendis og þar af 3 í Lúxemborg, á aflandssvæðu eða í Holland.
Félög með skattalega heimilisfesti í Luxemborg, á aflandssvæðum eða í Hollandi fara með alla eða nær alla erlenda eignarhlutdeild í allmörgum félögum.
Háa erlend eignaraðild og hátt hlutfall eigenda með skráningu í Lúxemborg eða á aflandssvæðum er einkum að finna hjá bönkum og stórum eignarhaldsfélögum en síður eða ekki hjá félögum með virka starfsemi.
Innlent eignarhald er að jafnaði um 68% af eign 20 stærstu aðila. Þar af eru 10% í eigu Kauphallarfélaga, 6% í eigu lífeyrissjóða og 52% í eigu annarra innlendra aðila.
Erlent eignarhald er að jafnaði um 38% af eign 20 stærstu hluthafanna. Þar af eru rúm 25% hjá aðilum í Luxemborg, á aflandssvæðum eða í Hollandi en rúm 6% annars staðar.
Í þeim helmingi félaga þar sem eignaraðild erlendra aðila er mest er hún miklu tíðari eða þriðjungur tilvika á móti innan við 10% tilvika í hinum helmingnum. Eignarhald innlendra aðila sem ekki eru lífeyrirssjóðir eða önnur Kauphallarfélög er líka ótíðari í efri flokknu eða um þriðjungur tilvika á móti um 70% í lægri flokknum
Í þessum félögum eiga erlendir aðilar að jafnaði um 55% hlutafjár en innlendir aðilar aðrir en kauphallarfélög og lífeyrissjóðir einungis um 26%. Í lægri flokknum er erlend eignaraðild um 8,5% en innlendra aðila annarra en kauphallarfélaga og lífeyrissjóða nærri 78%.
Hin erlenda eignaraðild kemur að u.þ.b. 80 hundraðshlutum frá félögum í Hollandi, Lúxemborg eða aflandssvæðum. Litlu skiptir í því efni hvort erlend hlutdeild alls er mikil eða lítil. Hins vegar virðist erlend hlutdeild frá öðrum en þessum löndum aðallega vera til staðar í félögum í virkri atvinnustarfsemi.
Helstu niðurstöður:
Erfitt er að draga saman allar niðurstöður í svo margbrotnum og flóknum málum sem hér er fjallað um á einfaldan hátt. Verður því látið nægja að benda á nokkur meginatriði.
Fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi hefur stóraukist á síðustu árum. Á sama tíma hefur íslensk fjármunaeign erlendis aukist mikið. Aukningin á fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi takmarkast að mestu við tvö lönd og nokkur aflandssvæði. Allar líkur benda til þess að hér sé um hringrás sama fjár að ræða.
Önnur aukning á beinni erlendri fjármunaeign er fremur lítil einkum þegar horft er til aukinna stóriðjuframkvæmda á tímabilinu.
Mikið erlent eignarhald er á félögum sem skráð eru í Kauphöllinni einkum í stórum fjármálafyrirtækjum.
Afleiðing af miklu erlenda eignarhaldi er að jafn stór hluti hagnaðar af starfsemi félaganna rennur til erlendra eigenda.
Hagnaður af starfsemi erlendra dótturfyrirtækja (útrásarfyrirtækja) skilar sér lítt og ekki varanlega til landsins.
Skatttekjur af starfsemi þeirra félaga sem eiga dótturfélög erlendis takmarkast við hagnað af innlendri starfsemi félaganna og fer minnkandi vegna breytinga á skattalögum.
Vegna mikillar erlendrar eignaraðildar er hagnaður eftir skatt að stórum hluta í höndum erlendra aðila, sem eiga hægt um vik að koma honum úr landi án teljandi skattlagningar.
Líkur eru á að mestur hluti skráðrar erlendrar eignaraðildar sé í reynd í höndum íslenskra aðila sem skráð hafa félög sín erlendis.
Líkur eru á að sú skráning sé að stórum hluta gerð í þeim tilgangi að komast hjá því að greiða skatta á Íslandi.
Lágur skattur á fjármagnstekjur hefur ekki dregið úr flutningi tekna og skattstofns úr landi og lækkun skatts á félög hefur ekki aukið raunverulega erlenda fjárfestingu en hefur að líkindum ýtt undir og aukið streymi fjármagns úr landi sem ófullburða skattalöggjöf ræður ekki við.
6.2.2008 | 23:18
Útrás og innrás, efnahagsleg og skattaleg áhrif
(Eftirfarandi er ágrip og helstu niðurstöður ítarlegri greinar sem finna má í viðhengi við bloggið.)
Í umræðu um erlenda fjárfestingu er oft vikið að þýðingu hennar fyrir efnahagslíf og ríkisbúskapinn m.a vegna skatta sem þessi félög greiða. Fjárfesting og atvinnurekstur utan heimalandsins er yfirleitt talin vera af hinu góða fyrir efnahagslíf heimsins og einstakra landa, m.a. vegna útbreiðslu nýrrar tækni og þekkingar og betri nýtingar á fjárfestingum. Þessi viðtekna skoðun hefur án nægilegrar gaumgæfni leitt til alhæfinga um þýðingu útrásar og erlendra fjárfestinga fyrir íslenskt efnahagslíf, sem ekki virðast raunhæfar þegar grannt er skoðað.
Þótt erlend fjárfesting sé þannig jafnan talin hafa jákvæð áhrif á efnahagslíf og auki þann virðisauka sem er til skiptanna eru þessi áhrif á hvert land um sig háð aðstæðum í því á hverjum tíma. Efnahagslegt gildi fjárfestinga yfir landamæri fyrir þau lönd sem hlut eiga að máli ræðst einkum af því hvernig í því er háttað um eignarhald á félögum, skattamál og auðlindamál.
Lítill hluti af hagnaði af starfsemi íslenskra útrásarfélaga erlendis skilar sér í hendur innlendra aðila og er ráðstafað hér á landi. Skatttekjur íslenska ríkisins af þessari starfsemi eru tengdar þeim hagnaði sem tekin er til landsins og gildandi skattareglum svo og leiða til að koma hagnaði óskattlögðum úr landi. Áhrif útrásar íslenskra aðila á íslenskt efnahagslíf eru því að líkindum ekki ekki mjög mikil og skatttekjur íslenska ríkisins af atvinnurekstri íslenskra aðila erlendis eru ekki miklar. Ástæðan fyrir hvoru tveggja er að hluta til sú að eignarhald á íslenskum eigendum útrásarfyrirtækjanna er að nokkuð miklu leyti í höndum aðila sem skráðir eru erlendis en einnig af því að skattareglur í þessum efnum hér á landi eru ófullnægjandi.
Erlend fjárfesting hér á landi er efnahagslega mikilsverð vegna verðmætasköpunar sem ella hefði ekki orðið og kemur fram í þeim virðisauka sem af starfseminni hlýst. Virðisaukinn rennur til þeirra aðila sem leggja eitthvað til starfseminnar, vinnuafl, fjármagn, auðlindir eða réttindi. Hlutur íslenskra aðila er laun starfsmanna, hagnaður innlenra aðfangasala og tekjuskattar sem félög í erlendri eigu og eigendur þeirra greiða og auðlindagjald sé það tekið.
Áhrif beinnar erlendrar atvinnustarfsemi á Íslandi á efnahagslífið eru margþættari en þegar um útrás er að ræða og ávinningur fyrir efnahagslífið torráðnari m.a.vegna óvissu um fórnarkostnað. Auk vinnulauna er ávinningurinn fyrst og fremst fólginn í hagnaði innlendra aðfangasala og sköttum á félög i erlendri eigu og eigendur þeirra.
Líklegt er að innlend hlutdeild í virðisauka af erlendri atvinnustarfsemi hér á landi sé hlutfallslega fremur lítil. Þáttur vinnuafls í orkufrekum iðnaði er fremur lítill, hagnaður og vextir af fjármagni renna að mestu til erlendra aðila og ekki tekið gjald fyrir afnot af auðlindum. Þá er skattheimta af þeim hluta virðisaukans sem rennur til erlendra aðila fremur lítil og hefur farið minnkandi með lækkun tekjuskatts á félög.
Þróun viðskiptaumhverfis á síðustu árum hefur auðveldað flutning úr landi á hagnaði hvort sem er af innlendri starfsemi eða útrásarstarfsemi og breytingar á skattalögum, m.a. lækkun á tekjuskatti félaga hafa aukið þann hluta hagnaðar sem farið getur skattfrjáls eða lítt skattlagður úr landi.
Það hefur verið haft á orði, stundum sem hótun, að eitt eða annað þessara félaga flytji sig úr landi ef ekki er farið að vilja þess. Afleiðingar þess fyrir efnahagslífið og afkomu ríkisins hafa verið málaðar dökkum litum og endurómaðar gagnrýnislaust af áhrifagjörnum.
Hafa þarf í huga að félög er ekki hægt að flytja milli landa með pennastriki einu. Vilji eigendur hætta starfsemi félags hér á landi verður að slíta því eða selja það í hendur annarra. Við slit eru eignir seldar, reksturinn gerður upp og greiddir skattar af uppsöfnuðum hagnaði. Kjósi eigendurnir að selja félagið, þ.e. hlutina í því í hendur annarra, e.t.v. félags sem þeir eiga erlendis, starfar félagið engu að síður áfram hér á landi með íslenska starfsmenn og borgar skatta af þeirri starfsemi þótt einhver starfsemi höfuðstöðva kunni að færast til annars lands.
Það er starfsemin hér á landi, sem fyrst og fremst hefur þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf og skatttekjur ríkissjóðs. Breyting á eignarhaldi og flutningur höfuðstöðva hefur ekki stórfelld áhrif ef félagið heldur áfram starfsemi sinni hér. Vilji félagið ekki sinna starfsemi hér, t.d. innlendri bankastarfsemi, munu aðrir aðilar vafalítið yfirtaka hana, skapa hér fleiri störf en þeir höfðu áður haft og skila meiri hagnaði og skatttekjum en áður.
Vissulega er skaði að því að vel rekin fyrirtæki hætti hér störfum en það er langt í frá að vera héraðsbrestur.
Grein í heild er í viðhengi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2008 | 10:15
Skattar og fortíðarhyggja
Fyrir skömmu gerði ég tillögu ASÍ í skattamálum að umtalssefni hér. Hún og fleira í umræðu um tekjuskatta einstaklinga mótast af einhvers konar fortíðarhyggju með árdaga núverandi tekjuskattskerfis að draumsýn. En aðstæður hafa breyst svo mjög að draga verður þessa sýn í efa. Kemur þar einkum tvennt til. Í einn stað hafa opinber útgjöld og þar með tekjuþörf ríkis og sveitarfélaga vaxið mikið. Í annan stað hefur sköttum verið fækkað og því meira lagt á þá skattstofna sem eftir eru.
Um 1990 voru tekjuskattar einstaklinga nálægt 16% af skattstofninum með álagningarhlutfalli um 36% og skattleysismörkum í kringum 600 þús. kr. á ári. Tekjuskattar síðustu ára hafa verið um 25% skattstofnsins. Með óbreyttu kerfi, sama álagningarhlutfalli og skattleysismörkum sem fylgja launavísitölu má reikna með að að tekjurnar yrðu svipað hlutfall af skattstofni og í upphafi. Tekjuskattar vegna tekna 2006 voru um 164 milljarðar kr af um 658 mrd kr. skattstofni eða tæp 25% hans. Með afturhvarfi til fortíðar hefðu þeir líklega orðið um 16% eða 105 mrd króna þ.e. nærri 60 milljörðum lægri en þeir voru í reynd. Er því ljóst að verulega þyrfti að bæta í aðra skatta eða draga saman opinbera þjónustu til að gera þessa draumsýn að veruleika.
Skatta í þessu kerfi hafa verið hækkaðir með tvennum hætti. Með lækkun skattleysismarka að tiltölu við laun og með hækkun álagningarhlutfallsins. Lengst af var hækkunin byggð á samspili þessara stuðla. Skattleysismörkin hafa stöðugt farið lækkandi en álagningarhlutfallið fór í tæp 40% 1994 til 1996 en hefur síðan lækkað aftur í svipað horf og í upphafi. Aukinn þungi skattheimtu er því nú eingöngu borinn uppi af lægri skattleysismörkum. Þau voru um 988 þús. kr. 2006, þ.e. síðasta ár sem álagning liggur fyrir, en hefðu þurft að vera um 1,6 m.kr. til að halda gildi sínu miðað við vísitölu launa. Til samanburðar er að hefði öll hækkun tekjuskattsins verið tekin með hækkun á álagningarhlutfallinu en skattleysismörkin höfð um 1.6 m.kr. hefði álagningarhlutfallið þurft að hækka í a.m.k. 50%.
Tillaga ASÍ geri ráð fyrir upphaflegum skattleysismörkum að tiltölu við laun en gengur ekki svo langt að ná fyrra kerfi að fullu. Hún felur í sér hækkun á álagningarhlutfallinu í nærri 50% á laun upp að meðallaunum og að skerðing persónuafsláttar haldist þar fyrir ofan. Því verður engin lækkun verður á sköttum hjá þeim sem eru með tekjur yfir því marki. Ennfremur verður engin lækkun hjá þeim sem eru undir skattleysismörkum og lækkunin er á bilinu frá 0 til 240 þús. kr. mann á launum undir meðallaunum. Gróflega má áætla að tekjutapið yrði af stærðargráðunni 15 mrd. kr.
Af framangreindu má draga þá ályktun að vegna aukinna opnberra umsvifa og meiri tekjuöflunar með tekjuskatti sé óraunhæft að gera ráð fyrir að snúa megi til baka til þess álagningarkerfis sem var við upphaf staðgreiðslunnar. Ómögulegt er að hækka skattleysismörkin ein verulega án þess að því fylgi óraunhæft tekjutap. Hækkun álagningarhlutfallsins eins hefur í för með sér óviðunandi jaðarskatta á miðlungstekjur og lægri.
Núverandi kerfi hefur ýmsa galla samanborið við það sem lagt var upp með í byrjun. Í fyrsta lagi hefst skattlagning mikið fyrr og of snemma, þ.e. við tekjur sem almennt eru taldar of lágar til framfærslu og bornar eru uppi af félagslega kerfinu. Í öðru lagi er stígandinn í skattlagningunni mjög mikill við lágar tekjur. Meðalskatthlutfall hækkar úr 0 í 20% á litlu tekjubili og jaðarskattur er mjög hár á því tekjubili þar sem enn er talin ástæða til félagslegra tekjutilfærslu svo sem barnabóta og lífeyrisbóta. Í þriðja lagi er meðalskatthlutfallið á lágar miðlungstekjur orðið mjög hátt, t.d. um 22% á 3 m.kr. samanborið við rúm 14% á sambærilegar tekjur í upphaflega kerfinu. Leiðir það til þess að lítill munur er á skattlagningu lágra miðlungslauna og hærri launa. Þótt þetta kerfi, eitt skattþrep og persónuafsláttur, hafi verið vel viðunandi á þeim tíma þegar með því voru tekin um 16% af skattstofninum gegnir öðru máli nú þegar skattheimtan er orðin 50% hærri eða yfir 24% af skattstofninum.
Hugmynd ASÍ virðist (misheppnuð) tilraun til að komast hjá tveggja þrepa skattkerfi sem hefur að ósekju verið útmálað sem grýla. Staðreyndin er sú að tveggja þrepa skattkerfi er einfalt í framkvæmd og staðgreiðsla í því yrði ámóta nákvæm og nú er með lítilli breytingu á staðgreiðslukerfinu. Einfaldleiki skattkerfis ræðst ekki af fjölda skattþrepa eða útreikningsreglum. Tölvurnar í skattkerfinu og launaforritin láta sig litlu skipta hvort stuðlarnir í skattareglunni eru fleiri eða færri. Einfaldleikinn liggur fyrst og fremst í skilgreiningu á skattstofninum og því hvernig hann er fundinn.
Spurnig er nú þegar jól eru að baki hvort ekki sé ástæða til að leggja alla grýlubúninga til hliðar og ræða fordómalaust um hvernig gera má tekjuskattskerfi einstaklinga þannig úr garði að það sé sanngjarnt og bitni ekki verst á þeim sem síst skyldi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.1.2008 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)