Útrás og innrás, efnahagsleg og skattaleg áhrif

(Eftirfarandi er ágrip og helstu niðurstöður ítarlegri greinar sem finna má í viðhengi við bloggið.)

Í umræðu um erlenda fjárfestingu er oft vikið að þýðingu hennar fyrir efnahagslíf og ríkisbúskapinn m.a vegna skatta sem þessi félög greiða. Fjárfesting og atvinnurekstur utan heimalandsins er yfirleitt talin vera af hinu góða fyrir efnahagslíf heimsins og einstakra landa, m.a. vegna útbreiðslu nýrrar tækni og þekkingar og betri nýtingar á fjárfestingum. Þessi viðtekna skoðun hefur án nægilegrar gaumgæfni leitt til alhæfinga um þýðingu útrásar og erlendra fjárfestinga fyrir íslenskt efnahagslíf, sem ekki virðast raunhæfar þegar grannt er skoðað.

Þótt erlend fjárfesting sé þannig jafnan talin hafa jákvæð áhrif á efnahagslíf og auki þann virðisauka sem er til skiptanna eru þessi áhrif á hvert land um sig háð aðstæðum í því á hverjum tíma. Efnahagslegt gildi fjárfestinga yfir landamæri fyrir þau lönd sem hlut eiga að máli ræðst einkum af því hvernig í því er háttað um eignarhald á félögum, skattamál og auðlindamál.

Lítill hluti af hagnaði af starfsemi íslenskra útrásarfélaga erlendis skilar sér í hendur innlendra aðila og er ráðstafað hér á landi. Skatttekjur íslenska ríkisins af þessari starfsemi eru tengdar þeim hagnaði sem tekin er til landsins og gildandi skattareglum svo og leiða til að koma hagnaði óskattlögðum úr landi. Áhrif útrásar íslenskra aðila á íslenskt efnahagslíf eru því að líkindum ekki ekki mjög mikil og skatttekjur íslenska ríkisins af atvinnurekstri íslenskra aðila erlendis eru ekki miklar. Ástæðan fyrir hvoru tveggja er að hluta til sú að eignarhald á íslenskum eigendum útrásarfyrirtækjanna er að nokkuð miklu leyti í höndum aðila sem skráðir eru erlendis en einnig af því að skattareglur í þessum efnum hér á landi eru ófullnægjandi.

Erlend fjárfesting hér á landi er efnahagslega mikilsverð vegna verðmætasköpunar sem ella hefði ekki orðið og kemur fram í þeim virðisauka sem af starfseminni hlýst. Virðisaukinn rennur til þeirra aðila sem leggja eitthvað til starfseminnar, vinnuafl, fjármagn, auðlindir eða réttindi. Hlutur íslenskra aðila er laun starfsmanna, hagnaður innlenra aðfangasala og tekjuskattar sem félög í erlendri eigu og eigendur þeirra greiða og auðlindagjald sé það tekið.

Áhrif beinnar erlendrar atvinnustarfsemi á Íslandi á efnahagslífið eru margþættari en þegar um útrás er að ræða og ávinningur fyrir efnahagslífið torráðnari m.a.vegna óvissu um fórnarkostnað. Auk vinnulauna er ávinningurinn fyrst og fremst fólginn í hagnaði innlendra aðfangasala og sköttum á félög i erlendri eigu og eigendur þeirra.

Líklegt er að innlend hlutdeild í virðisauka af erlendri atvinnustarfsemi hér á landi sé hlutfallslega fremur lítil. Þáttur vinnuafls í orkufrekum iðnaði er fremur lítill, hagnaður og vextir af fjármagni renna að mestu til erlendra aðila og ekki tekið gjald fyrir afnot af auðlindum. Þá er skattheimta af þeim hluta virðisaukans sem rennur til erlendra aðila fremur lítil og hefur farið minnkandi með lækkun tekjuskatts á félög.

Þróun viðskiptaumhverfis á síðustu árum hefur auðveldað flutning úr landi á hagnaði hvort sem er af innlendri starfsemi eða útrásarstarfsemi og breytingar á skattalögum, m.a. lækkun á tekjuskatti félaga hafa aukið þann hluta hagnaðar sem farið getur skattfrjáls eða lítt skattlagður úr landi.

Það hefur verið haft á orði, stundum sem hótun, að eitt eða annað þessara félaga flytji sig úr landi ef ekki er farið að vilja þess. Afleiðingar þess fyrir efnahagslífið og afkomu ríkisins hafa verið málaðar dökkum litum og endurómaðar gagnrýnislaust af áhrifagjörnum.

Hafa þarf í huga að félög er ekki hægt að flytja milli landa með pennastriki einu. Vilji eigendur hætta starfsemi félags hér á landi verður að slíta því eða selja það í hendur annarra. Við slit eru eignir seldar, reksturinn gerður upp og greiddir skattar af uppsöfnuðum hagnaði. Kjósi eigendurnir að selja félagið, þ.e. hlutina í því í hendur annarra, e.t.v. félags sem þeir eiga erlendis, starfar félagið engu að síður áfram hér á landi með íslenska starfsmenn og borgar skatta af þeirri starfsemi þótt einhver starfsemi höfuðstöðva kunni að færast til annars lands.

Það er starfsemin hér á landi, sem fyrst og fremst hefur þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf og skatttekjur ríkissjóðs. Breyting á eignarhaldi og flutningur höfuðstöðva hefur ekki stórfelld áhrif ef félagið heldur áfram starfsemi sinni hér. Vilji félagið ekki sinna starfsemi hér, t.d. innlendri bankastarfsemi, munu aðrir aðilar vafalítið yfirtaka hana, skapa hér fleiri störf en þeir höfðu áður haft og skila meiri hagnaði og skatttekjum en áður.

Vissulega er skaði að því að vel rekin fyrirtæki hætti hér störfum en það er langt í frá að vera héraðsbrestur.

Grein í heild er í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Bestu þakkir fyrir þetta fróðlega  innlegg.  Flestir hafa hingað til að mestu litið  gagnrýnislaust  á þetta frá einni hlið.

Þórir Kjartansson, 7.2.2008 kl. 08:59

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeir stjórnmálamenn sem gæta hagsmuna auðmanna kunna að setja þessa umræðu í þann farveg sem viðfangsefninu hentar.

Ryki er slegið í augu fólks og ótrúlega margir blindast.

Það er viðurkenndur þjóðarsannleikur að vöxtur og viðgangur samfélagsins sé háður því að lukkuriddarar fjármagnsins fái að hegða sér að eigin vild.

En það er þakkarvert þegar sérfræðingar á borð við síðuhöfund taka til máls um þessi efni.

Árni Gunnarsson, 7.2.2008 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband