Skattar, velferð og sanngirni

Eina ferðina enn er lagt upp í samninga um kjör í landinu með tillögur um breytingar í skattamálum í farteskinu. Er það vafalaust gert af góðum vilja en spurning er hversu raunhæft það sé og hvort tillögurnar séu byggðar á rökum eða óskhyggju. Reynslan af vinnubrögðum sem þessum er ekki góð.

Þau sjónarmið hafa verið sett fram að ekki sé við hæfi að samningsaðilar um kaup og kjör séu að skipta sér af skattamálum. Bent er á að löggjafarvaldið sé Alþingis en ekki annarra. Það er vissulega rétt en firrir ekki samningsaðilana eða nokkurn annan þeim rétti að setja fram óskir sínar og hugmyndir í skattamálum. Misjöfn reynsla af því að lögfesta breytingar á sköttum sem teknar eru hráar af borðum samningsaðila er ekki þeirra sök að öðru leyti en því sem tillögurnar kunni að hafa verið misráðnar. Ábyrgðin á því að slæmar tillögur af þessum toga eru lögfestar án faglegrar ígrundunar ber þing, sem lætur segja sér fyrir verkum. Kjarasamningsaðilum sem öðrum er rétt að leggja fram hugmyndir um skattamál. Þær á að taka alvarlega og ræða með tilliti til þess sem þær fela í sér í stað þess að kokgleypa þær eða hafna umræðulaust.

Ég benti á það í greinum í Mbl. sl. vor að loforð um skattalækkanir, sem ekki eru byggð á ákvörðunum um lækkun á opinberum útgjöldum, eru innantóm. Til lengri tíma litið eru skattarnir jafnir útgjöldum opinberra aðila. Raunveruleg lækkun skatta byggist á eða hefur í för með sér lækkun opinberra útgjalda. Ósk um lækkun skatta felur í sér þá tillögu að draga saman opinbera þjónustu eða draga úr félagslegum millifærslum og auka þannig svigrúm til einkaneyslu.

Tillögur ASÍ í tengslum við kjarsamninga nú fela í sér að tekjuskattur einstaklinga myndi lækka verulega. Þær fela einnig í sér auknar millifærslur. Til þess að þær gangi upp þarf því fleira að koma til. Annaðhvort verður að hækka aðra skatta eða skera niður útgjöld sem nemur lækkun skatta og hækkun millifærslna. Þótt það sé ekki útfært í hugmyndum ASÍ endurspeglar það væntanlega það mat þess að opinber þjónusta sé of umfangsmikil og ástæða sé til að auka einkaneysla og draga úr opinberri þjónusta.

Annar þáttur þessara hugmynda ASÍ snertir skattapólitík, þ.e. hverjir greiða skattana og hvað áhrif þeir hafa. Tillögur ASÍ eru nokkuð sérstæðar og settar fram í búningi sem gerir það að verkum að raunverulegt innihaldi þeirra er ekki ljóst nema skyggnst sé undir yfirborðið. Áherslur ASÍ í skattamálum gera ráð fyrir að til viðbótar við þann persónuafslátt sem fyrir er verði tekinn upp sérstakur persónuafsláttur að fjárhæð 240 þús. kr. ári. Sá afsláttur fari síðan lækkandi ef tekjur fara yfir 1.8 m.kr og falli að fullu niður þegar þær hafa náð 3,6 m.kr. Tekið er fram að ekki skuli hróflað við staðgreiðslukerfinu, sem væntanlega er tilvísun til þess að ein helsta mótbára gegn tveggja eða fleiri þrepa skatti hefur verið órökstudd fullyrðing þess efnis að það kerfi myndi hrynja með því.

Ef hugmynd ASÍ er sett fram eins og vant er að gera með skattútreikningskerfi kemur í ljós að hún er ekkert annað en tveggja þrepa skattkerfi.. Með orðalagi skattalaga hljóðar hugmynd ASÍ u.þ.b. þannig: 1) Af tekjuskattstofni allt að 3.600.000 kr reiknast 49,05% skattur (að meðtöldu útsvari) en af tekjum yfir 3.600.000 kr. reiknast 35,72% skattur (að meðtöldu útsvari), 2) Frá reiknuðum skatti sbr. 1 dregt persónuafsláttur að fjárhæð 888.409 kr. Það sem gerir þessa tilhögun frábrugðna venjulegu tveggja þrepa kerfi er að í hugmynd ASÍ er skatthlutfallið á lægri hluta tekjustigans hærra en það skatthlutfall sem gildir fyrir hærri tekjur.

Með þessu vinnst það, eins og tilgangur ASÍ er, að hækka skattleysismörk verulega. Hins vegar fylgja miklir annmarkar þessari aðferð. Má t.d, nefna að jaðarskattar á lágar tekjur og lægri miðlungstekjur allt að 3,6 m.kr. á mann verður mjög hár eða minnst 49,05%. Hafi viðkomandi einstaklingur börn á framfæri og eða fái vaxtabætur vegna húsnæðis getur hann orðið mun hærri. Sé tekið dæmi af foreldrum með tvö börn með vaxtagjöld af eigin húsnæði fer jaðarskatturinn í 60%. Er þá ekki tekið tillit til kostnaðar við barnagæslu o.fl. sem því kann að fylgja að afla meiri tekna. Fyrirkomulag sem þetta hefur verið nefnt fátækragildra vegna þess að það gerir fólki nánast ókleift að brjótast út úr þessum viðjum og afla sé aukinna ráðstöfunartekna. Þá þarf að hafa í huga að ef tillögur ASÍ um bætur almannatrygginga ná fram munu jaðarskattar og skerðing bóta almannatrygginga líka verða mjög mikil.

Auk þeirra neikvæðu áhrifa sem svo hár jaðarskattur hefur á vilja til vinnu og undanskotstilhneiginga eru vandfundin rök fyrir því að hafa jaðarskatt á lágar tekjur hærri en jaðarskatt á háar tekjur. Hver eru rökin fyrir því að einstaklingur í láglaunavinnu sem vinnur sér inn 100.000 kr. í viðbótartekjur missi 50 - 60.000 af þeirri fjárhæð í skatt og skerðingu bóta en af 100.000 kr. bónus hjá hálaunamanni yrðu aðeins teknar um 35.000 kr.? Slíkt fyrirkomulag stríðir gegn almennri vitund um hvað telst sanngirni í skattheimtu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband