11.10.2008 | 12:01
Að lenda í því - að hengja bakara fyrir smiði.
Að lenda í því. Orðalagið ber með sér að sá sem lendir í því sé saklaus af ásetningi og hafi ratað eins og óviti í einhver vandræði. Hann eigi að taka í fangið og hugga. Í yfirlýsingum stjórnmálamanna og fjármálafursta nú kemur hvað eftir annað fram að bankarnir hafi lent í einhverju. Hvað það er er falið í tali um gjörningaveður og náttúruhamfarir. Eftir stendur sú mynd að útrásarhetjur landsins hafi siglt glæstum fleyum um heimshöfin uns þeir lentu óforvarendis í slíku ofviðri að eftir sitji á skeri löskuð fley, rúin reiða og seglum með skemmdan farm.
Hafa vænir menn enn að ósekju orðið leiksoppar illra örlaga? Hafa lofsungnir snillingar hvorki séð né mátt sjá hvað framundan var? Kunnu þeir ekki að að búa skip sín til siglinga nema í blíðviðri? Brugðust þeir sem áttu að setja siglinagareglurnar skyldu sinni og beindu sjónaukunum að villiljósum í stað boðanna framundan? Um þetta á ekki að ræða núna að mati skipstjóranna og strandkafteinanna. Fyrst þarf af bjarga skipshræunum á land.
Vissulega á að bjarga því sem bjargað verður og ganga vel til verks. En það útilokar ekki að strax eigi að greina hvers vegna svo er komið sem raun ber vitni. Það er m.a. nauðsynlegt til að ekki verði gripið til skaðlegra ráðstafana, svo sem til nýrra lánveitinga af fé skattborgara til ógjaldfærra fyrirtækja, sem dæmi eru um í öðrum löndum og kröfur hafa verið um hér.
Sök á óförum íslensku bankanna hefur verið lýst á hendur alþjóða fjármálamarkaðar og skýringin á öllu er talinn lausafjárskortur. Er það svo? Er kreppan og lausafjárskorturinn orsök eða afleiðing. Er það skýring á því að verðgildi íslensku krónunnar hrapar. Hagfræðingum sem eru ekki helteknir af bauðmolahagfræði síðustu ára, ber flestum saman um að rót fjármálavandans liggi í óábyrgri lánastarfsemi á fjármálamarkaði. Dæmi um hana er fasteignabólan í BNA og hrun fjármálastofnana þegar hún sprakk. Nærtækara dæmi eru gífurlegar lántökur íslensku bankanna og endurlán í vanhugsuð og ofmetin útrásarverkefni. Verðfallin hús og uppblásin viðskiptavild nægir ekki til að tryggja lánin. Er að undra að nýtt lánsfé fáist ekki inn í fjármálastofnanir sem farið hafa fram með óábyrgum hætti?
Á Íslandi kemur til viðbótar að á sama tíma var lagt í lítt grundaðar og illa tímasettar stórframkvæmdir, sem ásamt auknum fjármálaumsvifunum leiddu til þess að staða íslensku krónunnar varð alltof sterk og gerði það að verkum að þjóðin gat lifað um efni fram árum saman eins og viðvarandi viðskiptahalli ber vott um. Verðfall krónunnar og verðbólga af þeim sökum var aðeins tímaspursmál.
Þegar afleiðing óráðsíunnar blöstu hófust köll á björgun ríkis og seðlabanka með auknum lánum til bankanna. Við þessar aðstæður var ekkert vit í að leggja til nýtt lánsfé. Nýr lánveitandi yrði aðeins einn af mörgum sem ekki fengi fé sitt að fullu til baka. Þetta á líka við um lán ríkja og seðlabanka til lánastofnana. Þau væru sólundun á fé almennings. Af þessum ástæðum var upphafleg björgunaráætlun bandarísku stjórnarinnar óviðunandi og ekki líkleg til árangurs í breyttri mynd. Kaup undirmálslána bjargar engu og kaup á hærra verði er gjöf til þeirra sem sólundað höfðu fé sínu. Lán Seðlabanka Íslands til ógjaldfærra banka hefðu á sama hátt engu bjargað og verið sólundun á almannafé. Framlag á hlutafé er skárri kostur nægi það til að rétta skipið við en óráð að öðrum kosti. Þriðji kosturinn, yfirtakan, var illskárst. Með henni lendir stærsti skellurinn á þeim sem beint og óbeint báru ábyrgð á því hvernig komið var og þeim sem stofnað höfðu til viðskipta við þá. Innlán njóta verndar, þó ekki bankanna sjálfra heldur tryggingasjóðs innlána og ríkisins.
Skýringar á því hvers vegna svo er komið eru vafalaust margar. Fyrst er að nefna hversu auðveldlega stjórnmálamenn láta hentifræði og kreddukenningar leiða sig til óstjórnar. Mikilvægustu efnahagsstofnanir þjóðarinnar voru afhentar auðmönnum án þess að tryggja með nokkrum hætti að rekstur þeirra færi ekki úr böndum. Allt regluverk um fjármálastarfsemi var í lágmarki og stofnanir á því sviði vanmáttugar að mannafla, þekkingu og reynslu. Í kjölfarið fylgdi glórulaus útþennsla sem byggðist fyrst og fremst á því að ódýrt erlent lánsfé, eignir lífeyrissjóða og annað sparifé landsmanna var notað til að sprengja upp fasteignamarkaðinn innanlands og að bakka upp skuldsettar yfirtökur eigenda bankanna á erlendum félögum á yfirverði. Í stað aðhalds fengu fjármálafurstarnir hástemmdar þjóðarlofsræður.
Í stað ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum á þennslutímum kusu stjórnvöld sér hlutverk jólasveinsins. Blindaðir af skammvinnum uppsveiflutekjum og eignasölu gáfu þeir hinum velmegandi gjafir með skattalækkunum um leið og þeir brutu niður jafnræðissjónarmið og jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Með þessu var einnig vanrækt að nota tekjuafganginn til að byggja upp gjaldeyrisforða þjóðarinnar.
Um það má deila hvort Seðlabanka Íslands hafi tekist vel til með nýtt hlutverk sitt og rekið rétta peningamálastefnu við þær aðstæður sem honum voru skapaðar. Eflaust orkar ein og önnur aðgerð hans eða aðgerðaleysi tvímælis. Vandséð er þó að meiri undanlátssemi hans við kröfum bankanna og annarra um minna aðhald hefði breytt ástandinu til batnaðar eða hvað varanlegur akkur hefði orðið af því að aukinn gjaldeyrisforði og lán til bankanna hefðu skapað tímabundið traust til starfsemi sem ekki var traustsins verð.
Ekki kæmi mér á óvart að þegar öldurnar lægir og hagstjórnarsaga þessa tímabils verður skrifuð verði dómur hennar sá að þrátt fyrir ýmsa galla og veilur í sviðsframkomu hafi hlutverki Seðlabankans verið betur sinnt en annarra leikenda í þessum harmleik. Það kemur þó líklega ekki í veg fyrir að þjóðin lendi í því núna að hengja bakara fyrir smiði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk Takk kærlega fyrir þessa ádrepu.
Kommentera nánar síðar.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 11.10.2008 kl. 20:59
Það verður bakað brauð á morgun og hinn og hamarshöggin þagna ekki. Hér hefur engin verið hengdur enn og verður ekki. Við muldrum bara áfram í elhúskrókum eins og fyrri daginn og allir fara á sinn bás. Ég var að ná í Mogga áðan niður í gang og á forsíðunni er friðþægingin vegna afglapanna. Það á að skrifa Hvítbók ! Takk annars fyrir pistilinn, hann var málefnalegur og upplýsandi.
Jóhannes Einarsson, 11.10.2008 kl. 23:19
Fróðleg lesning.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.10.2008 kl. 01:48
Þú þarft að gefa þér ýmislegt til að fá þína niðurstöðu t.d. að bankarnir hafi verið ógjaldfærir og ekki verið traustsins verðir. Sjálfum finnst mér merkilegt miðað við allt baknagið sem bankarnir hafa þurft að þola hve lengi þeir lifðu án bakstuðnings af evru eða öflugum og viljugum seðlabanka. Af því að taka ögn mark á róginum um þá hélt ég að þeir væru miklu veikari en að geta þolað allt sem þeir þó þoldu. Þú segir:
Er eitthvað sem með haldgóðum hætti styður þessar staðhæfingar þínar, nú er t.d. Glitnir aftur orðinn tækur í Kauphöllina þ.e. uppfylliröll skilyrði um eigið fé og þess háttar?
Helgi Jóhann Hauksson, 12.10.2008 kl. 04:26
Ég tek undir með þér Indriði.
Sigurjón Þórðarson, 12.10.2008 kl. 09:46
Gott yfirlit, takk fyrir þetta.
Stefán Helgi Valsson, 12.10.2008 kl. 10:44
Takk Indriði, fyrir raunsanna greiningu á aðdraganda þess sem við stöndum nú frammi fyrir.
Þórir Kjartansson, 12.10.2008 kl. 11:17
Kærar þakkir Indriði fyrir skarpa greiningu þína. Þetta er mjög vel skrifuð krufning.
Anna Karlsdóttir, 12.10.2008 kl. 14:28
Athyglisverð grein. Mikið, kannski allt, hefur verið sagt áður en greinin er þarft innlegg í umræðu sem hefur því miður verið allt of einhliða upp á síðkastið. Auðvitað vilja stjórnmálamenn fá blóraböggul, fjarri sínum húsakynnum, til að setja í gapastokkinn. En þótt viðkomandi bakari verði kannski ekki sakaður um að baka vandræði með röngum uppskriftum þá þótti hann handlaginn sem smiður og sumir hafa jafnvel haldið því fram að hann hafi smíðað full óþægilega vinnuaðstöðu í bakaríinu. Hann var þó ekki einn við smíðarnar og smiðirnir sem tóku við af honum lagfærðu ekkert. Þess vegna ættu þeir kannski að líta í eigin barm áður en þeir gagnrýna bakarann fyrir að vera hokinn við baksturinn.
Sigurður Þórðarson, 12.10.2008 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.