Skattar og skattalækkanir

(Eftir að ég birti á þessum vettvangi í gær tvær greinar af þremur um skattamál en sú fyrsta hafði birst í Morgunblaðinu hef ég fengið tilmæli um að birta hér einnig fyrstu greinina og fylgir hún hér á eftir.)

 

Skattar eru vinsælt umræðuefni, einkum í aðdraganda kosninga þegar kapphlaup hefst um að hafa girnilega bita með í loforðapakkanum. Reynslan sýnir hins vegar að skattaloforð eru oftast innantóm eða þýða allt annað en ætla má af umbúðum þeirra.

            “Skattar eru það verð sem við greiðum fyrir að lifa í siðuðu samfélag” sagði dómarinn, Oliver Wendell Holmes, í þekktu hæstaréttarmáli í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar. Þessi setning hefur þótt lýsa sköttum betur en flest annað og er hún yfirskrift aðalstöðva alríkisskattastofnunarinnar IRS í Washington. Hún dregur fram það megineðli skatta að þeir eru ekki eitthvað sem borgararnir eru sviptir heldur það sem þeir þurfa að greiða fyrir það sem til þarf til að samfélag teljist siðað. Það er því ákvörðunin um það hvað við viljum verja miklu í þá þætti sem nauðsynlegir eru fyrir siðað samfélag, menntun, heilbrigðisþjónustu, forsjá aldraðra og þurfandi, löggæslu, menningarstarfsemi o.s.fr., sem ræður því hvað við borgum í skatta.

            Tekjur manns eru ekkert annað en neysla hans að viðbættri eignaaukningu eða -skerðingu. Þjóðartekjurnar eru ekkert annað en neysla allrar þjóðarinnar að viðbættum eignabreytingum. Heildarneyslan skiptist í einkaneyslu annars vegar og samneyslu hins vegar, þ.e. það sem fer í að skapa og viðhalda “siðuðu samfélagi.” Skattarnir eru aldrei annað en þessi samneysla. Skattarnir eru því ekki ákveðnir í einhverju tómarúmi með skattalögum heldur með ákvörðunum um samneysluna. Með þeim er tiltekinn hluti þjóðarteknanna tekinn til samneyslu og einkaneyslan skert samsvarandi, þ.e. skattarnir ákveðnir.

Skattar verða því hvorki hækkaðir né lækkaði með breytingum á skattalögum. Þeir eru og verða það sem ákveðið hefur verið að setja í samneysluna. Skattalögin segja eingöngu til um það hverjir borga skattana, hvernig og hvenær. Loforðum um skattalækkanir með tilteknum breytingum á skattalögum eru því innantóma eða innihalda eitthvað allt annað en af er látið því skattalækkun hjá einum felur í sér jafnmikla skattahækkun hjá öðrum.

Sú skoðun þekkist að með því að lækka einhverja skatta sé knúð á um lækkun útgjalda. Í því kann að felast sannleikskorn sem ekki þarf ekki að vera jákvætt t.d. þegar ástæða er til að hækka útgjöld t.d. til menntamála, öldrunarmála o.s.fr. Eitt meginhlutverk þeirra sem gefa kost á sér til pólitískrar forystu er að leggja mat á og ákveða umfang samneyslunnar þannig að uppi verði haldið því samfélagi sem við viljum hafa. Til þess þarf vit og vilja en það hjálpar ekki að ganga til leiks með hendur bundnar af kreddum.

Hvað er hlutverk skattalaga ef það er ekki að hækka eða lækka skatta? Hlutverk skattalaga er að afla tekna fyrir þá samneyslu sem ákveðin hefur verið, þ.e. að skerða einkaneyslu sem henni svarar. Sé það ekki gert að fullu þýðir það ekki að skattarnir lækki því þeir eru ætíð jafnháir samneyslunni. Það kemur okkur hins vegar í koll með öðrum hætti sem vextir af lánum eða neysluskerðing af völdum verðbólgu.

Þar með er ekki sagt að sama sé hvernig skattar eru ákveðnir. Handahófskenndar ákvarðanir um lækkun hér og hækkun þar eru síst fallnar til að skapa skattkerfi sem stenst þær kröfur sem gera verður til þess. Kröfur til skattkerfis eiga að vera fáar og almennar. Það á að afla tekna fyrir samneyslunni, það á að gæta jafnræðis og vera sanngjarnt, það á að gæta hlutleysis eftir því sem kostur er og vera eins einfalt og mögulegt er. Með þessum almennu kröfum má leggja grundvöll að góðu skattkerfi og meta hvort það kerfi sem við höfum á hverjum tíma er verki sínu vaxið. Jafnræði, sanngirni og hlutleysi eru ekki innantómt orð. Með tilliti til skatta þýðir jafnræði að þeir þegnar sem jafnt eru settir skuli greiða sama skatt og sanngirni felur í sér að þeir sem betur eru settir skuli greiða meira í skatt en þeir verr settu. Í hlutleysi felst að kerfið á ekki að beinast að því að hafa áhrif á athafnir einstaklinga eða félaga.

Sú freisting er ætíð fyrir hendi að ætla skattkerfinu ýmis hlutverk önnur en að greiða fyrir samneysluna. Hefur það jafna reynst illa af þeirri einföldu ástæðu að þessi viðbótarmarkmið rekast oftast á innbyrðis og brjóta gegn skilyrðum um jafnræði, sanngirni og hlutleysi skattkerfisins. Dæmi um það eru tilraunir til að auka sparnað, stýra fjárfestingum og þróun atvinnulífs og margt annað. Þau hliðarmarkmið sem skást hafa reynst eru þau sem falla vel að megintilgangi skattkerfisins og þeim kröfum sem til þess eru gerðar. Má þar nefna markmið eins og að hafa áhrif á tekjudreifingu í samfélaginu, að leiðrétta fyrir markaðsbrestum t.d. með mengunarsköttum og að hafa áhrif í byggðaþróun.

Hér hefur verið dregin fram sú staðreynd að ekki er unnt að hækka eða lækka skatta með breytingum á skattalögum og áhrif skattabreytinga verður að meta á öðrum forsendum. Síðar verður fjallað um þróun skattkerfisins á síðustu árum, skattbyrði, dreifingu hennar o.fl.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Skattar hafa lækkað, en skattbyrðin hefur aðeins þyngst í þeim skilningi, að sumir, sem ekki greiddu skatta áður vegna lakrar afkomu (fyrirtæki, sem töpuðu, og einstaklingar undir skattleysismörkum eða með lágar tekjur), greiða nú skatta. Einfaldara getur það ekki verið.

Blasir ekki við, ef hálaunastörfum fjölgar og láglaunastörfum fækkar hlutfallslega, að skatttekjur ríkisins aukast bæði að magni og hlutfalli (þar sem tekjuhátt fólk greiðir hærra hlutfall í skatt en tekjulágt)?

Skattleysismörk á Íslandi eru hærri en á Norðurlöndum. Maður með 100 þús. kr. tekjur á mánuði í Svíþjóð greiðir hærra hlutfall af þeim í skatt en á Íslandi, sbr. greinar Axels Halls í Fréttablaðinu. Samt kvarta menn undan lágum skattleysismörkum.

Það, sem þú ert að segja, er hið sama og Stefán Ólafsson tönnlaðist á, að hlutfall skatttekna af VLF hefur hækkað. Það er viðurkennt og vitað. En það er einmitt vegna framfaranna (minna tapreksturs fyrirtækja og hærri tekna almennings), eins og ég skýrði út hér áðan. Það er villandi að segja um það, að skattbyrðin hafi þyngst.

Samkvæmt tölum Stefáns Ólafssonar hafa kjör tekjulægsta hópsins (10% tekjulægstu) batnað að meðaltali um 2,7% á ári 1995-2004. Þau bötnuðu að meðaltali í OECD ríkjunum um 1,8% á ári á svipuðu tímabili. M. ö. o. hafa ráðstöfunartekjur eftir skatt hjá tekjulægsta hópnum batnað 50% hraðar á Íslandi en í OECD.

Það er líka athyglisvert, að samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins var tekjudreifing einna jöfnust í Evrópu hér á landi (aðeins jafnari í Svíþjóð og Slóveníu, en ójafnari í 27 öðrum löndum). Fátækt eða Lágtekjumörk (risk of poverty) var einna minnst hér líka. Þetta gefur ekki tilefni til þeirrar ályktunar, að farið sé hér illa með fátækt fólk. 

Greinar þínar bera þess keim, að þú sért í pólitískum erindagjörum, enda varst það þú, sem reiknaðir upp á þitt eindæmi og persónulega út Gini stuðla fyrir þá Stefán Ólafsson og Þorvald Gylfason, og reiknaðir þá vitlaust (tókst með söluhagnað af hlutabréfum, sem ekki er gert annars staðar). Þannig fóru þeir fram með rangar tölur og ósambærilegar, sbr. skýrslu Evrópusambandsins (sem tengt er í á bloggsíðu minni).

HHG 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 11.5.2007 kl. 11:35

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Hann-ess farinn að reyna að klóra yfir skattpíningarstefnuna! Tekur orðið nokkur maður mark á honum nú orðið?

Indriði!  Þú átt þakkir skyldar fyrir að leiða okkur í sannleikann um skattamálin!  Takk fyrir, hjartanlega!

Auðun Gíslason, 11.5.2007 kl. 11:41

3 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Hannes: hálaunastörfum hefur fjölgað í Finnlandi og Írland þar sem hefur verið meiri hagvöxtur en hér, en samt hefur skattheimta þar minnkað. Það er bæði kjánalegt og sorglegt að þú sért að væna aðra um pólitískar erindagjarðir, þar sem þú ert einn þekktasti verndari Íhaldsins -- mun þekktari þannig en sem fræðimaður.  

Hér hefur skattheimta hækkað um 10% af landsframleiðslu, en lækkað um 2% í Finnlandi og Írlandi.. það er því bjánalegt yfirklór að reyna verja þetta; hægri menn hér hafa hækkað skatta OG þanið út ríkisbaknið. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 11.5.2007 kl. 12:30

4 identicon

Sæll Indriði og takk fyrir afar fróðlegar greinar. Skrif þín eru merkilegt framlag til samræðna um skattamál sem vonandi hvetur áhugafólk um málefnalega umræðu um þau mál til dáða. Haltu áfram að blogga!

Ingibjörg Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband