Er stóriðja leið út úr kreppunni?

Staðhæfingar settar fram án raka öðlast stundum vægi langt umfram inntak þeirra. Þannig er umræðunni oft snúið upp í hinn gamalkunna leik „með eða móti“ líkt og nú hefur verið gert í umræðu um byggingu orku- og stóriðjuvera. Tvær staðhæfingar í þeirri umræðu eru sérstaklega varhugaverðar, annars vegar að slíkar framkvæmdir séu nauðsynlegar, séu jafnvel leiðin út úr „kreppunni“ og hins vegar að framtíð íslensks efnahagslífs sé best tryggð með nýtingu orkuauðlinda fyrir stóriðju. Önnur þeirra horfir til skamms tíma en hin lengra fram á veg. Báðar eru vafasamar, líklega rangar og jafnvel skaðlegar.Efnahagsleg áhrif stórframkvæmda verður að meta með hliðsjón af efnahagsstefnu bæði til skemmri og lengri tíma. Til skamms tíma, segjum 3 til 5 ára, er markmiðið að koma atvinnulífinu í gang. Það þarf að gerast innan þess ramma sem settur er af erfiðri stöðu í gjaldeyrismálum, skuldastöðu þjóðarbúsins, halla á rekstri ríkissjóðs og skuldum hans. Til lengri tíma litið er markmiðið að stuðla að vexti hagkerfisins með þeim hætti að það veiti þegnunum sem mest lífsgæði. Til þess þarf atvinnulífið að skila sem mestum virðisauka til þjóðarinnar fyrir vinnuframlag, fjármagn og auðlindir.

Áhrif til skamms tíma. Efnahagsleg áhrif stóriðjuframkvæmda til skamms tíma eru ekki einhlít. Helst hefur verið horft til áhrifa þeirra á vinnumarkað, aukinnar byggingarstarfsemi og atvinnusköpunar sem henni tengjast. Ekki má vanmeta þau áhrif en hafa ber í huga að þau eru að mestu leyti til skamms tíma. Áhrif hverrar stórframkvæmdar um sig getur verið nokkur hundruð eða fá þúsund ársverka um tveggja til þriggja ára skeið en eins og reynslan sýnir og sjá má í þeim hagspám sem gera ráð fyrir stórframkvæmdum á næstu árum fjara þau áhrif út.Áhrif stórframkvæmda, sem fjármagnaðar eru með erlendu fé, á gjaldeyrismál til skamms tíma eru einnig óljós. Til mjög skamms tíma litið gætu þær styrkt stöðu krónunnar en fljótlega kæmu líklega í ljós neikvæð áhrif sem gætu varað í einhvern tíma. Fyrst í stað kæmi erlent lánsfé inn í landið en endurgreiðslur og vextir næstu ár á eftir yrðu líklega hærri en tekjur í erlendri mynt. Þá má benda á að lán innlendra aðila til orkuframkvæmda verða væntanlega dýr næstu árin. Þannig eru stóriðjuframkvæmdir ekki líklegar til að bæta gjaldeyrisstöðu eða auka fjármálastöðugleika til skamms eða meðallangs tíma litið.Skammtímaáhrif orku- og stóriðjuframvæmda á ríkisfjármál eru ekki mikil. Tímabundið má reikna með auknum tekjum og minni bótagreiðslum. Þau áhrif fjara út að uppbyggingartíma liðnum en þá koma tekjur af þessum þáttum í eðlilegum rekstri. Áætla má að störf og afleidd störf í meðalálveri á ísl. mælikvarða séu um 0,6% heildarmannafla og tekjuskattar einstaklinga að meðtöldu tryggingagjaldi verði í samræmi við það. Líklegt er að sá slaki sem nú er á vinnumarkaði verði að mestu úr sögunni þegar ný álver kæmust í rekstur og því er ekki um viðbótartekjur að ræða fyrir ríkissjóð, aðeins tilflutning uppsprettunnar. Meðal annars vegna afskrifta á fjárfestingum verður ekki um teljandi aukningu á skattgreiðslum fyrirtækisins að ræða fyrstu 5 til 8 árin eftir miklar framkvæmdir eins og sjá má af reikningum íslensku álfyrirtækja.

Efnahagsleg áhrif til lengri tíma.Til lengri tíma litið eru forsendur fyrir mati efnahagslegra áhrifa aðrar en að framan greinir. Þá þarf einkum að meta gildi stóriðju með hliðsjón af varanlegum efnahagslegum áhrifum og samanburði við aðra kosti á nýtingu mannafls, fjármagns og náttúruauðlinda. Almennt er viðurkennt að skynsamlegt sé að láta frjálsan markað ráða sem mestu um hvað er framleitt, hvar og hvernig. Til þess að markaðurinn virki og skili hagkvæmum lausnum þurfa þó ákveðin skilyrði að vera uppfyllt svo sem að verðlagning á nýtingu náttúruauðlinda sé eðlileg og að neikvæð úthrif svo sem mengun séu verðlögð og komi fram í kostnaði við framleiðsluna. Gagnsæi í þessum atriðum er forsenda skynsamlegra ákvarðana.Margt bendir til þess að efnahagsleg áhrif stóriðju til langs tíma séu mikið minni en almennt hefur verið talið og að það svari vart kostnaði að leggja mikið undir með fjárhagslegum ívilnunum eða með því að binda nýtingu orkuauðlinda langt fram í tímann. Efnahagslegt gildi stóriðju ræðst mikið til af því hvernig sá virðisauki hún skapar skiptist á milli innlendra og erlendra aðila. Eins og nú háttar má reikna með að um 2/3 hlutar virðisaukans renni til erlendra aðila en einungis um 1/3 til innlendra í formi launa og hagnaðar innlendra aðila, sem selja iðjuverinu vinnu og þjónustu auk skatta af hagnaði starfseminnar.Áætla má að störf þ.m.t. afleidd störf vegna meðalálvers á Íslandi séu 0,5 til 0,7% mannaflans. Uppbygging slíkrar stóriðju er því ekki stórvirkt tæki í atvinnusköpun. Reikna má með að efnahagsleg áhrif þessa vinnuafls séu varla meiri en 0,5% af vergri landsframleiðslu. Ýmsir telja þó að mestar líkur á því að langtímaáhrif einstakra framkvæmda á atvinnustigið séu engin, þ.e. þær ryðji annarri atvinnu burt og efnahagsleg áhrif ráðist af því hvort starfsemin hafi haft í för með sér almenna framleiðniaukningu í landinu.Annar hluti efnahagslegra áhrifa eru skattar sem greiddir eru af hagnaði. Tekjuskattur meðalálvers á Íslandi eftir að afskrifatíma er lokið gætu verið 1 - 1,5 milljarðar á ári. Það er um eða innan við 0,1% af vergri þjóðarframleiðslu. Þriðji þátturinn er hagnaður af orkusölu til iðjuversins. Um hann er lítið vitað með vissu en hann er ólíklega mikill meðal annars vegna þess að álverin virðast hafa fengið býsna góða samninga um raforkukaup. Efnahagsleg langtímaáhrif af meðalálveri gætu skv. framangreindu verið á bilinu 0,1 til 1% af VLF. Er þó ekki tekið tillit til neikvæðra úthrifa Með það í huga að stóriðjuverin nota 75-80% af allri raforku sem framleidd er í landinu er sú spurningin áleitin hvort þetta sé þjóðhagslega hagkvæm nýting orkuauðlindanna.

Niðurstaða.Efnahagsleg áhrif stóriðjuframkvæmda til skamms tíma litið réttlæta ekki það vægi sem þeim hefur verið gefið í umræðu um viðbrögð við kreppunni. Þær hafa takmörkuð tímabundin áhrif á vinnumarkað en engin teljandi jákvæð áhrif á gjaldeyrismál og ríkisfjármál. Stóriðjuframkvæmdir eru því lítilvirk tæki til að komast út úr efnahagslægð. Engin rök standa til þess að láta skammtímasjónarmið hafa áhrif á ákvarðanir um uppbyggingu stóriðju.Eins og verðlagningu á nýtingu náttúruauðlinda, mengunarmálum og skattlagningu erlendrar stóriðju er nú háttað er vafasamt að efnahagsleg rök mæli með frekari uppbyggingu hennar. Nýting náttúruauðlindanna í þágu þeirra sem eiga þær kallar á ítarlega skoðun og breytingar á þessum atriðum áður en ákvarðanir eru teknar. Nýting á náttúruauðlindunum er svo stórt hagsmunamál fyrir þjóðina að ekki ætti að koma til álita að taka ákvarðanir um hana á grundvelli skammtímasjónarmiða, staðbundinna hagsmuna eða óvissra efnahagslegra forsenda.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Stóriðjan er eina raunhæfa leiðin til að flytja raforku út en við höfum ekki möguleika á að flytja hana með streng til annarra landa við flytjum hana í föstu formi út það getur verið að hagkv   æmnin  verði ekki mikil fyrr en eftir að hvert ver hefur starfað í 20 ár  þegar virkjunin sem byggð er fyrir álverið er að fullu greitt.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 6.11.2009 kl. 00:05

2 Smámynd: Offari

Ég er allavega ekki tilbúinn til þess að segja nei við stóriðju eins og nú árar.  Stóriðjur og virkjanir eru hinsvegar langtímafjárfesting og því ekki skjótur gróði sem læknar öll sár á svipstundu.  Mín reynsla er að stöðugar tekjur eru mun betri en sveiflutekjurnar. Þótt meðaltalið sé betra hja sveiflunum þá er stöðugleikinn alltaf eitthvað sem hægt er að treysta á.

Ég vil hinsvegar ekki ganga svo langt að segja stóriðjuna einu leiðina út úr þessari kreppu eins og sumir vilja segja, því ég tel að við eigum eftir að fá fullt af öðrum tækifærum, en gallinn er að þau standa okkurekki núna til boða.

Offari, 6.11.2009 kl. 00:53

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég veit að ég kalla yfir mig reiði einhverra, en ég tek heilshugar undir niðurlag færslu Indriða.  Þetta er hverju orði sannara.  Þetta kom sem mjög ávænt niðurstaða út úr lokaverkefni mínu í aðgerðarannsóknum við Stanford háskóla fyrir rúmum 20 árum.  Vissulega hafa ýmsar forsendur breyst, en mér virðist þær frekar hafa breyst til hins verra.  Við sitjum t.d. uppi með gríðarlegar skuldir vegna Kárahnjúkavirkjunar sem réttlætir illa þau störf sem urðu til á Austurlandi vegna stóriðjunnar þar.  Ég sá að forstjóri Alcoa á Íslandi réttlætti þetta með sköttum starfsmanna og þjónustuaðila, en ekki með beinum tekjum af fyrirtækinu.  Mikið var ég glaður, þegar ég sá þetta, þar sem þetta var nákvæmlega niðurstaða reiknilíkans míns veturinn 1987-8.  Hagur okkar af stóriðju byggðist fyrst og fremst af sköttum starfsmanna!  I hate it when I am right!

Ég er ekki með þessu að segja, að ekki eigi að nýta orku landsins til að knýja orkufrekan iðnað.  Ég er bara að vara við því, að hagkvæmni slíks er ekki sjálfgefin og það er besta mál að skoða fleiri möguleika.  Það eru mörg fyrirtæki á Íslandi sem skila þjóðfélaginu mun meiri arðsemi á hvern starfsmann, en stóriðjan gerir.

Marinó G. Njálsson, 6.11.2009 kl. 01:05

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er nefnilega það. Þá er rétt að við stöldrum við og hugsum okkar gang. Löngu komin tímí á slíkt.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 6.11.2009 kl. 01:12

5 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Takk fyrir þennan pistil, sem óneitanlega hlýtur að hafa meira vægi í umræðunni, vegna stöðu og starfa höfundar.

Skammtímaáhrif vs langtímaáhrif eru þungamiðja og kjarni stóriðju.  Höfundur staðfestir að langtímaáhrif séu það lítilvæg að þeir sem um þessi mál fjalla af hálfu stjórnvalda, hljóta að íhuga vel og vandlega næstu skref, í ljósi lélegs afrakstrar fyrri ævintýra.

Kjarninn í þessu er auðvitað eftirfarandi þáttur:

"Þriðji þátturinn er hagnaður af orkusölu til iðjuversins. Um hann er lítið vitað með vissu en hann er ólíklega mikill meðal annars vegna þess að álverin virðast hafa fengið býsna góða samninga um raforkukaup."

Varlegt orðalag að mínu mati, sem þó staðfestir gróusögur um að verið sé að selja stóriðjuorkuna á alltof lágu verði.  Enn er þó þessi misteríska dulúð í kringum orkusöluverð til stóriðju.

Framtíðarstóriðja, eigi hún einhverja framtíð hlýtur því að miða að því að gerð verði hæfileg arðsemiskrafa til orkusölufyrirtækja, enda eru þau venjulega að selja orkuna til mjög langs tíma, mannsaldurs eða meira og því hlýtur fórnarkostnaðurinn vegna þverrandi grænnar orku í heiminum og hækkandi heimsmarkaðsverðs, að vera óbærilegur í þessum niðurnegldu "langtímaorkusölusamningum" til stóriðju á Íslandi, sem samið hefur verið um s.l. áratugi.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.11.2009 kl. 02:06

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Ef tilfellið er að menn hafa samið um of lágt verð fyrir orkuna til álveranna og orkusalan er nánast ekki að skila neinni framlegð inn í þjóðarbúið þá er ég sammála þessari niðurstöðu þinni.

Verkefnið á þá að vera að taka þessa samninga upp. Ef það er ekki hægt þá á ekki að endurnýja þá nema til komi hækkun á orkuverðinu.

Það verður að gera þá lámarks kröfu að nýting þessara auðlinda skili samfélaginu / eigendum eðlilegum arði.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.11.2009 kl. 09:55

7 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Af hverju kemur adstodarmadur fjarmalaradherra fram eins og sjalfstædur frelsandi engill a thessum timum? Fyrir hvad stendur thessi embættismadur? Er hann truverdugur? Nei, enda fær hann launin sin fyrir ad halda fram stefnu yfirmanns sins. "Ahrifin ekki einhlit"  --- hvilik viska!

Af hverju leggur hann tha ekki til ad loka thessu øllu saman og nota orkuna i "eitthvad annad". Hver er framlegd 18000 rikisstarfsmanna? Adstodarmadurinn vinnur fyrir tha sem hafa vøldin, hann hlytur ad radleggja lokun allrar storidu og thar af leidandi lokun flestra orkuveranna. Eda gridarlega mikid "eitthvad annad". Ekki er enn buiod ad auglysa starf tollvardanna sem eg ætladi ad sækja um  og løgreglumønnum hefur bara fækkad. Hurra fyrir Indrida og øllum hinum .

Sigurjón Benediktsson, 6.11.2009 kl. 10:28

8 Smámynd: Rauða Ljónið

Samkvæmt rekstrarreikningi samstæðunnar nam hagnaður fyrstu sex mánuði ársins 2009 tæplega 47,3 milljónum USD eða um 6 milljörðum króna á núverandi gengi.

Árshlutareikningurinn er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og er í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill Landsvirkjunar. Handbært fé frá rekstri nam rúmlega 103,6 milljónum USD og eigið fé í lok tímabilsins nam rúmlega 1,4 milljörðum USD.

Helstu stærðir árshlutareiknings samstæðu Landsvirkjunar (fjárhæðir í þúsundum Bandaríkjadala):

 SAMSTÆÐA
 Jan-júníJan-júníJan-júníJan-júní
 2009200820072006
Rekstrartekjur139.009239.623173.427161.502
Rekstrargjöld(89.650)(101.583)(85.221)(84.476)
Rekstrarhagnaður49.359138.04088.20677.026
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld)12.173(3.614)331.409(221.624)
Hagnaður (tap) fyrir skatta61.532134.426419.616(144.598)
Tekjuskattur(14.274)(50.977)(111.032)186.028
Hagnaður47.25883.449308.58441.430
     
 30.6.200931.12.200831.12.200731.12.2006
Eignir samtals4.555.3384.619.2205.142.3034.279.794
Eigið fé1.421.4551.376.7921.600.1451.143.272
Skuldir3.133.8833.242.4283.542.1583.136.522
     
Handbært fé frá rekstri103.64476.35664.93290.127
     
EBITDA104.160189.374125.348113.277
Eiginfjárhlutfall31,2%29,8%31,1%26,7%
                

Tekjur samstæðunnar námu 139 milljónum USD á tímabilinu en voru 239,6 milljónir USD á sama tímabili árið áður. Nemur lækkunin um 100 milljónum USD og stafar einkum af lækkun álverðs, sem var mjög hátt á fyrri helmingi síðasta árs en lækkaði síðan hratt, og lækkun krónunnar gagnvart USD.  Tekjulækkunin hefur minni áhrif á afkomu fyrirtækisins en ætla mætti vegna áhættuvarna. Á tímabilinu janúar til júní 2009 fékk fyrirtækið greiddar 40 milljónir USD frá erlendum fjármálastofnunum vegna álvarna en á sama tímabili 2008 greiddi fyrirtækið 35,7 milljónir USD vegna áhættuvarnarsamninga.  Innleystar áhættuvarnir eru færðar meðal fjármagnsliða. Þar eru einnig færð vaxtagjöld sem lækkuðu úr 91,3 milljónum USD á fyrstu 6 mánuðum ársins 2008 í 45,9 milljónir USD á sama tímabili í ár, einkum vegna lækkunar millibankavaxta í Bandaríkjunum og Evrópu.

Afkoma Landsvirkjunar ræðst að verulegu leyti af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða tengdum orkusölusamningum fyrirtækisins og þróun á gengi en hluti langtímaskulda er í annarri mynt en starfrækslugjaldmiðli samstæðunnar. Jákvætt gangvirði afleiða sem fært er til eignar í lok júní 2009 nemur rúmlega 187 milljónum USD og er þá búið að draga frá neikvætt gangvirði þeirra afleiðusamninga sem fyrirtækið hefur gert. Áhrif gangvirðisbreytinganna eru færð í rekstrarreikningi.

Lausafjárstaða Landsvirkjunar er góð en í lok júní nam handbært fé tæplega 129 milljónum USD.  Fyrirtækið hefur einnig aðgang að 308 milljóna USD veltiláni sem fyrirtækið getur nýtt sér hvenær sem er. Sjóðsstaða að viðbættu ónotuðu bankaláni í lok júní nam því samtals 437 milljónum USD. Fyrirtækið hefur þannig tryggt sér fjármögnun út árið 2011.

Til að tryggja enn frekar lausafjárstöðu Landsvirkjunar hafa fyrirtækið og ríkissjóður gert sérstakan viðbúnaðarsamning. Samningurinn er þannig að Seðlabankinn mun afhenda fyrirtækinu erlendan gjaldeyri og Landsvirkjun afhenda bankanum krónur eða skuldabréf í staðinn en þó því aðeins að fyrirtækið hafi áður fullreynt allar aðrar fjármögnunarleiðir. Fjárhæð samningsins er að hámarki 300 milljónir USD og rennur hann út 1. júlí 2011.

Í lok júní námu heildareignir fyrirtækisins tæplega 4,6 milljörðum USD og eiginfjárhlutfall var 31,2%.

Horfur um rekstur Landsvirkjunar eru allgóðar fyrir allt árið 2009, einkum ef álverð helst á því bili sem nú er, en álverð hefur hækkað verulega frá því að það fór lægst í mars sl. Gengisþróun og þróun álverðs munu þó sem fyrr ráða miklu um afkomu ársins.

Rauða Ljónið, 6.11.2009 kl. 10:39

9 Smámynd: Rauða Ljónið

Nú skulum við fara yfir þessa kosti og skoða þá á raunsæjan hátt og reikna stöðuna út..

 Ekki eins eins og Icesave málið sem kynnt var 4 eða 5 júlí í Iðnó þar sem sagt að Íslendingar þyrftu einungis að greiða 30 milljarða Icesave skuld.

Rauða Ljónið, 6.11.2009 kl. 10:49

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Vandamálið er að íslendingar hafa aldrei, almennt séð, kunnað að hugsa til langs tíma. 

Það á sýnar skýringar auðvitað.  Td. má benda á viðhorf til fiskveiða fyrr á tímum (og er að vissu leiti enn) að það var bara litið á fiskgengd sem guð gjöf og veitt á meðan stætt var nánast - þar til allt var búið eins og síldin á sínum tíma.

Þetta viðhorf gengur svo aftur þegar mikið framboð var á lánsfé fyrir nokkrum árum og íslendingum opnaðist aðgangur þar að.  Litið á það sem síldartorfu og kastað látlaust - og svo vissu menn ekkkert hvað átti að gera þegar þeir voru búnir að þurrka upp fjármagnstorfuna.

Núna er það álver á hvert heimili etc. og þurrka þannig upp orkutorfuna.  Allt eftir þessu hjá íslendingu.  Hugsa varla eina sekúndu fram í tímann.  (það er ein af ástæðunum að þeir hefðu gott af því að gerast aðili að esb.  Læra að hugsa til langs tíma)

En þar fyrir utan finnst mér stórmerkilegt að ekki skuli vera vitað um hagnað af orkusölu til iðjuvera.  Að það skuli ekki vera uppá borði.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.11.2009 kl. 13:15

11 identicon

Það væri betra ef Sigurjón Benediktsson reyndi að færa einhver rök fyrir skoðunum sínum og hætti jafnframt að gera öðrum upp öfgafullar skoðanir og gerðir.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.11.2009 kl. 14:16

12 Smámynd: Rauða Ljónið

Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað eftir að þessir útreikningar voru gerðir og er arðsemin nú 13.5%. Vegna hagstæðra samninga um raforkuverð sem er miðað við álverð nú er skortur á áli á álmörkuðum má ætla að heimsmarkaðsverð á áli fari hækkandi á miðju árinu (2008) fram til 2009 og hækka enn meir á næstu árum. Að þessu sögðu mun arðsemin af Kárahnjúkavirkjun aukast enn frekar og fara jafnvel upp í 15 til 17%. Menn geta svo deilt um hvort þetta sé viðunandi arðsemi ef menn vilja, virkjunin borgar sig upp á skemmri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Útflutningsverðmæti áls mun í fyrsta sinn fara fram úr verðmæti útfluttra sjávarafurða á þessu ári samkvæmt útreikningum greiningardeildar Kaupþings . Vitna ég í Kaupþing á vef Samorku, Samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Kaupþing segir einnig að samkvæmt útreikningunum megi búast við að útflutningsverðmæti áls aukist úr rúmum 80 milljörðum króna í um 190 á nú verandi á árinu 2009.

í svari iðnaðarráðherra við fyrrispurn um áliðnað um tekjur þjóðarbúsins var svarið að 42 til 44% af heildarveltu væru eftir í þjóðarbúinu.

190* 42%= eða um 78 milljarðar í gjaldleysistekjur.

UM 8.500 manns eiga nú afkomu sína undir orkugeiranum og stóriðju á Íslandi. Tuttugu og tvö þúsund og fimm hundruð manns sem vinstrimenn vilja svipta lífsviðurværinu og tryggja að þeirra hagur og framtíð sé í lausu lofti. Hvar skyldi allur þessi hópur 8.500 manna starfa? Hópurinn er í Ál geiranum Járn-blendinu, Landsvirkjun, Rei, Geysi Green, Orkuveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnum og fleiri fyrirtækjum og stofnunum sem öll fengu vítamínsprautu í kjölfar byggingar Álversins í Straumsvík.Hvar væri Íslenskt þjóðfélag nú statt ef hugmyndafræði VG og Samfylkingarinnar og Sólarhópana í atvinnumálum fengi að ráða? Hefði stefna þessara flokka verið við líði frá  árinu 1880 þegar uppbygging var í sjávarútvegi, fyrsti kútterinn kom til landsins og fyrsti togarin sem kom 1905. Hvar værum við nú hefði afturhaldsstefna vinstriflokkanna verið við lýði ? VG hefðu vilja banna Kútterana. Þeir veiddu meira en áraskipin, um borð var kolaeldavél og ljós sem notuðu steinolíu og togarann hann var með kolakyntri vél og steinolíljós.. En þá var öldin önnur og frumkvöðlar á vinstrivang á þessum árum höfðu hugsjónir um betra samfélag og bundust höndum saman við Íslenskt atvinnulíf og fólkið í landinu, alþýðuna  til sjávar og sveita og vildu veg þjóðar sem mestan. Þetta gerðu þeir í samvinnu við atvinnuvegina en undirstaðan var sjávarútvegur, öllum landmönnum til hagsbóta.Þessir flokkar börðust fyrir hinni vinnandi stétt alþýðunnar.En nú hefur verið sett ný stefna, atvinnuna skal nú hrifsa af verkalýðnum og faglærðum og færa tækifærin yfir á langskólagengið og Háskólamenntað fólk sem að stærstu leiti styður þessa flokka og er í stjórn og ráðum þessara flokka. Þessa síbylja sjáum við og heyrum í ræðu og riti hvort sem er í þinginu eða utan þings.Uppruninn löngu gleymdur og fyrir borð borinn.Vinstri grænir, Samfylkingin og aðrir smáir öfgahópar Sólarhópar vilja nú hafa áhrif á atvinnusköpun í landinu með afskiptum löggjafasamkomunnar, ríkis- og bæja.  Hvað er gert í atvinnumálum nú ? Sú kenning hefur verið sett fram af vinstrimönnum að ekkert eigi byggja upp nema í samráði við þá, þeir boða forsjásjárhyggju í flestum málum og vilja þar með setja um leið hömlur á frekari uppbyggingu atvinnumála í landinu. Ekkert má gera sem ekki er í tísku hvort sem það skilar inn hagsæld inn í þjóðlífið eða ei eða atvinnu fyrir landsmenn. Hér er á ferðinni svokallað Marteins Mosdal heilkenni.Þegar álverið í Straumsvíka tók til starfa árið 1969 var ekki bjart yfir Hafnarfirði og Hafnfirðingum né þjóðarbúinu öllu í atvinnumálum. Síldaraflinn hafði dregist saman úr 770.689 þúsund tonnum árið 1966 niður í  56.689 tonn árið 1969. Ekki var betra ástand með þorskaflann, en hann hafði hrunið úr 311 þúsund tonnum frá árinu 1960 niður í 210 þúsund tonn 1967.Þegar samningurinn um Alusuisse með einungis eins atkvæðis meirihluta var samþykktur vildu andstæðingar atvinnuuppbyggingar, þ.e. kommúnistar nú VG frekar sjá gaffalbita verksmiðju rísa þó svo að síldarstofninn  væri hruninn Það er sorglegt til þess að hugsa að síðan hefur hagfræði þeirra ekki breytts. Þúsundir landsmanna flúðu land til að leita lífsviðurværis til annarra landa s.s. Ástralíu, Bandaríkjanna og Norðurlandanna. Og nú er sagan að endurtaka sig VG nei við viljum eitthvað annað eitthvað annað er ekki á firmaskrá skilar engum gjaldeyrir Indriði verður að útskíra hvað það er þetta eitthvað annað.Nú er öldin önnur því áliðnaðurinn á Íslandi er atvinnuvegur sem hefur verið undirstaða og sóknarfæri fyrir aðrar atvinnugreinar. Þær atvinnugreinar t.d. verktakafyrirtæki og vélaverkstæði, hugbúnaðarfyrirtæki hafa sprottið upp í skjóli aukinna tækifæra í góðærinu undanfarin ár. Sá sem hér skrifar spyr, hver var svo undirstaðan ? er hún eitthvað annað.

Rauða Ljónið, 6.11.2009 kl. 14:22

13 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þakka Rauða ljóninu fyrir ítarlega skýrgreiningu á stöðu Landsvirkjunar samstæðunnar.

Þetta eru rosalegar sveiflur á milli ára, enda greinilegt að orkuverð er tryggilega háð heimsmarkaðsverði á áli.   Held að almenna umræðan felist aðallega í því að setja fleiri egg í þessa grænu orkusölukörfu, þannig að hluti teknanna sé ekki háður svona sveiflum á einni málmtegund;  álinu.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.11.2009 kl. 15:40

14 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Miðað við ofangreindar skuldir eru  vaxtakjörin ca 3% fyrstu sex mánuði ársins.

Slakari vaxtakjör myndu hæglega þurrka út allar rekstrartekjurnar, eins og gerðist 2006.  Þetta er rússíbanarekstur, sem hæfir áhættusæknum, og athyglisvert að tekjuskattur til ríkisins þessi 4 tímabil er nettó enginn, sem litar e.t.v. skoðun höfundar pistils vegna fyrri starfa.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.11.2009 kl. 16:06

15 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það sem virðist gleymast er að ef fallvötnin eru ekki virkjuð þá er enginn hagnaður af þeim.Þó að aðeins sé hagnaður af störfum og afleiddum störfum þá er henn samt meiri en enginn.Einfaldast er að skipta landinu upp í fylki og láta fylkin síðan um þær orkulindir sem eru innan þeirra, það gengur ekki að starfsmenn ríkisins sem eru búsettir í R.vík reyni að stöðva framkvæmdir á landsbyggðinni með engum rökum öðrum en þeim að benda á lítinn hagnað af virkjunum.Sá litli hagnaður er samt meiri en ef ekki er virkjað.Ég hef ekki séð Indriða né nokkurn annan hrekja þá staðreynd.

Sigurgeir Jónsson, 6.11.2009 kl. 17:04

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er það ekki eitt af lykilorðum frjálshyggjumanna að trúa á frelsi einstaklingsins til athafna? Þegar til stykkisins kemur þá hafa þessi trúarbrögð enga stefnu í virkjunarmálum hinna dýrmætu einstaklinga. Þessari trúkirkju skal þjónað með meira en tvö hundruð ára vinnsluaðferðum við nýtingu á orku til málmbræðslu. Við Íslendingar höfum auglýst landið sem uppsprettu ótæmandi orku sem bíði eftir að einhverjir erlendir auðhringar miskunni sig yfir hana og nýti hana fyrir eitthvað.

Frelsi einstaklingsins til að bíða eftir því að ríkið semji við orkukaupendur svo þeir þurfi ekki að leggja neitt á sig við að hugsa.

Árni Gunnarsson, 6.11.2009 kl. 20:15

17 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er ótrúlegt að maður sem hingað til hefur unnið Þjóðinni svo mikið gagn sem Indriði, skuli bjóða upp á svona fáránleika. Þetta er maðurinn sem náði svo stórkostlegum samningi við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana, sem okkur er raunar bannað að taka ábyrgð á samkvæmt Tilskipun 94/19/EB. Hvað með það, hann tók fimlega við skuldaklafanum og vippaði léttilega á bak ungbarna landsins.

 

Indriði segir:

 

Efnahagsleg áhrif stórframkvæmda verður að meta með hliðsjón af efnahagsstefnu bæði til skemmri og lengri tíma.

 

Hvaða efnahagsstefnu er Indriði að vísa til ? Er það efnahagsstefna Vinstri Grænna sem ekki vilja nýta orku landsins nema í smáum skömmtum, sem merkir að nýting þeirra mun taka okkur 1000 ár ? Þegar hann fjallar síðan um efnahagsleg áhrif til skamms tíma, blandar hann þeim saman við hugleiðingar um langtíma áhrif. Niðurstaðan er hrærigrautur. Þannig segir Indriði:

 

Áhrif til skamms tíma. Efnahagsleg áhrif stóriðjuframkvæmda til skamms tíma eru ekki einhlít. Helst hefur verið horft til áhrifa þeirra á vinnumarkað, aukinnar byggingarstarfsemi og atvinnusköpunar sem henni tengjast. Ekki má vanmeta þau áhrif en hafa ber í huga að þau eru að mestu leyti til skamms tíma. Áhrif hverrar stórframkvæmdar um sig getur verið nokkur hundruð eða fá þúsund ársverka um tveggja til þriggja ára skeið en eins og reynslan sýnir og sjá má í þeim hagspám sem gera ráð fyrir stórframkvæmdum á næstu árum fjara þau áhrif út.

 

Hér viðurkennir Indriði að áhrif stórframkvæmda til skamms tíma eru mikil. Þetta geta verið þúsundir starfa un tveggja til þriggja ára skeið. Um þetta munar mikið og það þarf hugrekki til að gera lítið úr þessum áhrifum, eins aumlega og Icesave-stjórnin heldur á málum. Það er líka rangt að áhrif af stórverksmiðjum fjari út, því að mörg störf skapast við reksturinn og gjaldeyrinn sem þær afla er mikilvægur. Ef til dæmis er um að ræða byggingu virkjunar, þá skapar raforka frá henni einnig önnur störf en í stóriðjunni.

 

Eins og menn sjá kemur Indriði ekki fram með neinar jákvæðar tillögur um hvað eigi að koma í stað þess stórrekstrar sem hann er að mæla gegn. Er hann að hugsa um tínslu fjallagrasa eins og félagar hans í Vinstri Grænum ? Er ekki sorglegt, að sjálfur “Yes Minister” skuli koma fram með þessa dómadags neikvæðni ?

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.11.2009 kl. 21:50

18 identicon

Fyrirgefðu Indriði, má ég spyrja: Af hverju tekur þú ekki lyfin þín ?

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 6.11.2009 kl. 21:50

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Loftur og Örn. Stóriðjulausnir eru uppgjöf fyrir frjórri hugsun, svo einfalt er það. Þegar rætt er um atvinnumál þá er stór hópur vel "menntaðra" einstaklinga með eina- EINA lausn á takteinum. Er þetta boðlegt? Er þetta virkilega boðlegt? Finnst ykkur það virkilega vera bærilegt menningarástand að gefast svona rækilega upp fyrir sjálfum ykkur? Staðreyndin er sú að auðlindir landsins eru eign íbúanna, fæddra sem ófæddra. Þegar þessar auðlindir þrýtur sem þið krefjist að verði nýttar fyrir eina kynslóð, hvað eiga þá næstu kynslóðir að gera?

Kannski verður ævintýralandið Ísland sett á heimsminjaskrá sem friðland fyrir stóriðju?

Árni Gunnarsson, 6.11.2009 kl. 22:33

20 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Og ég sem hélt að "Rauða ljónið" væri fóstra.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.11.2009 kl. 22:55

21 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þú hlýtur að vera að grínast Árni, að segja:

 

Stóriðjulausnir eru uppgjöf fyrir frjórri hugsun.

 

Uppbygging atvinnu er aldreigi uppgjöf, heldur spurning um að nýta þá möguleika sem eru fyrir hendi. Um alla Jörð er staðan sú, að tækifæri til atvinnu eru af skornum skammti. Alls staðar er þeir fátækir sem ekki notfæra sér þá möguleika sem umhverfi þeirra býður. Við Örn erum ekki að tala um EINA lausn. Þú flytur dæmigerða vitleysu þegar þú segir:

 

Þegar þessar auðlindir þrýtur sem þið krefjist að verði nýttar fyrir eina kynslóð, hvað eiga þá næstu kynslóðir að gera?

 

Svona hugsunarháttur er raunveruleg uppgjöf. Það ert þú sem ert að tala um EINA lausn, með því að halda því fram að möguleikar til orkuöflunar eða annarar nýtingar auðlinda séu takmarkaðir.

 

Hvar er til dæmis nýting vindorkunnar sem gnauðar við gluggann ? Danir framleiða 20% af sinni raforku með vindmyllum. Hvers virði eru í dag brúnkolin og mórinn sem við nýttum ekki ? Hvaða gagn er af vatnsorkunni sem rennur óbeitsluð til sjávar ?

 
  • Sú þjóð sem ekki sækir fram, er að dragast afturúr.
  • Sú þjóð sem ekki nýtir land sitt til búsetu, á það ekki skilið.

  

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.11.2009 kl. 22:59

22 Smámynd: Árni Gunnarsson

Æi...!

Árni Gunnarsson, 7.11.2009 kl. 00:31

23 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Friðrik Rauða ljónið hefur sannleikan að leiðarljósi þú mátt kalla heiðarleika og sannleika hvaða nafni sem er.

Fóstra er sú manneskja sem kennir ungviðinu hvað rétt og satt er og og rétta leið út í lífið óðháð stjórnmálum og falsi , ég er upp með mér.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 7.11.2009 kl. 00:47

24 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sigurjón 

Þetta var orðin svo alvarleg umræða að ég mátti til.

Ég les alltaf þín "kommentin" með mikilli athygli. Þú ert einn af máttarstólpunum.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 7.11.2009 kl. 01:48

25 identicon

Árni Gunnarsson hittir naglann á höfudid.

Jóhann (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 10:04

26 Smámynd: Kommentarinn

"Sú þjóð sem ekki sækir fram, er að dragast afturúr"

Já það yrði mikill missir að glata titli okkar sem heimsmeistarar í álframleiðslu og lífsgæðakapplaupi almennt. Life goes on þó að við náum ekki að virkja alla drullupolla sem við finnum.

Þessi hugsunarháttur hjá Lofti að við verðum að nýta allt sem við getum nýtt í dag og treysta á að nýjar lausnir finnist á morgun getur auðveldlega komið okkur í koll. Hvar værum við stödd ef við hefðum brennt alla olíu áður en okkur datt í hug að framleiða úr henni plast? Ónotað tækifæri í dag þýðir ekki endilega að því sé sóað. Gamalt fólk liggur að mestu ónotað. Getum við ekki virkjað það í að prjóna lopapeysur til að selja fyrir gjaldeyri í einhverjum þrælabúðum?

Það eru takmörk fyrir því hversu langt við eigum að ganga í þessum efnum. Þó svo að einhverjar þúsundir vinni í orkugeiranum og tengdum greinum þá þýðir það ekki að þetta fólk væri atvinnulaust í dag ef ekki hefði verið byggt álver í straumsvík. Það er heldur enginn að tala um að loka fyrir neina starfsemi sem er þegar í gangi.

Það eina sem menn eru að tala um er að setja ekki öll eggin í sömu körfu að framleiða hráefni sem er að mestu notað í gosdósir sem eru svo urðaðar í USA.

Raforka er líklega ein gagnlegasta auðlynd sem finnst. Það eru óþrjótandi notkunarmöguleikar á henni. T.d. væri mjög freistandi að geta séð bíla og skipaflota okkar fyrir innlendri orku og það væri leiðinlegt ef við værum búin að veðsetja allt í álframleiðslu þegar það verður möguleiki.

Loftur virðist hinsvegar treysta á vindmyllurnar í þeim efnum.

Kommentarinn, 7.11.2009 kl. 16:43

27 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ef Kommentarinn vill endilega búa í fátæku samfélagi, þá er nóg af slíkum á Jörðinni. Málið snýst ekki um að framleiða ál eða einhverja ákveðna vöru, heldur að framleiða eitthvað sem aðrir vilja kaupa. Hvað skeður í samfélögum sem ekki framleiða nóg og þar sem lífskjörum hrakar ? Ég hélt að það vissu allir, en svo virðist ekki vera. Ég get frætt Kommentarinn um, að fólk flýr slíkt ástand.

 

Um landflótta segir Kommentarinn sjálfsagt “life goes on” eða eitthvað álíka gáfulegt. Þeir sem þurfa að flýja heimahagana vegna örbyrgðar kunna ekki að meta svona viðhorf. Kommentarinn virðist ekki hafa áttað sig á að vatnið í fallvötnunum er endurnýjanleg auðlind. Sama á við um jarðhitann og vind-orkuna. Ef ekki má nýta þessar orkulindir í dag og þær verður að geyma til morgundagsins, hvenær kemur sá morgundagur ?

 

Er ekki augljóst, að ef fram koma atvinnugreinar sem geta boðið betri kjör en þær sem nú eru starfræktar, þá ná nýju atvinnugreinarnar til sín fólkinu ? Ef álver væru ekki starfrækt í landinu, hefðu starfsmenn þeirra fundið sér aðra vinnu eða flutt úr landi. Hugsanlega væru þeir lifandi í dag, en það er ekki víst. Ekkert er víst í þessu sambandi nema baráttan sjálf um brauðið. Þegar 20.000 landsmanna eru atvinnulausir, er beinlínis hrokafullt að tala eins og kommentarinn gerir.

 

Menn ættu að hugleiða muninn á endurnýjanlegri orkuframleiðslu og þeirri sem er það ekki. Þótt við notum vatsorkuna í dag til álframleiðslu, þá getum við notað hana til annars á morgun. Þegar orkusamningur rennur út, er hægt að ráðstafa orkunni til annara nota. Það er því fjarstæða þegar Kommentarinn segir: “það væri leiðinlegt ef við værum búin að veðsetja allt (raforkuna) í álframleiðslu þegar það (eitthvað annað) verður möguleiki”.

 

Að auki er ástæðulaust að gera grín að rafmagnsframleiðslu með vindmyllum. Það er ekki verri kostur en margir aðrir og á tímabili voru hérlendis vindmyllur á nær hverjum bæ. Í Danmörku er framleiðsla á vindmyllum stóriðnaður og þeir framleiða 20% af sinni raforku með vindmyllum.

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 7.11.2009 kl. 17:38

28 Smámynd: Hörður Þórðarson

Indriði spyr: "Er þó ekki tekið tillit til neikvæðra úthrifa Með það í huga að stóriðjuverin nota 75-80% af allri raforku sem framleidd er í landinu er sú spurningin áleitin hvort þetta sé þjóðhagslega hagkvæm nýting orkuauðlindanna."

Er þetta ekki mergurinn málsins?  Ef Indriða, eða einhverjum öðrum dettur í hug hagkvæmari leið til að nýta raforkuna ætti að skoða það mjög vandlega. Ef ekki finnst mér að þeir hafi lítið merkilegt til málanna að leggja, sem segja að grein sem skapar störf fyrir mörg þúsund manns of gjaldeyristekjur fyrir þjóðina megi að ósekju leggja niður og að þetta fólk geti bara farið að gera eitthvað annað, sem Indriði skilgreinir ekki.

Ég vil benda á þessa stórvafasömu fullyrðingu Indriða.

"Líklegt er að sá slaki sem nú er á vinnumarkaði verði að mestu úr sögunni þegar ný álver kæmust í rekstur og því er ekki um viðbótartekjur að ræða fyrir ríkissjóð, aðeins tilflutning uppsprettunnar."

Indriði er greinilega bjartsýnn en ég vildi ósk þess að hann hefði haft fyrir því að segja hvernig þessi slaki á vinnumarkaðnum verði úr sögunni. Býst hann við að mikil atvinna skapist hjá ríkinu sem er á hvínandi kúpunni? Heldur hann að ný tækifæti í byggingariðnaði geri vart við sig? Er von að maður spyrji?

Eitt annað finnst mér undarlegt við ræðu Indriða. Það sem ég sé helst til foráttu við aukna nýtingu náttúrauðlinda er að þær tekjur sem af þeim skapast og sá gjaldeyrir sem streymir við það inn í landið styrkir krónuna. Sú styrking rýrir samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar. Indriði er vafalaust gáfumaður og veit þetta en af einhverjum ástæðum hefur hann ekki haft fyrir því að láta þess getið. Menn geta síðan velt því fyrir sér hvers vegna. Getur það verið vegna þess að mikil fjöldi íslendinga líður fyrir það hvað krónan er veik og að það myndi verða lítt til að auka hans vinsældir að leggja til að hætta við eitthvað sem myndi styrkja krónuna? 

$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$$

Árni nokkur kom með athugasemd. Hann sagði meða annars: "Þegar þessar auðlindir þrýtur sem þið krefjist að verði nýttar fyrir eina kynslóð, hvað eiga þá næstu kynslóðir að gera?". Halda einhverjir fleirri en Árni að það hætti að rigna á Íslandi ef álver eru byggð hérna eða er hann einn um þessa skoðun?

Að lokum, það hefur kannski farið fram hjá einhverjum á Íslandi að stærsta vandamálið sem blasir við mannkyninu þessa stundina eru breytingar á samsetningu lofthjúpsins og veðurfarsbreytingar sem því fylgja. Ég get ekki betur séð en að á hnattræna vísu geti íslendingar ekki gert mannkyninu og lífríki jarðarinnar meiri greiða en að nota endyrnýjanlega orku fallvatna til að framleiða raforku og síðan ál, frekar en að það sé gert í útlöndum þar sem kol og olía eru notuð til þess arna. Vonandi fara fleirri íslendingar að sjá hlutina í víðara samhengi þegar fram líða stundir.

Hörður Þórðarson, 8.11.2009 kl. 07:29

29 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Eins og bent hefur verið á, þá er umfjöllum Indriða algerlega laus við jákvæða hugsun. Hann hafnar algerlega að stóriðja hafi jákvæð áhrif til skamms tíma. Hann hafnar algerlega að stóriðja megi leysa staðbundin atvinnu-vandamál. Hann hafnar einnig stóriðju vegna þess að hann telur efnahagslegar forsendur hennar óvissar.

 

Neikvæðni Indriða slær í raun öllu öðru við, sem sést hefur frá embættismanni í þjónustu Íslendska ríkisins. Hann hafnar að stóriðja hafi jákvæð áhrif á gjaldeyrismál og ríkisfjármál. Hann hafnar að áhrif stóriðju á vinnumarkað vari til lengri tíma. Hann hafnar að stóriðjuframkvæmdir séu gagnlegt tæki til að komast út úr efnahagslægð.

 

Þessi neikvæðni minnir óneitanlega á atlögu Árna Páls Árnasonar, að höfuð-atvinnuvegum landsmanna, á ársfundi ASÍ, í síðasta mánuði. Við það tækifæri sagði Árni:

 

Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest. Verðum við þá ekki að leita annara kosta um framtíðar-atvinnu-uppbyggingu? 

 

Báðir eru þeir Árni og Indriði duglegir að gagnrýna stóriðju og þeir eiga sameiginlegt að hafa ekkert gagnlegt til málanna að leggja. Samt eru þessir menn í betri aðstöðu en aðrir, að hafa mikil áhrif á atvinnuþróun landsmanna. Hefur þjóðin efni á, að láta þá Árna og Indriða véla mikið lengur um mikilvæg málefni ? Er ekki rétt að landsmenn HAFNI áliti og gjörðum þessara duglitlu einstaklinga ?

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 8.11.2009 kl. 10:15

30 identicon

Ekki skil ég hvaðan Rauða ljónið hefur þessar tölur, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Landsvirkjunar var tap á árinu 2008 344 milljónir bandaríkjadala. Sjá hér, rekstrarreikningurinn er á bls. 30 eða 32 í ársskýrslunni.

Mér sýnist ljónið taka hagnað fyrir vaxtatekjur og vaxtagjöld (EBITDA) þess vegna reiknar hann stofnunina í hagnað þrátt fyrir raunverulegt bullandi tap. Að sýna aðeins EBITDA-hagnað er góð aðferð til að ljúga með tölum. Mjög vinsæl hjá útrásarvíkingunum til að blekkja út fjármagn.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 19:20

31 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Athyglisvert,  Rauða ljónið sýnir reyndar alveg hagnaðinn, en tölurnar gilda aðeins fyrir 6 mánuði hvers árs.  Árskýrslan, sýnir hins vegar 12 mánuði, og seinni hluta árs 2008, fóru hlutirnir að snúast verulega til heljar, ekki satt.

Sammála Theódór um hættulega ofnotkun á EBITDA s.l. áratug.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 8.11.2009 kl. 20:59

32 Smámynd: Júlíus Björnsson

Farsímar eru inn í dag til stóriðjuframleiðslu. An Ice-mobille ? Í EU gengur samkeppnin út á hávirðisauka stóriðju að hætti siðaðra manna samkeppni.

Ríki sem sérhæfa sig í lágvirðisauka stóriðju í þágu grunn hinnar viðarkendu samkeppnis  svo sem í EU er fjölmörg og örugglega að græða á sinn mælikvarða. Low-life standard.

Júlíus Björnsson, 10.11.2009 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband