10.1.2008 | 18:59
Skattar, velferð og sanngirni
Eina ferðina enn er lagt upp í samninga um kjör í landinu með tillögur um breytingar í skattamálum í farteskinu. Er það vafalaust gert af góðum vilja en spurning er hversu raunhæft það sé og hvort tillögurnar séu byggðar á rökum eða óskhyggju. Reynslan af vinnubrögðum sem þessum er ekki góð.
Þau sjónarmið hafa verið sett fram að ekki sé við hæfi að samningsaðilar um kaup og kjör séu að skipta sér af skattamálum. Bent er á að löggjafarvaldið sé Alþingis en ekki annarra. Það er vissulega rétt en firrir ekki samningsaðilana eða nokkurn annan þeim rétti að setja fram óskir sínar og hugmyndir í skattamálum. Misjöfn reynsla af því að lögfesta breytingar á sköttum sem teknar eru hráar af borðum samningsaðila er ekki þeirra sök að öðru leyti en því sem tillögurnar kunni að hafa verið misráðnar. Ábyrgðin á því að slæmar tillögur af þessum toga eru lögfestar án faglegrar ígrundunar ber þing, sem lætur segja sér fyrir verkum. Kjarasamningsaðilum sem öðrum er rétt að leggja fram hugmyndir um skattamál. Þær á að taka alvarlega og ræða með tilliti til þess sem þær fela í sér í stað þess að kokgleypa þær eða hafna umræðulaust.
Ég benti á það í greinum í Mbl. sl. vor að loforð um skattalækkanir, sem ekki eru byggð á ákvörðunum um lækkun á opinberum útgjöldum, eru innantóm. Til lengri tíma litið eru skattarnir jafnir útgjöldum opinberra aðila. Raunveruleg lækkun skatta byggist á eða hefur í för með sér lækkun opinberra útgjalda. Ósk um lækkun skatta felur í sér þá tillögu að draga saman opinbera þjónustu eða draga úr félagslegum millifærslum og auka þannig svigrúm til einkaneyslu.
Tillögur ASÍ í tengslum við kjarsamninga nú fela í sér að tekjuskattur einstaklinga myndi lækka verulega. Þær fela einnig í sér auknar millifærslur. Til þess að þær gangi upp þarf því fleira að koma til. Annaðhvort verður að hækka aðra skatta eða skera niður útgjöld sem nemur lækkun skatta og hækkun millifærslna. Þótt það sé ekki útfært í hugmyndum ASÍ endurspeglar það væntanlega það mat þess að opinber þjónusta sé of umfangsmikil og ástæða sé til að auka einkaneysla og draga úr opinberri þjónusta.
Annar þáttur þessara hugmynda ASÍ snertir skattapólitík, þ.e. hverjir greiða skattana og hvað áhrif þeir hafa. Tillögur ASÍ eru nokkuð sérstæðar og settar fram í búningi sem gerir það að verkum að raunverulegt innihaldi þeirra er ekki ljóst nema skyggnst sé undir yfirborðið. Áherslur ASÍ í skattamálum gera ráð fyrir að til viðbótar við þann persónuafslátt sem fyrir er verði tekinn upp sérstakur persónuafsláttur að fjárhæð 240 þús. kr. ári. Sá afsláttur fari síðan lækkandi ef tekjur fara yfir 1.8 m.kr og falli að fullu niður þegar þær hafa náð 3,6 m.kr. Tekið er fram að ekki skuli hróflað við staðgreiðslukerfinu, sem væntanlega er tilvísun til þess að ein helsta mótbára gegn tveggja eða fleiri þrepa skatti hefur verið órökstudd fullyrðing þess efnis að það kerfi myndi hrynja með því.
Ef hugmynd ASÍ er sett fram eins og vant er að gera með skattútreikningskerfi kemur í ljós að hún er ekkert annað en tveggja þrepa skattkerfi.. Með orðalagi skattalaga hljóðar hugmynd ASÍ u.þ.b. þannig: 1) Af tekjuskattstofni allt að 3.600.000 kr reiknast 49,05% skattur (að meðtöldu útsvari) en af tekjum yfir 3.600.000 kr. reiknast 35,72% skattur (að meðtöldu útsvari), 2) Frá reiknuðum skatti sbr. 1 dregt persónuafsláttur að fjárhæð 888.409 kr. Það sem gerir þessa tilhögun frábrugðna venjulegu tveggja þrepa kerfi er að í hugmynd ASÍ er skatthlutfallið á lægri hluta tekjustigans hærra en það skatthlutfall sem gildir fyrir hærri tekjur.
Með þessu vinnst það, eins og tilgangur ASÍ er, að hækka skattleysismörk verulega. Hins vegar fylgja miklir annmarkar þessari aðferð. Má t.d, nefna að jaðarskattar á lágar tekjur og lægri miðlungstekjur allt að 3,6 m.kr. á mann verður mjög hár eða minnst 49,05%. Hafi viðkomandi einstaklingur börn á framfæri og eða fái vaxtabætur vegna húsnæðis getur hann orðið mun hærri. Sé tekið dæmi af foreldrum með tvö börn með vaxtagjöld af eigin húsnæði fer jaðarskatturinn í 60%. Er þá ekki tekið tillit til kostnaðar við barnagæslu o.fl. sem því kann að fylgja að afla meiri tekna. Fyrirkomulag sem þetta hefur verið nefnt fátækragildra vegna þess að það gerir fólki nánast ókleift að brjótast út úr þessum viðjum og afla sé aukinna ráðstöfunartekna. Þá þarf að hafa í huga að ef tillögur ASÍ um bætur almannatrygginga ná fram munu jaðarskattar og skerðing bóta almannatrygginga líka verða mjög mikil.
Auk þeirra neikvæðu áhrifa sem svo hár jaðarskattur hefur á vilja til vinnu og undanskotstilhneiginga eru vandfundin rök fyrir því að hafa jaðarskatt á lágar tekjur hærri en jaðarskatt á háar tekjur. Hver eru rökin fyrir því að einstaklingur í láglaunavinnu sem vinnur sér inn 100.000 kr. í viðbótartekjur missi 50 - 60.000 af þeirri fjárhæð í skatt og skerðingu bóta en af 100.000 kr. bónus hjá hálaunamanni yrðu aðeins teknar um 35.000 kr.? Slíkt fyrirkomulag stríðir gegn almennri vitund um hvað telst sanngirni í skattheimtu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 15:34
Skattskylda leigustarfsmanna og staðgreiðsla af launum þeirra
Í nýlegum dómi Hæstaréttar var ítalskt félag sem hér starfar leyst undan því að halda eftir staðgreiðslu á tekjuskatti og útsvari af hluta launa starfsmanna sem leigðir voru af erlendri starfsmannaleigu. Hefur lítt verið fjallað um þá þætti dóms þessa sem máli skipta m.a. í umræðu um starfshætti viðkomandi ráðningu erlendra leigustarfsmanna. Verður hér reynt að draga aðalatriði málsins saman og greina stöðuna að dómnum gengnum.
Útibú ítalska félagsins réð til sín erlenda starfsmenn, m.a. ítalska menn, sem skráðir voru sem starfsmenn höfuðstöðva Impregilo á Ítalíu, potúgalska menn, sem ráðnir voru í gegnum starfsmannaleigur í Portúgal og menn frá löndum utan EES en um skattgreiðslur þeirra var ekki ágreiningur. Tvísköttunarsamningur var í gildi milli Íslands og Portúgal en ekki milli Íslands og Ítalíu.
Félagið taldi að ítalskir og portúgalskir starfsmenn væru ekki skattskyldir hér á landi fyrr en dvalartími þeirra hér hefði náð 183 dögum og því bæri útibúinu ekki að halda eftir staðgreiðslu af launum þeirra. Skattyfirvöld litu hins vegar svo á að þessir hópar væru skattskyldir vegna launa sem þeir fengju fyrir vinnu hér á landi, útibúið væri hinn raunverulegi vinnuveitandi þeirra og bæri því að skila staðgreiðslu.
Í úrskurði um ágreining þennan staðfesti yfirskattanefnd afstöðu skattyfirvalda í öllum aðalatriðum, þar með að útibúið skyldi greiða staðgreiðslu af öllum launum starfsmanna. Nefndin féllst hins vegar á að ekki bæri að greiða tryggingagjald af launum þeirra starfsmanna, sem framvísa E-101 skírteini um að þeir væru tryggðir á EES svæðinu.
Félagið undi úrskurði yfirskattanefndar ekki að því er varðaði hina leigðu portúgölsku starfsmenn og kærði þann þátt málsins til héraðsdóms. Krafa þess var að því bæri ekki að skila staðgreiðslu af launum þessara portúgölsku starfsmanna þar sem þeir væru ekki skattskyldir á Íslandi vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi ríkjanna. Ennfremur taldi útibúið sig ekki launagreiðanda í skilningi staðgreiðslulaganna og af þeim ástæðum ekki staðgreiðsluskylt.
Erlendir menn eru skattskyldir hér á landi vegna launa fyrir störf sem unnin eru hér á landi, einnig launa sem greidd eru skv. samningum um útleigu á vinnuafli. Í tvísköttunarsamningum er gert frávik frá þessari reglu ef þrjú skilyrði eru uppfyllt: 1) að dvöl starfsmannsins sé skemmri en 183 dagar, 2) að launin séu ekki greidd af eða vegna vinnuveitandi í starfslandinu og 3) að kostnaðurinn sé ekki gjaldfærður hjá útibúi vinnuveitandans í starfslandinu.
Kærandi taldi að þessi skilyrði væru öll uppfyllt. Skattyfirvöld andmæltu því og studdu mál sitt þeim rökum að útibúið væri raunverulegur vinnuveitandi starfsmannanna. Var það byggt á sjónarmiðum um túlkun á tvísköttunarsamningum svo sem því hver fer með verkstjórn, hver ráði vinnustaðnum, hver beri ábyrgð á verkinu o.fl.
Héraðsdómur féllst á með skattyfirvöldum að útibúið hafi verið vinnuveitandi portúgölsku starfsmannanna í skilningi tvísköttunarsamningsins milli Íslands og Portúgals og starfsmennirnir því skattskyldir hér á landi. Ennfremur að ekki bæri að leggja annan skilning í hugtakið launagreiðandi í staðgreiðslulögunum en í hugtakið vinnuveitandi í tvísköttunarsamningnum. Bæri útibúinu því að halda eftir og skila staðgreiðslu. Þessum dómi áfrýjaði félagið til Hæstaréttar.
Hæstaréttur tók á tveimur álitaefnum. Í fyrsta lagi. Eru erlendir leigustarfsmenn frá samningsríki sem dvelja hér skemur en 183 daga skattskyldir hér á landi? Í öðru lagi. Ber hinum innlenda leigutaka að skila staðgreiðslu af launum þeirra? Hæstaréttur var sammála héraðsdómi um skattskyldu starfsmannannanna. Hvað síðara atriðið varðar snýr Hæstiréttur dómi héraðsdóms við og telur hugtakið launagreiðandi í staðgreiðslulögunum þrengra en hugtakið vinnuveitandi í tvísköttunarsamningum. Því verði ekki lögð staðgreiðsluskylda á leigutakann.
Þær niðurstöður sem fyrir liggja í máli þessu hafa skýrt skattareglur. Ágreiningur var í upphafi víðtækur. Á vegferð málsins hafa þessi atriði skýrst eitt af öðru. Samandregin niðurstaða úr málarekstrinum er þessi:
- Erlendir menn sem starfa hér á landi eru skattskyldir hér þótt dvöl þeirra sé minni en 183 dagar og þótt starfsmennirnir séu:
- skráðir starfsmenn höfuðstöðva erlendis og þiggi laun sín þaðan.
- teknir á leigu frá erlendri vinnuleigu ef íslenski aðilinn telst raunverulegur vinnuveitandi þeirra.
- Þrátt fyrir skattskyldu leigustarfsmanna ber innlendum vinnuveitanda ekki skylda til að skila staðgreiðslu til ríkissjóða nema af þeim launum sem hann ákveður og greiðir.
- Ekki ber að greiða tryggingargjaldi af launum ef framvísað er svokölluðu E-101 vottorði.
Staðan eftir þennan dóm er því sú að erlendir starfsmenn íslenskra vinnuveitenda, ráðnir eða leigðir, eru skattskyldir á Íslandi vegna launa sem þeir fá fyrir vinnu hér á landi. Vinnuveitandinn hér á landi er staðgreiðsluskyldur vegna þeirra nema af launum leigustarfsmanna að því leyti sem þau eru ákveðin og greidd af vinnuleigunni.
Hér er um augljóst misræmi að ræða sem engum er til hagsbóta. Án staðgreiðslu sæta starfsmennirnir skattlagningu eftir á. Vinnuveitandinn er hins vegar eftir sem áður ábyrgur fyrir skattgreiðslum þeirra skv. 116. gr. tekjuskattslaganna.
Erlendu leigustarfsmennirnir eru skattskyldir hér vegna starfa hér á landi eins þótt launin séu greidd af erlendri vinnuleigu. Greiðslan leigutakans til vinnuleigunnar telst ekki launagreiðsla hjá honum en er greiðsla fyrir fyrir þjónustu sem vinnuleigan innir af hendi hér á landi. Af greiðslum fyrir slíka þjónustu ber að greiða 15% tekjuskatt sbr. 3. tl. 3. gr. tekjuskattslaganna. Kaupanda þjónustunnar ber að halda eftir staðgreiðslu skv. 2. gr. staðgreiðslulaganna.
Í ljósi þessa má spyrja hvort barátta hins erlenda fyrirtækis hafi ekki frá upphafi byggst á misskilningi. Því verður ekki ætlað að hafa ráðgert að haga launagreiðslum með þeim hætti að starfsmenn kæmust hjá eðlilegum skattgreiðslum bæði hér og erlendis og að fyrirtækið nyti þess í lægri launagreiðslum. Að slíkri ætlan frátalinni eru augljóst að hagsmunum þess og allra aðila var og er best borgið með því að sama regla gildi um skatta og staðgreiðslur allra starfsmanna hvernig svo sem þeir eru ráðnir til starfa eins og lagt er til í nýlegu frumvarpi fjármálaráðherra.
11.5.2007 | 10:39
Skattar og skattalækkanir
(Eftir að ég birti á þessum vettvangi í gær tvær greinar af þremur um skattamál en sú fyrsta hafði birst í Morgunblaðinu hef ég fengið tilmæli um að birta hér einnig fyrstu greinina og fylgir hún hér á eftir.)
Skattar eru vinsælt umræðuefni, einkum í aðdraganda kosninga þegar kapphlaup hefst um að hafa girnilega bita með í loforðapakkanum. Reynslan sýnir hins vegar að skattaloforð eru oftast innantóm eða þýða allt annað en ætla má af umbúðum þeirra.
Skattar eru það verð sem við greiðum fyrir að lifa í siðuðu samfélag sagði dómarinn, Oliver Wendell Holmes, í þekktu hæstaréttarmáli í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar. Þessi setning hefur þótt lýsa sköttum betur en flest annað og er hún yfirskrift aðalstöðva alríkisskattastofnunarinnar IRS í Washington. Hún dregur fram það megineðli skatta að þeir eru ekki eitthvað sem borgararnir eru sviptir heldur það sem þeir þurfa að greiða fyrir það sem til þarf til að samfélag teljist siðað. Það er því ákvörðunin um það hvað við viljum verja miklu í þá þætti sem nauðsynlegir eru fyrir siðað samfélag, menntun, heilbrigðisþjónustu, forsjá aldraðra og þurfandi, löggæslu, menningarstarfsemi o.s.fr., sem ræður því hvað við borgum í skatta.
Tekjur manns eru ekkert annað en neysla hans að viðbættri eignaaukningu eða -skerðingu. Þjóðartekjurnar eru ekkert annað en neysla allrar þjóðarinnar að viðbættum eignabreytingum. Heildarneyslan skiptist í einkaneyslu annars vegar og samneyslu hins vegar, þ.e. það sem fer í að skapa og viðhalda siðuðu samfélagi. Skattarnir eru aldrei annað en þessi samneysla. Skattarnir eru því ekki ákveðnir í einhverju tómarúmi með skattalögum heldur með ákvörðunum um samneysluna. Með þeim er tiltekinn hluti þjóðarteknanna tekinn til samneyslu og einkaneyslan skert samsvarandi, þ.e. skattarnir ákveðnir.
Skattar verða því hvorki hækkaðir né lækkaði með breytingum á skattalögum. Þeir eru og verða það sem ákveðið hefur verið að setja í samneysluna. Skattalögin segja eingöngu til um það hverjir borga skattana, hvernig og hvenær. Loforðum um skattalækkanir með tilteknum breytingum á skattalögum eru því innantóma eða innihalda eitthvað allt annað en af er látið því skattalækkun hjá einum felur í sér jafnmikla skattahækkun hjá öðrum.
Sú skoðun þekkist að með því að lækka einhverja skatta sé knúð á um lækkun útgjalda. Í því kann að felast sannleikskorn sem ekki þarf ekki að vera jákvætt t.d. þegar ástæða er til að hækka útgjöld t.d. til menntamála, öldrunarmála o.s.fr. Eitt meginhlutverk þeirra sem gefa kost á sér til pólitískrar forystu er að leggja mat á og ákveða umfang samneyslunnar þannig að uppi verði haldið því samfélagi sem við viljum hafa. Til þess þarf vit og vilja en það hjálpar ekki að ganga til leiks með hendur bundnar af kreddum.
Hvað er hlutverk skattalaga ef það er ekki að hækka eða lækka skatta? Hlutverk skattalaga er að afla tekna fyrir þá samneyslu sem ákveðin hefur verið, þ.e. að skerða einkaneyslu sem henni svarar. Sé það ekki gert að fullu þýðir það ekki að skattarnir lækki því þeir eru ætíð jafnháir samneyslunni. Það kemur okkur hins vegar í koll með öðrum hætti sem vextir af lánum eða neysluskerðing af völdum verðbólgu.
Þar með er ekki sagt að sama sé hvernig skattar eru ákveðnir. Handahófskenndar ákvarðanir um lækkun hér og hækkun þar eru síst fallnar til að skapa skattkerfi sem stenst þær kröfur sem gera verður til þess. Kröfur til skattkerfis eiga að vera fáar og almennar. Það á að afla tekna fyrir samneyslunni, það á að gæta jafnræðis og vera sanngjarnt, það á að gæta hlutleysis eftir því sem kostur er og vera eins einfalt og mögulegt er. Með þessum almennu kröfum má leggja grundvöll að góðu skattkerfi og meta hvort það kerfi sem við höfum á hverjum tíma er verki sínu vaxið. Jafnræði, sanngirni og hlutleysi eru ekki innantómt orð. Með tilliti til skatta þýðir jafnræði að þeir þegnar sem jafnt eru settir skuli greiða sama skatt og sanngirni felur í sér að þeir sem betur eru settir skuli greiða meira í skatt en þeir verr settu. Í hlutleysi felst að kerfið á ekki að beinast að því að hafa áhrif á athafnir einstaklinga eða félaga.
Sú freisting er ætíð fyrir hendi að ætla skattkerfinu ýmis hlutverk önnur en að greiða fyrir samneysluna. Hefur það jafna reynst illa af þeirri einföldu ástæðu að þessi viðbótarmarkmið rekast oftast á innbyrðis og brjóta gegn skilyrðum um jafnræði, sanngirni og hlutleysi skattkerfisins. Dæmi um það eru tilraunir til að auka sparnað, stýra fjárfestingum og þróun atvinnulífs og margt annað. Þau hliðarmarkmið sem skást hafa reynst eru þau sem falla vel að megintilgangi skattkerfisins og þeim kröfum sem til þess eru gerðar. Má þar nefna markmið eins og að hafa áhrif á tekjudreifingu í samfélaginu, að leiðrétta fyrir markaðsbrestum t.d. með mengunarsköttum og að hafa áhrif í byggðaþróun.
Hér hefur verið dregin fram sú staðreynd að ekki er unnt að hækka eða lækka skatta með breytingum á skattalögum og áhrif skattabreytinga verður að meta á öðrum forsendum. Síðar verður fjallað um þróun skattkerfisins á síðustu árum, skattbyrði, dreifingu hennar o.fl.
10.5.2007 | 11:50
Dreifing skattbyrði
(Fyrir nokkru samdi ég 3 greinar um skattamál. Tilefnið var gegndarlausar yfirlýsingar og loforð um skattalækkanir, sem að mínu mati eru blekkingar. Fyrsta greinin birtist í Mbl sem aðsend grein sl. mánudag. Síðari greinarnar hafa ekki birst, sem líklega stafar af því að annað aðsent efni hefur forgang. Vera kann að efni síðari greinanna komi einhverjum að gagni til að átta sig á innihaldsleysi þeirra gylliboða um skattalækkanir, sama frá hvaða flokki er, sem eiga eftir að dynja yfir á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Afréð ég því að nota þessa miðlunarleið til að koma þeim á framfæri. Grein númer 2 hefur þegar birts sem blogg og fer 3. greinin hér á eftir.)
Í fyrri greinum um skatta var sýnt fram á að þrátt fyrir boðaðar skattalækkanir hefur skattbyrði hækkað á undanförnum árum. Ræðst það ekki af skattalögum heldur ákvörðunum um umfang samneyslu. Skattalögin ráða því hins vegar hvernig skattar eru greiddir og hver greiðir þá. Í því efni þarf skattkerfið að gæta jafnræðis og vera sanngjarnt. Í þessari grein verður skoðað hvernig skattabreytingar síðustu ára hafa haft áhrif á þessa þætti.
Á árunum um 1990 voru gerðar miklar breytingar á íslenska skattkerfinu, tekjuskattur einstaklinga var endurmótaður, virðisaukaskattur tekinn upp og margháttuð launatengd gjöld sameinuð í tryggingagjald. Á næstu árum á eftir var tekjuskattur fyrirtækja lagfærður með breikkun skattstofnsins og lækkun skatthlutfalls. Með þessum breytingum var lagður grunnur að skilvirku skattkerfi í samræmi við kröfur um jafnræði og sanngirni. Síðan þá hafa fjölmargar breytingar verið gerðar á skattkerfinu. Voru þær flestar gerðar á grundvelli sértækra sjónarmiða og án þess að heildarmynd skattkerfisins væri höfð í huga eða að hirt væri um grundvallaratriði góðrar skattheimtu.
Álagningarreglum tekjuskatts einstaklinga, skatthlutfalli, persónufrádrætti og hátekjuskatti hefur verið breytt margoft án þess að gerð væri nægileg grein fyrir áhrifunum breytinganna. Virðisaukaskattur á matvæli o.fl. var lækkaður tvívegis á vafasömum forsendum. Barnabætur og vaxtabætur voru lækkaðar að raungildi. Vaxtatekjur einstaklinga skattlagðar en skattur á arð og söluhagnað lækkaður. Tekjuskattur félaga var lækkaður án tillits til samræmis í skattlagningu. Þessar breytingar urðu ekki til þess að lækka skattbyrði, sem þvert á móti hækkað á þessum tíma og kom sú hækkun fyrst og fremst fram í hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Hér á eftir verður fjallað um hvernig það kom niður á mismunandi tekjuhópum.
Á árinu 1992 voru tekjuskattar einstaklinga að meðaltali um 17% af heildartekjum þeirra. Árið 2005 var meðalskatthlutfallið orðið um 22% og hafði því hækkað um 5 prósentustig eða rúmlega fjórðung. Hjá hjónum í lægsta tekjufjórðungi hækkaði skattbyrðin um 10 til 14 prósentustig, Hjá hjónum með meðaltekjur hækkaði skattbyrðin um 4,5 til 6 prósentustig, Hjá hjónum með hærri tekjur en ¾ hlutar allra hjóna hækkaði skattbyrðin um nálægt 2,5 prósentustig. Hjá þeim 10% hjóna sem hæstar tekjur hafa lækkaði skattbyrðin um 2 til 25 prósentustig.
Réttilega hefur verið bent á að sú staðreynd að laun hafa hækkað hefur leitt til aukinnar skattbyrði. Í tekjuskattskerfi með skattleysismörk og stígandi meðalskatthlutfall gerist það sjálfkrafa ef ekki er gripið inn í og föstum kerfisins breytt. Sé breytingar gerðar í hlutfalli við tekjubreytingar helst skattbyrðin óbreytt en ef þær fylgja verðlagsbreytingum hækkar skattbyrðin á uppgangstímum og raungildi skatta eykst á kostnað ráðstöfunartekna. Í samdrætti eru áhrifin andstæða þessa. Á síðustu árum hefur hvorugri þessari aðferð verið beitt en sú leið valin að hækka ekki skattleysismörkin í samræmi við tekjur og verðlag en lækka í stað þess skatthlutfallið. Óhjákvæmileg afleiðing slíkra aðgerða er að færa skattbyrðina af þeim sem sem hafa hærri tekjur á hina sem eru tekjulægri eins og tölurnar bera með sér.
Á það hefur einnig verið bent að þrátt fyrir aukna skattbyrði hafi ráðstöfunartekjur á föstu verðlagi hækkað. Er það rétt að vissu marki en ekki algilt. Þrátt fyrir almenna hækkun tekna hafa ekki allir hærri ráðstöfunartekna en þeir hefðu haft með sömu rauntekjur á fyrri árum. Hjón með allt að 4 milljónir í árstekjur 2005, en í þeim hópi eru um 19% hjóna, greiddu allt að 5% hærri skatt en hjón með sömu rauntekjur greiddu 1995. Ráðstöfunartekjur þeirra voru því lægri en þær hefðu verið með skattkerfinu frá 1995. Hjón með 4 - 6 millj. kr. tekjur 2005 greiddu svipað hlutfall tekna sinna í skatt og þeir hefðu greitt fyrir 10 árum af sömu rauntekjum. Aðrir með hærri tekjur greiða lægra hlutfall af rauntekjum í skatt en áður frá um 1% með 6-8 m.kr. í tekjur og upp í 15% þegar tekjur eru yfir 30 m. kr. Sé litið á rauntekjur hefur skattbyrði hækkað að jafnaði um 2 prósentustig. Hækkuð skattbyrði hefur leitt til lækkunar á ráðstöfunartekjum hjá u.þ.b. 20% tekjulægstu hjóna. Hjá öðrum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist eða haldist lítt breyttur.
Jafnræði í skattlagningu felst fyrst og fremst í því að þeir þegnar sem eins er ástatt um t.d. hafa sömu tekjur greiði sama skatt. Sanngirni kemur fram í því að þeir sem háar tekjur hafa greiði hærra hlutfall þeirra í skatt en hinir tekjulægri. Þegar framangreindar tölur eru skoðaðar verður varla sagt að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á síðustu árum stuðli að þessum markmiðum og að tekjuskattskerfið gæti jafnræðis og sanngirni.10.5.2007 | 11:36
Skattbyrði
(Fyrir nokkru samdi ég 3 greinar um skattamál. Tilefnið var gegndarlausar yfirlýsingar og loforð um skattalækkanir, sem að mínu mati eru blekkingar. Fyrsta greinin birtist í Mbl sem aðsend grein sl. mánudag. Síðari greinarnar hafa ekki birst, sem líklega stafar af því að annað aðsent efni hefur forgang. Vera kann að efni síðari greinanna komi einhverjum að gagni til að átta sig á innihaldsleysi þeirra gylliboða um skattalækkanir, sama frá hvaða flokki er, sem eiga eftir að dynja yfir á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Afréð ég því að nota þessa miðlunarleið til að koma þeim á framfæri og fer 2. greinin hér á eftir.)
Í fyrri grein minni, skattar og skattalækkanir, gerði ég nokkra grein fyrir skattahugtakinu og dró fram þá staðreynd að skattar eru aldrei annað en samneysla þegnanna og að skattar verða ekki hækkaðir eða lækkaðir með breytingum á skattalögum en aðeins með breytingu á samneyslunni. Í þessari grein er ætlunin að fjalla nokkuð um skattbyrði og breytingar á henni á síðustu áratugum.
Skattbyrði er hugtak sem hefur oft borið á góma á síðustu misserum en skilningur á því hugtaki virðist ærið misjafn. Deilt hefur verið um það hvort skattbyrði hafi hækkað eða ekki og hvort tilteknar skattabreytingar hafi lækkað skatta eða hækkað.
Í umfjöllun um skatta á alþjóðavettvangi er skattbyrði hugtak sem þýðir einfaldlega skattar eða samneysla sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu). Í þrengra samhengi er talað um skattbyrði einstakra skatttegunda t.d. tekjuskatts eða virðisaukaskatts og þá einnig sem hlutfall þess skatts af VLF. Annar mælikvarði á skattbyrði einstakra skatttegunda er meðalskatthlutfallið þ.e. viðkomandi skattur sem hlutfall af skattstofninum t.d. tekjuskattur sem hlutfall af heildartekjum. Þannig má bera saman skattbyrði einstakra hópa svo sem manna með mismunandi tekjur, aldraðra o.s.fr.
Góðar heimildir eru til um skatta á Íslandi. Þjóðhagsstærðir svo sem VLF og samneyslu má finna í skýrslum OECD og fyrir hendi eru ítarlegar upplýsingar um álagningu flestra skatta á heimasíðu ríkisskattstjóra. Hafa þær verið flokkaðar og greindar frá ýmsum sjónarhornum. Ástæðulaust ætti því að deila um staðreyndir varðandi skattbyrði hvernig svo sem menn túlka þær.
Samkvæmt skýrslum OECD hækkaðu meðalskattbyrði í aðildarríkjum þess úr 32,5% í 36% á árunum 1985 til 2005. Á Íslandi hækkaði meðalskattbyrðin úr um 31% í um 41% á sama tíma eða um 10 prósentustig sem var meiri hækkun en í nokkru öðru OECD ríki að Tyrklandi undanskildu. Óumdeilanlegt er því að skattar hafa hækka og skattbyrði aukist.
Við nánari greiningu kemur í ljós að skattbyrði af virðisaukaskatt hefur lækkað nokkuð á árunum frá 1995 og að nær alla hækkun skattbyrðinnar má rekja til breytinga á tekjuskatti einstakling, sem var 28% af skatttekjum hins opinbera í byrjun tímabilsins en var orðinn 36% í lok þess.
Í OECD ríkjunum lækkuðu tekjuskattar einstaklinga úr 10,5% af VLF í 9,1% frá 1990 til 2004. Á sama tíma hækkaði þetta hlutfall á Íslandi úr 8,3% í 14,3% eða um 6 prósentustig og var hlutfallið á Ísland þá orðið það fjórða hæsta í OECD.
Sé litið á tekjuskatta einstaklinga sem hlutfall af heildartekjum þeirra sést hið sama. Meðalskatthlutfallið hefur á árunum 1993 til 2006 hækkað úr rúmum 17% í um 22% eða um 5 prósentustig. Þessi hækkun var nokkuð jöfn og viðvarandi frá 1993 til 2002 en hlutfallið hefur haldist nær óbreytt síðan.
Í ljósi framangreindra staðreynda er ekki um það að deila að skattar hafa hækkað hér á landi og skattbyrði aukist á síðustu tveimur áratugum. Þessi hækkun er óhjákvæmileg afleiðing af þeirri samfélagsþróun sem hefur verið í gangi og kemur m.a. fram í því að meiru er varið en áður til samneyslunnar af ýmsum ástæðum. Þegar það gerist hækka skattarnir og skattbyrðin eykst hvað svo sem líður loforðum um skattalækkanir.
Því hefur verið haldið fram að skattbyrði hafi ekki hækkað því kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi aukist. Slík röksemdafærsla er byggð á misskilningi því skattbyrði getur hækkað án þess að leiða til skerðingar á kaupmætti einstaklinga ef tekjur þeirra vaxa á sama tíma meira en sem nemur verðlagsbreytingum. Hækkun skattbyrði við slíkar aðstæður þýðir þó að kaupmáttur ráðstöfunarteknanna hækkar minna en kaupmáttur tekna fyrir skatt. Einstaklingarnir sjá á eftir stærri hluta af kaupmætti tekna sinna til hins opinbera en áður var sem þýðir að skattbyrðin hefur aukist.
Hér hefur verið dregið fram að skattbyrði á Íslandi hefur aukist í samræmi við hækkun opinberra útgjalda á síðustu tveimur áratugum og að hækkunin kemur fyrst og fremst fram í hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Þetta segir okkur að boðaðar skattalækkanir með breytingum á skattalögum á undanförnum árum hafa ekki skilað sér. Er það eðlilegt því engin tengsl eru á milli slíkra breytinga og þess sem ræður skattbyrðinni í reynd. Loforð um lækkun skattbyrði með breytingum á skattalögum eru í eðli sínu marklaus.
Þótt breytingar á skattalögum hafi ekki áhrif á skattbyrðina í heild hafa þær afgerandi áhrif á hvernig skattbyrðin breytist hjá einstökum hópum, t.d. mismunandi tekjuhópum, öldruðum, barnafólki o.s.fr. Er þar komið að meginhlutverki skattalaga, þ.e. að sjá til þess að ákvörðun skatta sé með þeim hætti sem bestur þykir og að uppfylltar séu þær kröfur, sem gerðar eru til skattkerfisins og minnst var á í síðustu grein, að skattkerfið gæti jafnræðis, sé sanngjarnt og hlutlaust. Í næstu grein verður vikið að því og hvaða áhrif breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum hafa haft á dreifingu skattbyrði og breytt ásýnd skattkerfisins.