16.12.2008 | 03:20
Leiðin út úr kreppunni og hækkun skatta
Meira en tveir mánuðir eru síðan heiminum var ljóst að kreppa er framundan, ekki aðeins fjármálakreppa heldur djúp efnahagslægð þar sem hagvöxtur mun stöðvast og landsframleiðsla dragast saman, atvinnuleysi aukast o.s.fr. Dýpt þessarar lægðar er ekki enn komin í ljós en áætlanir alþjóðlegra efnahagsstofnana er gert ráð fyrir að á í mörgum vestrænum löndum muni verg landsframleiðsla dragast saman um allt að 2% á árinu 2009. Á Íslandi er gert ráð fyrir að samdrátturinn verði meiri eða um 10%.
Flest ríki heims eru að búa sig undir að mæta þessu efnahagsáfalli. Auk ráðstafana á sviði peningamála hafa þau gripið til ráðstafa í ríkisfjármálum og sköttum. Á Íslandi blasir við önnur mynd. Hér þar sem þörfin er mest heyrist lítið frá stjórnvöldum um þessi mál. Engar hugmyndir eru ræddar, engar tillögur lagðar fram.
Í grein á heimasíðu minni, sjá tengil í greinasafn hér til hliðar, fjalla ég um notkun ríkisfjármála til viðnáms í kreppunni og hækkun skatta í þeim tilgangi og til að koma á sanngjarnara skattkerfi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:03 | Facebook
Athugasemdir
Góður og þarfur lestur yfir stjórnvöldum pistillinn þinn, en þau virðast halda að önnur lögmál gildi hér en annars staðar.
Fróðlegt væri að fá útreikning á hve skattpósentan þyrfti að vera til skila ríkiskassa sömu upphæð og nýleg tekjuskattshækkun og þá miðað við 100. þús frítekjumörk á mánuði. Ertu ekki vel tengdur enn inn til RSK til að fá snör svör?
Kristinn (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 13:49
Athyglisvert innlegg í umræðuna.
Jón Halldór Guðmundsson, 16.12.2008 kl. 14:42
Komdu sæll Indriði,
Mig langaði til að forvitnast, þótt það tengist ekki þessari færslu beint, hvort þess hafi verið farið á leit við þig að taka að þér eitthvert verkefni í tengslum við rannsókn á efnahagshruninu hér?
Mín skoðun er sú að þú sért rétti aðilinn til að taka að þér forstöðu FME, þótt ekki væri nema í eitt til tvö ár, stinga út gamla taðið og halda nýju bönkunum heiðarlegum.
Með þá skoðun að leiðarljósi og grun um maðka í opinberu mysunni, þá þykir mér til hæfis að smíða svolitla samsæriskenningu.
Kenningin snýst um að til þín verði ekki leitað, þar sem þú hafir bæði æru og getu til að komast til botns í vilpunni og segja satt frá því sem uppúr henni kemur.
Hvað sem því líður, þá ylja ég mér við þá tilhugsun að þú myndir taka þetta verkefni að þér ef til þín væri leitað.
Með kveðju,
Sigurður Ingi Jónsson, 16.12.2008 kl. 16:00
Sæll Indriði, ég tek sérstaklega undir með Sigurði hér fyrir ofan og þakka þér fyrir góðar skýringar á virkni skattheimtu og hvernig ríkisfjármál má nota við að örva eftirspurn.
Ljóst er að atvinnuleysi mun reynast bæði ríki og einstaklingum dýrt. Það mun fækka skattgreiðendum. Niðurskurðurinn mun leiða til þess að fyrirtækum verður stefnt í gjaldþrot eingöngu vegna verkefnaleysis.
Þessi vinkill sem þú gefur á ríkisútgjöldin við núverandi aðstæður er sérstaklega áhugaverður. "Séu framkvæmdir t.d. í samgöngumannvirkjum, sem skila arði með notkun í framtíðinni, fjármagnaðar með lánum er hæpið að tala um að það séu skuldir komandi kynslóða því þær eiga mannvirkin og njóta þeirra. Framkvæmdir sem þessar eru nauðsynlegar fyrir framtíðina og það sem byggt er nú þarf ekki að byggja síðar þannig að auðveldara er að draga úr framkvæmdum síðar þegar minni þörf er á að örva atvinnulífið. Hið sama á við um aðra uppbyggingu innviða samfélagsins. Lán ríkissjóðs, sem tekin eru innanlands til slíkra framkvæmda, fela það í sér að þjóðin tekur lán hjá sjálfri sér og eignast í staðinn verðmæti sem koma að notum á komandi árum og gera henni kleyft að spara síðar og gefa einkaaðilum rými þegar þeir eru í stakk búnir til að fjárfesta."
Magnús Sigurðsson, 16.12.2008 kl. 21:30
Viltu hringja í mig við tækifæri 863-0327
Vilhjálmur Árnason, 19.12.2008 kl. 01:05
Um leið og ég þakka þér greinagóðar færslur þínar allar þá langar mig að spyrja hvort þú getir skýrt fyrir okkur sem ekki erum góð í viðskiptafræðunum - hvað gjörningurinn með Milestone fyrirtækið sem skýrt er frá í Mbl. í dag virkilega merkir?
María Kristjánsdóttir, 20.12.2008 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.