Á að lækka álögur á eldsneyti?

Ástæðan fyrir hækkun á verði á eldsneyti á síðustu misserum eru tvíþætt. Olíuverð á heimsmarkaði hefur hækkað og íslenska krónan fallið. Hækkun verðs á bensíni og dísilolíu hefur vakið óánægju og fram hafa komið kröfur um að ríkið lækki verðið með því að draga úr álögum. Þessar kröfur hafa komið fram hjá FÍB og vörubílstjórum sem haft hafa í frammi mótmælaaðgerðir studdir m.a. af jeppamönnum. Ekki er nema gott eitt um það að segja að einstakir hópar í þjóðfélaginu neyti þess réttar að láta rödd sína heyrast og veiti stjórnvöldum aðhald. En þeim rétti fylgir sú skyldu að rökstyðja mál sitt skilmerkilega.

Talsmenn þeirra sem krefjast lækkunar álaga á eldsneyti láta að því liggja að þeir séu að berjast fyrir hagsmunum almennings og virðast fá nokkurn hljómgrunn ef marka má undirtektir borgara sem fjölmiðlar hafa tekið tali. En er það svo? Myndi hagur almennings batna ef álögur á eldsneyti yrðu lækkaðar? Slíkt er óvíst og reyndar ólíklegt.

Hækkun á olíuverði á heimsmarkaði þýðir einfaldlega að við sem þjóð og einstaklingar verðum að greiða hærra verð en áður fyrir þessa vöru og höfum að sama skapi minna til að nota í annað. Þessi hækkun er staðreynd sem við verðum að sætta okkur við en getum brugðist við með því að draga úr neyslu á eldsneyti og þannig dregið úr skerðingu á annarri neyslu. Lækkun á álögum hér á landi breytir engu þar um og myndi hafa það eitt í för með sér að síður drægi úr akstri og við myndum í reynd greiða meira úr landi fyrir eldsneyti og hafa minna til annarra nota.

Lækkun á álögum er þannig engin leið til að bregðast við hærra oliuverði á heimsmarkaði. Það bætir ekki stöðu þjóðarbúsins og heimilanna. Lækkun álaga á eldsneyti hefði einungis í för með sér að kostnaðinum af hækkuninni yrði dreift með öðrum hætti. Sú breyting yrði í stórum dráttum sú að þeir sem nota mikið eldsneyti, aka á stórum og neyslufrekum bílum svo sem stórum jeppum, myndu koma betur út en hinir nægjusamari eða bifreiðalausu bæru stærri hluta hinnar óhjákvæmilegu hækkunar.

Talsmenn lækkunar láta eins og hún skipti engu fyrir ríkissjóð eða jafnvel að hann hafi grætt mikið á verðhækkununum. Hvort tveggja er rangt. Bensín og olíugjaldið er föst krónutala á hvern seldan lítra af eldsneyti sem ekki hefur hækkað í samræmi við verðlag. Þessar tekjur fara nú lækkandi að raungildi vegna verðfalls krónunnar og verðbólgu. Samdráttur í eldsneytiskaupum gæti enn dregið úr þessum tekjum. Ekki er að vænta samdráttar í samneyslu og ef ekki verður dregið úr framkvæmdum t.d. vegagerð munu aðrir skattar óhjákvæmilega hækka. Lækkun þessara gjalda myndi því færa skattbyrði af þeim sem nota mikið eldsneyti yfir á aðra.

Meint hækkun virðisaukaskatts vegna hærra eldsneytisverðs er sýnd veiði en ekki gefin. Hækkun á eldsneytisverði langt umfram aðrar vörur leiðir annars vegar til þess að eldsneytiskaup dragast saman og þar með verður hækkun virðisaukaskattsins minni en ætla mætti og hins vegar er óhjákvæmilegt að önnur neysla dregst saman þar sem heimilin hafa ekki úr ótakmörkuðum tekjum að spila og virðisaukaskattur af henni minnkar. Heildaráhrifin á tekjur af virðisaukaskatti eru því langtum minni en haldið hefur verið fram og e.t.v mjög litlar. Lækkun virðisaukaskatts á eldsneyti myndi í stórum dráttum hafa sömu áhrif og lækkun bensín- og olíugjalds, þ.e. færa kostnað vegna heimsmarkaðsverðs frá þeim sem nota mest eldsneyti yfir á hina sem minna nota og auka skattbyrði þeirra.

Af framansögðu má vera ljóst að lækkun eldsneytisverðs með lækkun álaga er ekki vitleg aðgerð. Hún myndi engum ábata skila heimilunum almennt en dreifa þegar áföllnum kostnaði ranglátlega og vera efnahagslega óhagkvæm.

Auðveldara er að rökstyðja hækkun á álögur á eldsneyti við núverandi aðstæður en lækkun þeirra. Eldsneytisbrennsla er stór þáttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er viðurkennt að ein virkasta leið til að draga úr notkun eldsneytis væri að hækka verð á því með sköttum. Ekki hefur verið pólitískur vilji hjá þjóðum heims að fara þá leið. Hækkun gjalda á eldsneyti væri skynsamleg frá sjónarhóli umhverfismála en einnig frá efnahagslegu sjónarmiði í heimi þar sem eftirspurnin vex sífellt og framleiðendur hafa sjálfdæmi um verð og magn.

Það er ekki við því að búast að litla Ísland breyti heiminum að þessu leyti en þótt aðeins sé litið til landsins má sjá gild rök fyrir hækkun gjalda á eldsneyti eða a.m.k. rök gegn lækkun þeirra. Þrátt fyrir hækkandi verð á eldsneyti hefur innflutningur á bifreiðum aukist stórlega frá ári til árs með aukna mengun, umferðatafir og önnur einkenni köfnunardauða borga að fylgifiskum. Bifreiðum hefur ekki aðeins fjölgað heldur hefur stórum eyðslufrekum bílum fjölgar mest. Hækkun á verði eldsneytis með hækkun álaga kynni að hafa góð áhrif, draga úr fjölgun bíla einkum þeirra neyslufreku. Auknar tekjur með þessum hætti mætti nota til að lækka aðra skatta á móti, auka tekjujöfnun í skattkerfinu sem dregið hefur úr á síðustu árum eða styrkja velferðarkerfið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Fyrst ber mér að þakka fyrir, að fá að tjá mig beint á bloggið þitt, það er ekki alsiða hjá þjóðkunnum mönnum, sérlega þeim, sem gegnt hafa embættum, sem kunna að hafa á sér fastan spip og tilvísan í hugum almennings.

 Þessar hugleiðingar eru kórréttar um eldsneytið en eiga ekki ætíð við um neysluvörur.

Frægast er dæmið um nælon/silki sokkana sem konur notuðu til að prýða leggi sína, langt langt fram fyrir það, sem opinberar innflutningstölur gátu gefið til kynna.  Tekjurnar því hverfandi en neyslan þónokkur, þar sem menn útveguðu sér vöruna með öðrum hætti.

ÞEtta þekkir þú og hefur þeirrar þekkingar gætt í ráðgjöf þinni til yfirvalda í gegnum langa þjónustu.

Hitt hef ég aldrei skilið, hvernig það má vera, að sumir geta efnast stórkostlega, án þess að þess sjáist merki í framlgðri skattskrá.

Svo er hitt, að ,,virðulegir" lögmenn og aðrir, leggja nöfn sín við, að telja þetta allt rétt og eðlilegt.

Ég var alinn upp á heimili, hvar eðlilegt hlutfall tekna var talið sjálfsagt til sameiginlegra þarfa, sv hafi ætið verið og svo þyrfti ætíð að vera, eins lengi og sameiginlegar þarfir væru og sjúkdómar, slys og kennsla væri ekki forréttindi örfárra.

Svon er enn í mínum huga og einnig í hugum þeirra sem mér eru nánastir, þessvegna skil ég ekki torfærur að digrum sjóðum sumra, ekki svo að skilja að það sé vegna Höfuðsyndarinnar Öfundar, heldur að eitt skuli yfir alla ganga líkt og sagt var vestra, að við þurfum allir að beygja hnéin fyrir  .....

Meira var það nú ekki að sinni en mér væri þægð í, að fá að pikka hingað inn, ef ekki til annars en minnar eigin hugarhægðar.

Með virðingu

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 4.4.2008 kl. 09:07

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk Indriði fyrir þessa frábæru samantekt.  Ég er svo hjartanlega sammála þér og hef verið að reyna af veikum mætti að vekja athygli á þessu í bloggfærslum mínum. 

Þú gerir þetta einfaldlega sérlega vel og á mannamáli sem allir ættu að skilja. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 4.4.2008 kl. 09:09

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir góðan, fróðlegan, ýtarlegan og vel rökstuddan pistil, Indriði. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 4.4.2008 kl. 09:21

4 Smámynd: haraldurhar

   Indriði ég þakka þér fyrir gott og málefnalegt innlegg.

haraldurhar, 4.4.2008 kl. 14:54

5 identicon

Takk fyrir upplýsandi innlegg. Þetta hefur einhvern veginn aldrei komist til skila. En á þig hlustar fólk.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 15:23

6 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta er mjög góð grein. Ég er sammála því að fólk verði bara að draga úr neyslu á bensíni og olíu, líka þeir hjá 4x4 klúbbnum. Hins vegar á þetta ekki við þegar um atvinnubílstjóra er að ræða. Eiga þeir að vinna minna hvern dag? Eða eiga þeir að hækka verðskrána? Að vísu eru þessir þungu vörubílar búnir að eyðileggja vegina og ættu þess vegna að þurfa að borga meira. En það bitnar auðvita á mér sem neytanda, hvort sem er í gegnum hærri skatta (sem eru alltof háir fyrir) eða hærra vöruverð. Þetta er eiginlega pattstaða. En ég fagna því að íslendingar eru farnir að mótmæla!

Sumarliði Einar Daðason, 4.4.2008 kl. 15:59

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nákvæmlega. Besta leiðin til að veita verðlagningunni aðhald er að draga úr eftirspurninni. En það verður Íslendingum erfitt, sem vilja allt fara á bílnum (sem ekki er endilega gagnrýnivert í okkar veðri og skorti á almenningssamgöngum). Fyrir utan að aka minna og kaupa þannig minna eldsneyti þá væri æskilegt að fleiri hausar væru um hverja bílferð (car-pool osfrv). Útbreitt ráð erlendis er að veit aþeim forgang í umferðinni sem hafa farþega í bílnum.

Heimsmarkaðsverð á jarðefnaeldsneyti á ekki eftir að lækka og áður en langt um líður er spurningin frekar hvort slíkt eldsneyti fáist á markaðinn. Ríki heims (utan Íslands) keppast nú við að tryggja langtímasamninga um öflun slíks eldsneytis. Við erum ekki á þeim buxunum. lillo.blog.is.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.4.2008 kl. 16:25

8 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Frábær samantekt Takk fyrir þennan pistil og marga aðra góða sem ég hef lesið á blogginu þínu.

Guðbjörn Jónsson, 4.4.2008 kl. 17:32

9 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér kærlega fyrir þennan pistil Indriði.   Ég er svo innilega sammála þér.  Takk enn og aftur.

   Ég hef verið að reyna að skapa umræðu um annan samgöngumáta hér á Stór - Reykjavíkursvæðinu, þar á ég við, - Metró  og skutlur. -  Þar sem það mundi draga úr,  umferðarvandanum, svifryksmengun, umhverfismengun, og eldneytiskostnaði heimilanna.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 5.4.2008 kl. 00:25

10 Smámynd: Sævar Helgason

Sammála öllu því sem fram kemur í grein þinni- takk fyrir þessa umfj0llun.

Bílanotkun er komin úr öllu hófi . Eftirspurn eftir þverrandi jarefnaeldsneyti er vaxandi. Verð getur ekkert annað en hækkað .

Sennilega er ekki langt í að líter af bensíni fari í kr. 200- eða meir.  Sól einkabílsins í núverandi mynd er að byrja að hníga og hnígur sennilega ört.

Raforkuknúð lestakerfi í þéttbýli hlýtur að vera framarlega sem lausn hér hjá okkur. Raforka fyrir litla einkabíla hlýtur að vera nærtæk lausn fyrir okkur í náinni framtíð .

Þurfum við ekki að athuga vel okkar gang með raforkusölu á lágmarksverði til t.d álvera ?

Sævar Helgason, 5.4.2008 kl. 10:28

11 identicon

Frábær grein og alveg hárrétt. Þessi vinkill þyrfty að fá aðeins meira rými í umræðunni. Búinn að fá nóg af bölvandi bílstjórum...

IG (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 11:03

12 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kærar þakkir fyrir góðan pistil!

Anna Karlsdóttir, 5.4.2008 kl. 15:39

13 Smámynd: Morten Lange

Góð grein. Hún er mjög þörf. 

Það er ótrúlegt að ekki Samgönguráðherra og Fjármálaráðherra hafa komið þessum rökum á framfæri. Þeim hljóta að hafa grunað þessu, að minnstu kosti.

Dofri var svo elskulegur að benda lesendum hingað. Í athugasemd á bloggi hans kom líka fram ábending um Wikipediu-grein um dulda kostnað / externalities og grænir skattar.  Eins og fleiri hér, hef ég í mínu horni reynt að koma fram með rök fyrir því að álögur á bensín og dísil ættu frekar að vera hærri en lægri. Vitni meðal annars í bandarísku skýrslu ( í athugasemd )sem bendir til þess að sértækar álögurnar einar ættu mögulega að verða um 200 ISK líterinn. Önnur rök í svipaðri átt  á bloggi mínu.

Auk þessa kemur að í raun erum við með margs konar hvatning til bensíneyðslu í gangi:

  • Gjaldfrjáls bílastæði, en þeir sem koma öðruvísi en á eigin bíl fá ekkert fyrir sín snúð. VGK Hönnun eru þeir í dag sem taka einhver skref  sem munar um í að leiðrétta óréttlætið og að borar með mengunin, í sinni samgöngustefnu . Þeir sem koma á bíl fá bílastæði sem kostar um 20.000 á mánuði. Aðrir fá upphæð sem samsvarar strætókort  (um og undir 4000 á mánuði).
  • Bílastyrkir, í stað samgöngustyrkja. Norsk sveitafélög borga jafn mikið á kílómeter þegar er snattað á fundi innanbæjar, óháð því hvort maður hjólar eða ekur. Prestar í Horðalöndum fá aðeins meira þegar þeir hjóla en ekki aka til sóknarbarna.
  • Íþróttastyrkir sem eru gjaldgengir í íþróttum sem margir stunda í tengsl við að keyra bíl, svo sem gólf, sund, líkamsræktarstöðvar. En ef maður vill fá endurgreitt nýtt dekk eða ljós á hjólinu sem maður notar daglega í og úr vinnu, þá gengur það ekki.  Hjá nokkur fyrirtæki, þar á meðal hjá Símanum hefur þetta verið breytt
  • Ríkissjónvarpið var á tímabili að leggja mikla áherslu á "Formúluna".  Ekki segja mér að þar hafi ekki farið skattpeninga óbeint í að auglýsa bensíneyðslu og kaup á kraftmiklum bílum
  • Allir vegir, aðkoma  að vinnustaði, verslunarkjarna, skóla (!)  og fleira eru hannaðir með tilliti til bílsins, en aðrir samgöngumátar eru annars og þriðja flokks í skipulagi og hönnun.
Ágætis fyrsta skref væri að ríki og sveitafélög fari að skoða það að taka upp samskonar samgöngustefnu og VGK Hönnun. Mögulega þurfa þeir þá að rukka eitthvað fyrir bílastæðin, til að finna peningana.  Kannski væri auðveldari fyrir hinu opinbera að byrja á því  að hvetja fleiri fyrirtæki til að taka þessu upp, og þá sérstaklega þar sem bílastæðavandi ríkir.  Ávinningurinn yrði vegna bílastæðavanda, og nágrannaerjur, ímynd fyrirtækisins, sparaðir peningar beint og ekki síst tengd batnandi heilsu starfsmanna. Hjólreiðamenn sem hjóla daglega til vinnu lífa til dæmis lengri og eru hraustari en aðrir

Morten Lange, 5.4.2008 kl. 17:34

14 identicon

Þú spyrð um rökstuðning fyrir lækkun eldneytisverðs. Gott og vel. Hér er einn punktur:

Skv. vefriti fjármálaráðuneytis kostaði bensínlítrinn tæpar 152 kr. á Íslandi í lok mars, tæpar 187 kr. í Noregi. En eins og ráðuneyta er siður er þetta vitaskuld bara hálfsannleikur. Hér "gleymist" (vísvitandi!) að skoða heildarmyndina.

Lægsta tímakaup verkamanns (óhrekjandi vísitala um velferð þjóðar!) á Íslandi er 795 kr. Fyrir það fást rétt rúmir 5 lítrar af bensíni hérlendis. Lægsta tímakaup norsks verkamanns  er (120,5  Nkr x 14,6) 1760 íslenskar krónur. Norski verkamaðurinn fær sumsé ríflega 9 litra af bensíni, á norskum prís, fyrir tímakaupið sitt.

Er það furða að menn rísi upp á afturlappirnar og mótmæli þessu?

Annars þætti mér gaman að sjá suma þeirra sem hér "kommentera" og eru áberandi í þjóðfélagsumræðunni taka strætó stöku sinnum. Ég hef nefnilega aldrei séð þá þar - og kann ég tímaáætlanirnar nánast utanbókar....

"Hállfsannleikur oftast er - óhrekjandi lygi". (Steinn Steinarr)

Góðar stundir. Sjáumst kannski í næstu umferðarteppu. 

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 20:30

15 identicon

Sæll og takk.Ég er atvinnubístjóri og er þeirrar skoðunar að við séum að flytja inn of aflmikla bíla og þar af leiðandi of mikil eyðsla. Hér erum við með rúmlega 600 hestafla bíla meðan maður sér til dæmis Þjóðverja nota til sömu verka 420 til 480 hestafla bila. Menn eru farnir að aka á steinolíu og mig langar að spyrja, fæst það samþykkt í bókhaldi ?

'Arni H Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 20:40

16 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Takk fyrir góða grein. Þú færð mig til að sjá hlutina í nýju ljósi. Eldsneytisverð er fáránlegt í dag en eftir lestur greinar þinnar er ég ekki frá því að vera sammála þér.

Ævar Rafn Kjartansson, 6.4.2008 kl. 00:16

17 identicon

Takk fyrir frábæra grein - ég er algjörlega sammála. 

Mér blöskraði gjörsamlega að sjá ökumenn risastórra blöðrujeppa taka þátt í mótmælaaðgerðunum.  Kann fólk ekki að skammast sín!  Því miður þá finnst mér ekki margir hafa skilning á þessu sjónarmiði - við erum ennþá á steinöld hvað það varðar.

Helga (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 02:11

18 identicon

Jeppaakstur í Reykjavík, jafnvel áð vetri til er orkusóun. Og sportið getur líka gengið útí öfgar, jafnvel þó menn hafi efni á því.

En ég bíð eftir að það verði ókeypis í strætó og vagnar minni og ferðirnar tíðari. 

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 23:13

19 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vel sett fram og rökstudd sjónarmið.

Eitt er sem við Íslendingar þurfum að fara að huga að og það helst sem fyrst: það er að taka upp umhvefisgjald eða mengunarskatt eins og ýmsdar þjóðir hafa þegar gert. Í fyrrasumar var skattumhverfi álbræðslunnar í Straumsvík breytt verulega: horfið var frá ráði Ólafs Björnssonar hagfræði prófessors og þingmanns Sjálfstæðisflokksins til margra ára en að hans forgöngu var álverinu á sínum tíma gert að greiða svonenft framleiðslugjald í stað þess að telja fram til skatts eins og tíðkast með önnur fyrirtæki. Með þessu var felldur niður þessi skattur sem nam töluvert hærri fjárhæð en álbræðslan greiðir núna og er skattlagt eins og hvert annað fyrirtæki í landinu. Sveitarfélagið Hafnarfjarðarkaupstaður hvatti eindregið til þessarar róttæku breytingar enda hagsmunir miklir með því að tekjustofn vegna fasteignagjalda hafði ekki virkur meðan þetta framleiðslugjald var. Sparnaður Alcan vegna þessara breytinga á skattumhverfi nemur um hálfum milljarð króna á ári.

Umhverfisskattar

Víðast hvar um hinn siðmenntaða heim hefur skattumhverfi einkum fyrirtækja verið gjörbreytt á undanförnum árum. Með þátttöku ýmissa ríkja í Kyoto samningnum vegna CO2 losunar þurfa aðildarríki að halda bókhald um útblástur innan landamæra sinna. Eðlilegt er því að leggja sérstakan skatt á mengandi starfsemi og í tilfelli Alcan hefði það verið mjög raunsætt að taka þá upp þetta sérstak gjald. Því miður hefur Mosi talað fyrir tómum eyrum.

Fróðlegt væri að heyra skattafræðinginn að tjá sig um þessi mál og hvaða leiðir væru skynsamlegastar til þess að skattleggja mengandi starfsemi í landinu. Er þá átt við ekki aðeins mengun, koltvísýrings- og brennisteinsmengun frá iðjuverum heldur einnig frá flutningum, bílum, skipum og flugvélum. Gjald ríkisins á eldsneyti mætti lækka en í staðinn koma að einhverju leyti CO2 gjald eða hvað sem það væri réttilega nefnt. Einnig væri tiltölulega auðvelt að leggja umhverfisgjald á dekkjanagla og annað sem sannanlega dregur úr loftgæðum. Og mætti auðvitað sitt hvað fleira nefna.

Með fyrirfram þakklæti.

Mosi alias

Guðjón Sigþór Jensson, 7.4.2008 kl. 15:29

20 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Góð grein með góðum rökstuðningi. Takk fyrir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.4.2008 kl. 23:27

21 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það eru nú einmitt fólk eins og hagfræðingar sem misnota "rökfræði" og orðaleikfimi sína sem hafa komið þessu landi í það ófremdarástand sem ríkir. "Rökfræði" þín er kannski sannfærandi eins og mörg önnur trúarbrögð Indriði!

Gunnar í krossinum er alveg einstakur á sínu sviði, þó ég kaupi ekki "sannfæringar" hans. Davíð svarar flestum óþægilegum spurningum með blöndu af bröndurum og smá hæðni.

Orðagjálfur "snillinga" í orðum og "rökhugsun" og hugmynda eins og þú ert að leggja fram eins og hægt er að dást að á sinn hátt sem "leikur að orðum". En ef þú værir ekki svona skemmdur af "hagfræðihugsunarhætti" þínum, þá ert þú ábyggilega besta skinn.

Ég vona bara að fólk að fólki með þessa tegund af menntun, fækki sem fljótast. þetta land þarf á að halda heilbrigðri skynsemi, en ekki rugludöllum "hagfræðikenninga"..

En af því þú ert snjall í misnotkun á "sannfæringarkrafti" komdu endilega með rökfræðina fyrir því, að vertrygging sé í lagi og nauðsynleg á íslandi, rökin fyrir því að hlýða ekki dómi Evrópudómstóls í sambandi við kvótakerfið alræmda, rökin fyrir því að setja 2 ríkisbanka á "almennan" markað, samtímis og tengdu þessa hluti saman og sjáðu hvað þú færð út.

Annars taktu ekki of mikið mark á mér, einu hagfræðingarnir sem ég hef hitt, eru í fangelsum í Svíþjóð, sitjandi inni fyrir að reyna rugla yfirvöld í ríminu og fengið greitt fyrir það af stórum fyrirtækjum.

Þeir hafa sagt mér ýmislegt fróðlegt um hvernig hægt er að nota sannleika og ljúga aldrei, en samt verður útkoman tóm lygi.

Takk fyrir tilraunina, virkilega fróðleg lesning sem ég læri mikið af hvernig EKKI á að hugsa.

það er þarfleg lesning fyrir mig líka að lesa sannfærandi gegnsæjar rökleysur....það eina sem er rétt hjá þér að mínu mati, er að bíladella sem eyðileggur náttúru Íslands mætti minnka. En restin er rugl... 

Óskar Arnórsson, 9.4.2008 kl. 11:08

22 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

:)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 10.4.2008 kl. 06:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband