Ábyrgð á útrás bankanna

Ekki mæli ég bót framkomu breskra yfirvalda og aðgerðum þeirra í þeirri sorglegu atburðarás sem fólst í falli íslensku bankanna. Ég tel mig ekki heldur dómbæran á það hvort þeirra þáttur í atburðarásinni hafi verið afgerandi og hvort við værum í annarri og betri stöðu hefðu þeir farið fram af minna offorsi. Þá finnst mér litlu skipta hvort sú löggjöf sem þeir studdust við heitir einu nafni eða öðru. Reyndar hef ég ekki séð eða heyrt breskan talsmann taka sér í munn orðið hryðjuverkamaður um Íslendinga í þessu sambandi þótt upptalning hérlendra aðila á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins í miður þokkalegum félagsskap hafi síst verið gleðiefni.

Ég get hins vegar ekki neitað því að ég er nokkuð hugsi yfir viðbrögðum hér á landi við þessum atburðum þar sem mikið er gert úr meintri hryðjuverkaímynd hvort sem er í stórkarlalegum yfirlýsingum ráðamanna eða hjá upphafsmönnum múgsefjunarundirskrifta. Slík upphafning atburðanna á tilfinningasvið dregur athygli frá því sem raunverulega gerðist og gerir lítið úr því. Það má og túlka á þann veg að með því sé þjóðin að samsama sig gerendum, þ.e. bönkunum og axli ábyrgð af gerðum þeirra.

Það dylst engum að mikið tjón hefur verið unnið fyrir tilverknað íslensku bankanna og þeirra sem þeim réðu og veittu brautargengi. Íslenska þjóðin mun á næstu árum horfast í augu við hluta þess tjóns og hefur þegar séð 20 – 30 % rýrnun á eign manna í ýmsum sjóðum bankanna og tug milljarða tap lífeyrissjóða mun skerða lífeyri landsmanna langt inn í framtíðina. Er þá ótalið það tjón sem á eftir að verða af því hruni á atvinnustarfsemi sem leiða mun af falli fjármálakerfisins. Eins er að nefna tjónabætur sem íslenska ríkið kann að verða að greiða erlendum innistæðueigendum í íslensku bönkunum og hleypur á hundruðum milljarða króna. Ekki liggur enn fyrir hversu mikið þetta er þar sem enn er óljóst hvers virði eignir bankanna eru en ekki er ólíklegt að skuldaklafi ríkisins eftir ævintýrið verði 1- 2.000 milljarðar króna.

Á meðan við hér á Fróni bíðum með ugg í brjósti eftir upplýsingum um skuldir okkar, bíða grannar okkar víða um Evrópu líka eftir því fé sem þeir höfðu falið íslensku bönkunum til varðveislu eða lánað þeim. Þessar fjárhæðir eru taldar geta numið um 1.000 milljörðum króna í innistæðum og e.t.v. 8 – 10.000 milljörðum króna í lánum. Fólk og félög höfðu lagt fé inn í bankana í trausti þess að þeir stæðu undir nafni eða lánað þeim fé á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir birtu um sjálfa sig. Nú standa hundruð þúsunda Evrópubúa, sjóðir og félagasamtök og fyrirtæki, frammi fyrir því að eignir þeirra og sparifé hefur verið haft af þeim. Í mörgum tilvikum er um það að ræða raunverulegan “ævisparnaði” og lífeyri fólks, sem unnið hefur verið fyrir hörðum höndum en ekki skjótfenginn bónusgróða braskara með lífeyristryggingar í báðum höndum.

Það er eðlilegt að þeir sem orðið hafa fyrir skráveifum af þessu tagi láti heyra í sér og krefji stjórnvöld um skýringar og bætur því allt hefur þetta gerst innan ramma þeirra laga sem sett hafa verið og undir eftirliti stjórnvalda. Það er líka eðlilegt að viðkomandi stjórnvöld taki upp hanskann fyrir þessa aðila og krefjist skýringa og bóta hjá þeim aðila sem skaðanum hefur valdið. Að þessu virtu þarf harka breskra stjórnvalda og annarra í sömu stöðu ekki að koma á óvart. Þau hafa ærna ástæðu þótt deila megi um hvort einstök viðbrögð þeirra hafi verið innan þeirra marka sem við hæfi telst.

Það má líka velta því fyrir sér hvort kröfum sé beint að þeim aðila sem skaðanum hefur valdið og ætti að vera ábyrgur. Íslensku bankarnir sem skilið hafa eftir sig skuldaslóð voru einkafyrirtæki og störfuðu á engan hátt á ábyrgð íslensku þjóðarinnar þótt þeir hafi notað eða öllu heldur misnotað góðan orðstý hennar. Samningarnir um EES tryggja öllum fyrirtækjum rétt til að starfa hvar sem er innan svæðisins hafi viðkomandi ríki uppfyllt þær kröfur sem settar eru. Þau starfa hins vegar ekki á ábyrgð viðkomandi ríkja, sem bera ekki ábyrgð gerðum þeirra nema sýnt verði fram á að það hafi vanrækt skyldur sínar. Spyrja má hvað gert hafi verið sem veldur því að íslenska þjóðin sem slík liggur nú undir sök og mun væntanlega taka á sig þungar búsifjar vegna ábyrgðarlauss framferðis einkafyrirtækja.

Þessi spurning er áleitnari fyrir þá sök að óljóst er hversu íslenskir íslensku bankarnir voru í raun og veru. Í greinum sem ég tók saman fyrr á árinu og greint var frá í bloggfærslum í febrúar og mars 2008 og finna má á vefsíðu minni ( http://web.mac.com/inhauth/Indriði_H._Þorláksson/Vefrit.html ) gerði ég úttekt á eignarhaldi á íslenskum kauphallarfélögum og áhrifum erlendrar eignaraðildar á hag landsins af starfsemi þeirra. Meðal þess sem þar kemur fram er að meirihluti eignarhalds að stærstu fyrirtækjum í Kauphöllinni var í höndum erlendra aðila og á það einnig við um bankana. Nokkrir þessara eigenda og þeir stærstu þeirra eru heimilisfastir í þeim löndum, svo sem Englandi og Hollandi, sem nú sækja að Íslendingum og krefjast ábyrgðar íslensku þjóðarinnar á skaða sem félög í umráðum þarlendra aðila hafa valdið. Um þetta verður fjallað nánar í annarri bloggfærslu innan tíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Takk fyrir góðan pistil

Gestur Guðjónsson, 13.11.2008 kl. 21:44

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er ljóst að við erum ekki borgunarmenn fyrir ígildi 100 kárahnúkavirkjana sí svona.  Við verðum að fá rannsókn og úrskurð alþjóðadómstóla um þessi mál því alþjóðalög taka tillit til efnahagstærðar í svona málu. Enginn veit um hvað í raun á að semja og það er frumskilyrði að komast að því, annars verðum við að berjast við vindmillur af óþekktri stærð þar til við örmögnumst. Ekkert leysist fyrr en þetta leysist, ekkert svigrúm fæst til úrræða fyrr en þessi mál fá að fara í sanngjarnan farveg. Við höfum rétt á réttarmeðferð í málinu, en það er verið að meina okkur það af einhverjum annarlegum orsökum. Það er því frumkrafan að heimta þennan rétt áður en nokkuð annað er hægt að gera til bjargar landinu. Ef ekki, munu allir tapa eða þá að við verðum tekin yfir af gráðugum impeialistum, sem kannski er markmið þeirra eftir allt. Þeir vilja ekki kökuna heldur ofninn.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2008 kl. 04:19

3 identicon

Þú ert mjög hógvær í umfjöllun  þinni og ályktunum, en greinin kemur þó að kjarna málsins.  Þú segir m.a. ...og störfuðu á engan hátt á ábyrgð íslensku þjóðarinnar þótt þeir hafi notað eða öllu heldur misnotað góðan orðstýr hennnar...

Eins og ég orða þetta og mun koma á framfæri víðar þá eru þessi hlutafélög,  s.s. Landsbankinn hf. og Kaupþing banki hf. sem störfuðu hér á markaði og eru í dag komin í alvarleg vanskil við erlenda viðskiptavini,  í eigu einstaklinga hér á Íslandi mér óviðkomandi. Viðskiptagjörningar þeirra, eignir og skuldir hafa verið og eru mér óviðkomandi. Þetta eru einfaldar staðreyndir og ekki hægt að þvæla um.

Ráðamenn hafa ekki mitt umboð til að skuldsetja mig eða börn mín fyrir vanskilaskuldum þessara einstaklinga, enda samþykki ég það ekki.  Kveðja Hákon

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 09:07

4 identicon

Góð grein. Ég er líka sammála þeim sem rita athugasemdir við hana. Bankarnir voru einkafyrirtæki, misnotuðu orðstý og nafn íslands og hvernig gátu þeir gert heila þjóð ábyrga? Ég skil líka vel sjónarmið breta og hollendinga.

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 09:40

5 Smámynd: 365

Eftir lestur pistilsins fer maður að greina á milli skipulagðrar glæpastarfsemi og ekki.

365, 14.11.2008 kl. 10:28

6 Smámynd: Júlíus Björnsson

Mjög skilmerkileg grein ásamt þeim sem þú vísar í. Væri óskandi að almennt tækju menn þig til fyrirmyndar og byggju máls sitt á raunverulegum staðreyndum. Skilja hafrana frá sauðunum en ekki hengja heila þjóð fyrir afmarkaðan hóp manna. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.  Ef einkabankarnir hefðu haldið á sömu braut hver væri þá stærð þeirra eftir 15 ár?  Er ekki eðlilegt að ríki heimsins bregðist við? Kallast fjárglæfra starfsemi nú áhættusækni?

Júlíus Björnsson, 14.11.2008 kl. 10:36

7 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég er að velta fyrir mér þeim orðum Björgólfs Guðmundssonar í Kastljósi gærkvöldsins að setning neyðarlaganna hafi haft afgerandi áhrif á gang mála. Þegar viðbrögð Evrópuríkja eru skoðuð þá virðist sem að beiting s.k. hryðjuverklaga fari ekki svo mjög fyrir brjóstið á öðrum en Íslendingum. Orð Ingibjargar Sólrúnar á Stöð 2 í gær segja mér að eitthvað sé í gangi sem hefur ekki verið upplýst hér á landi - eins og svo marg annað. Getur það verið að neyðarlögin og orð Davíðs Oddssonar hafi verið stórfelld árás á grunngildi EES samningsins sem allt íslenska bankavafstrið erlendis byggði á? Árás sem ekki er hægt að una og hefur m.a. þau áhrif að íslendingar komast hvorki lönd né strönd fyrr en að þessi mál eru leyst. Geir Haarde sagði að hann léti segja sér það tvisvar að menn tengdu lausn Icesavemálsins við fyrirgreiðslu IMF og annarra þjóða. Ég held að það sé búið að segja honum þetta tuttugu sinnum. En hann er ekki að hlusta.

Hjálmtýr V Heiðdal, 14.11.2008 kl. 11:31

8 Smámynd: Flosi Kristjánsson

"skuldsetja mig eða börn mín fyrir vanskilaskuldum þessara einstaklinga"

Já, er það ekki málið?  En er þetta ekki eitthvað sem er bannað að hugsa og/eða segja? Varð það ekki þetta sem hann sagði, vondi maðurinn í Seðlabankanum

Athyglisverður punktur og næstum óbærilega skynsamlegur

Flosi Kristjánsson, 14.11.2008 kl. 13:33

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Indriði.

Ágúst H Bjarnason, 14.11.2008 kl. 13:57

10 identicon

Neyðar lögin munu ekki halda . Jafnræðisreglan mun koma upp á yfirborðið. Hver heildarsumman verður er ekki gott að segja 5-10 þúsund milljarðar?.

Það er kristaltært að þegar fram í sækir verður að finnast politisk lausn á þessu

Björvin Víglundsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 23:40

11 identicon

Hreint frábær pistill. Lest hugsanir mínar.

Unnur (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband