Dreifing skattbyrði

(Fyrir nokkru samdi ég 3 greinar um skattamál. Tilefnið var gegndarlausar yfirlýsingar og loforð um skattalækkanir, sem að mínu mati eru blekkingar. Fyrsta greinin birtist í Mbl sem aðsend grein sl. mánudag. Síðari greinarnar hafa ekki birst, sem líklega stafar af því að annað aðsent efni hefur forgang. Vera kann að efni síðari greinanna komi einhverjum að gagni til að átta sig á innihaldsleysi þeirra gylliboða um skattalækkanir, sama frá hvaða flokki er, sem eiga eftir að dynja yfir á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Afréð ég því að nota þessa miðlunarleið til að koma þeim á framfæri. Grein númer 2 hefur þegar birts sem blogg og fer 3. greinin hér á eftir.)

Í fyrri greinum um skatta var sýnt fram á að þrátt fyrir boðaðar skattalækkanir hefur skattbyrði hækkað á undanförnum árum. Ræðst það ekki af skattalögum heldur ákvörðunum um umfang samneyslu. Skattalögin ráða því hins vegar hvernig skattar eru greiddir og hver greiðir þá. Í því efni þarf skattkerfið að gæta jafnræðis og vera sanngjarnt. Í þessari grein verður skoðað hvernig skattabreytingar síðustu ára hafa haft áhrif á þessa þætti.

 

Á árunum um 1990 voru gerðar miklar breytingar á íslenska skattkerfinu, tekjuskattur einstaklinga var endurmótaður, virðisaukaskattur tekinn upp og margháttuð launatengd gjöld sameinuð í tryggingagjald. Á næstu árum á eftir var tekjuskattur fyrirtækja lagfærður með breikkun skattstofnsins og lækkun skatthlutfalls. Með þessum breytingum var lagður grunnur að skilvirku skattkerfi í samræmi við kröfur um jafnræði og sanngirni. Síðan þá hafa fjölmargar breytingar verið gerðar á skattkerfinu. Voru þær flestar gerðar á grundvelli sértækra sjónarmiða og án þess að heildarmynd skattkerfisins væri höfð í huga eða að hirt væri um grundvallaratriði góðrar skattheimtu.

 

Álagningarreglum tekjuskatts einstaklinga, skatthlutfalli, persónufrádrætti og hátekjuskatti hefur verið breytt margoft án þess að gerð væri nægileg grein fyrir áhrifunum breytinganna. Virðisaukaskattur á matvæli o.fl. var lækkaður tvívegis á vafasömum forsendum. Barnabætur og vaxtabætur voru lækkaðar að raungildi. Vaxtatekjur einstaklinga skattlagðar en skattur á arð og söluhagnað lækkaður. Tekjuskattur félaga var lækkaður án tillits til samræmis í skattlagningu. Þessar breytingar urðu ekki til þess að lækka skattbyrði, sem þvert á móti hækkað á þessum tíma og kom sú hækkun fyrst og fremst fram í hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Hér á eftir verður fjallað um hvernig það kom niður á mismunandi tekjuhópum.

 

Á árinu 1992 voru tekjuskattar einstaklinga að meðaltali um 17% af heildartekjum þeirra. Árið 2005 var meðalskatthlutfallið orðið um 22% og hafði því hækkað um 5 prósentustig eða rúmlega fjórðung. Hjá hjónum í lægsta tekjufjórðungi hækkaði skattbyrðin um 10 til 14 prósentustig, Hjá hjónum með meðaltekjur hækkaði skattbyrðin um 4,5 til 6 prósentustig, Hjá hjónum með hærri tekjur en ¾ hlutar allra hjóna hækkaði skattbyrðin um nálægt 2,5 prósentustig. Hjá þeim 10% hjóna sem hæstar tekjur hafa lækkaði skattbyrðin um 2 til 25 prósentustig.

 

Réttilega hefur verið bent á að sú staðreynd að laun hafa hækkað hefur leitt til aukinnar skattbyrði. Í tekjuskattskerfi með skattleysismörk og stígandi meðalskatthlutfall gerist það sjálfkrafa ef ekki er gripið inn í og föstum kerfisins breytt. Sé breytingar gerðar í hlutfalli við tekjubreytingar helst skattbyrðin óbreytt en ef þær fylgja verðlagsbreytingum hækkar skattbyrðin á uppgangstímum og raungildi skatta eykst á kostnað ráðstöfunartekna. Í samdrætti eru áhrifin andstæða þessa. Á síðustu árum hefur hvorugri þessari aðferð verið beitt en sú leið valin að hækka ekki skattleysismörkin í samræmi við tekjur og verðlag en lækka í stað þess skatthlutfallið. Óhjákvæmileg afleiðing slíkra aðgerða er að færa skattbyrðina af þeim sem sem hafa hærri tekjur á hina sem eru tekjulægri eins og tölurnar bera með sér.

 

Á það hefur einnig verið bent að þrátt fyrir aukna skattbyrði hafi ráðstöfunartekjur á föstu verðlagi hækkað. Er það rétt að vissu marki en ekki algilt. Þrátt fyrir almenna hækkun tekna hafa ekki allir hærri ráðstöfunartekna en þeir hefðu haft með sömu rauntekjur á fyrri árum. Hjón með allt að 4 milljónir í árstekjur 2005, en í þeim hópi eru um 19% hjóna, greiddu allt að 5% hærri skatt en hjón með sömu rauntekjur greiddu 1995. Ráðstöfunartekjur þeirra voru því lægri en þær hefðu verið með skattkerfinu frá 1995. Hjón með 4 - 6 millj. kr. tekjur 2005 greiddu svipað hlutfall tekna sinna í skatt og þeir hefðu greitt fyrir 10 árum af sömu rauntekjum. Aðrir með hærri tekjur greiða lægra hlutfall af rauntekjum í skatt en áður frá um 1% með 6-8 m.kr. í tekjur og upp í 15% þegar tekjur eru yfir 30 m. kr. Sé litið á rauntekjur hefur skattbyrði hækkað að jafnaði um 2 prósentustig. Hækkuð skattbyrði hefur leitt til lækkunar á ráðstöfunartekjum hjá u.þ.b. 20% tekjulægstu hjóna. Hjá öðrum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist eða haldist lítt breyttur.

 Jafnræði í skattlagningu felst fyrst og fremst í því að þeir þegnar sem eins er ástatt um t.d. hafa sömu tekjur greiði sama skatt. Sanngirni kemur fram í því að þeir sem háar tekjur hafa greiði hærra hlutfall þeirra í skatt en hinir tekjulægri. Þegar framangreindar tölur eru skoðaðar verður varla sagt að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á síðustu árum stuðli að þessum markmiðum og að tekjuskattskerfið gæti jafnræðis og sanngirni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Góð grein hjá þér. Sýnir hvað fagurgali Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna í skattamálum er innihaldslítill og rangur. Þakka þér fyrir.

Jón Magnússon, 10.5.2007 kl. 12:28

2 identicon

Kærar þakkir fyrir góða grein. Auðvitað er löngu búið að afhjúpa þessa andfélagslegu og óréttlátu skattastefnu Geirs Haarde og framsóknarflokksins, en þetta er ánægjuleg og nauðsynleg viðbót.

Ég segi nauðsynleg vegna þess að þeir sem helst er við að eiga á vegum ríkisstjórnarinnar líta ekki á lygar og falsanir sem siðlaust athæfi, heldur sem aðferð í stjórnmálabaráttu. - Þeim mun meiri nauðsyn er að koma ríkistjórn Geirs Haarde og meðreiðarsveinum hennar frá völdum.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 17:05

3 identicon

Þið hafið heyrt talað um hvíta lygi. Svo er til kolsvört lygi. Þar á eftir kemur tölfræðin.

Einar Örn Ólafsson (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 18:26

4 Smámynd: Halldór Halldórsson

Hvernig er það Indriði?  Varst þú ekki einmitt höfundur "láglaunabótanna" hér um árið (ca.1982)?  Þegar ég, sem starfsmaður skattstofu, var að senda sumum "láglaunamönnum" í Arnarnesinu og víðar "láglaunabætur"??  Skyldu útreikningarnir þínir í dag, eftir þær óverðugu (að mínum dómi) vegtyllur sem þér hafa fallið í skaut síðan þá, vera betri en þeir sem þú lagðir til grundvallar þá?

Halldór Halldórsson, 11.5.2007 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband