11.1.2008 | 10:15
Skattar og fortíðarhyggja
Fyrir skömmu gerði ég tillögu ASÍ í skattamálum að umtalssefni hér. Hún og fleira í umræðu um tekjuskatta einstaklinga mótast af einhvers konar fortíðarhyggju með árdaga núverandi tekjuskattskerfis að draumsýn. En aðstæður hafa breyst svo mjög að draga verður þessa sýn í efa. Kemur þar einkum tvennt til. Í einn stað hafa opinber útgjöld og þar með tekjuþörf ríkis og sveitarfélaga vaxið mikið. Í annan stað hefur sköttum verið fækkað og því meira lagt á þá skattstofna sem eftir eru.
Um 1990 voru tekjuskattar einstaklinga nálægt 16% af skattstofninum með álagningarhlutfalli um 36% og skattleysismörkum í kringum 600 þús. kr. á ári. Tekjuskattar síðustu ára hafa verið um 25% skattstofnsins. Með óbreyttu kerfi, sama álagningarhlutfalli og skattleysismörkum sem fylgja launavísitölu má reikna með að að tekjurnar yrðu svipað hlutfall af skattstofni og í upphafi. Tekjuskattar vegna tekna 2006 voru um 164 milljarðar kr af um 658 mrd kr. skattstofni eða tæp 25% hans. Með afturhvarfi til fortíðar hefðu þeir líklega orðið um 16% eða 105 mrd króna þ.e. nærri 60 milljörðum lægri en þeir voru í reynd. Er því ljóst að verulega þyrfti að bæta í aðra skatta eða draga saman opinbera þjónustu til að gera þessa draumsýn að veruleika.
Skatta í þessu kerfi hafa verið hækkaðir með tvennum hætti. Með lækkun skattleysismarka að tiltölu við laun og með hækkun álagningarhlutfallsins. Lengst af var hækkunin byggð á samspili þessara stuðla. Skattleysismörkin hafa stöðugt farið lækkandi en álagningarhlutfallið fór í tæp 40% 1994 til 1996 en hefur síðan lækkað aftur í svipað horf og í upphafi. Aukinn þungi skattheimtu er því nú eingöngu borinn uppi af lægri skattleysismörkum. Þau voru um 988 þús. kr. 2006, þ.e. síðasta ár sem álagning liggur fyrir, en hefðu þurft að vera um 1,6 m.kr. til að halda gildi sínu miðað við vísitölu launa. Til samanburðar er að hefði öll hækkun tekjuskattsins verið tekin með hækkun á álagningarhlutfallinu en skattleysismörkin höfð um 1.6 m.kr. hefði álagningarhlutfallið þurft að hækka í a.m.k. 50%.
Tillaga ASÍ geri ráð fyrir upphaflegum skattleysismörkum að tiltölu við laun en gengur ekki svo langt að ná fyrra kerfi að fullu. Hún felur í sér hækkun á álagningarhlutfallinu í nærri 50% á laun upp að meðallaunum og að skerðing persónuafsláttar haldist þar fyrir ofan. Því verður engin lækkun verður á sköttum hjá þeim sem eru með tekjur yfir því marki. Ennfremur verður engin lækkun hjá þeim sem eru undir skattleysismörkum og lækkunin er á bilinu frá 0 til 240 þús. kr. mann á launum undir meðallaunum. Gróflega má áætla að tekjutapið yrði af stærðargráðunni 15 mrd. kr.
Af framangreindu má draga þá ályktun að vegna aukinna opnberra umsvifa og meiri tekjuöflunar með tekjuskatti sé óraunhæft að gera ráð fyrir að snúa megi til baka til þess álagningarkerfis sem var við upphaf staðgreiðslunnar. Ómögulegt er að hækka skattleysismörkin ein verulega án þess að því fylgi óraunhæft tekjutap. Hækkun álagningarhlutfallsins eins hefur í för með sér óviðunandi jaðarskatta á miðlungstekjur og lægri.
Núverandi kerfi hefur ýmsa galla samanborið við það sem lagt var upp með í byrjun. Í fyrsta lagi hefst skattlagning mikið fyrr og of snemma, þ.e. við tekjur sem almennt eru taldar of lágar til framfærslu og bornar eru uppi af félagslega kerfinu. Í öðru lagi er stígandinn í skattlagningunni mjög mikill við lágar tekjur. Meðalskatthlutfall hækkar úr 0 í 20% á litlu tekjubili og jaðarskattur er mjög hár á því tekjubili þar sem enn er talin ástæða til félagslegra tekjutilfærslu svo sem barnabóta og lífeyrisbóta. Í þriðja lagi er meðalskatthlutfallið á lágar miðlungstekjur orðið mjög hátt, t.d. um 22% á 3 m.kr. samanborið við rúm 14% á sambærilegar tekjur í upphaflega kerfinu. Leiðir það til þess að lítill munur er á skattlagningu lágra miðlungslauna og hærri launa. Þótt þetta kerfi, eitt skattþrep og persónuafsláttur, hafi verið vel viðunandi á þeim tíma þegar með því voru tekin um 16% af skattstofninum gegnir öðru máli nú þegar skattheimtan er orðin 50% hærri eða yfir 24% af skattstofninum.
Hugmynd ASÍ virðist (misheppnuð) tilraun til að komast hjá tveggja þrepa skattkerfi sem hefur að ósekju verið útmálað sem grýla. Staðreyndin er sú að tveggja þrepa skattkerfi er einfalt í framkvæmd og staðgreiðsla í því yrði ámóta nákvæm og nú er með lítilli breytingu á staðgreiðslukerfinu. Einfaldleiki skattkerfis ræðst ekki af fjölda skattþrepa eða útreikningsreglum. Tölvurnar í skattkerfinu og launaforritin láta sig litlu skipta hvort stuðlarnir í skattareglunni eru fleiri eða færri. Einfaldleikinn liggur fyrst og fremst í skilgreiningu á skattstofninum og því hvernig hann er fundinn.
Spurnig er nú þegar jól eru að baki hvort ekki sé ástæða til að leggja alla grýlubúninga til hliðar og ræða fordómalaust um hvernig gera má tekjuskattskerfi einstaklinga þannig úr garði að það sé sanngjarnt og bitni ekki verst á þeim sem síst skyldi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.1.2008 kl. 11:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.