Ábyrgð á afleiðingunum

Í síðustu bloggfærslu fjallaði ég um ástæður þess að erlend ríki eins og Bretland og Holland hafa brugðist svo hart við óvissu og hiki um ábyrgðir á innistæðum þarlendra borgara í íslensku bönkunum. Var bent á þrýsting á stjórnvöld í þessum löndum og kröfur frá einstaklingum og félagasamtökum sem sáu fram á að glata sparnaði sínum í stórum stíl.

Til viðbótar við þetta er ljóst að stjórnvöldum í þessum löndum er það kappsmál að hagga ekki trausti almennings á því að innistæður í bönkum séu öruggar. Er það álitið hornsteinn fjármálakerfisins. Í kreppunni nú hafa ríkisstjórnir flestra landa lagt áherslu á að sannfæra þegna sína um að bankainnistæður þeirra séu tryggar og hafa þær lýst því yfir að bætt verði að fullu það sem á kann að vanta að innlánatryggingasjóðir geti staðið undir því. Talið var að að öðrum kosti hefði verið hætta á að inneignir yrðu teknar út úr bönkunum og fjármálastofnanir endanlega lagðar að velli.

Svo virðist sem að samstaða EES ríkjanna um þessi sjónarmið hafi verið svo mikil að upphafleg afstaða íslenskra stjórnvalda að ábyrgjast ekki innistæður í útibúum bankanna erlendis hefur þótt óviðunandi. Hún hefði rofið þá skjaldborg sem slegin hafði verið um öryggi bankainnlána og þannig geta ógnað enn frekar hinum fallvalta stöðugleika fjármálakerfisins. Einnig má gera ráð fyrir að sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að tryggja innistæður í bönkum Íslandi en ekki í útibúum erlendis hafi þótt brjóta í bága við þau jafnréttissjónarmið sem gegna ríku hlutverki í samstarfi Evrópuþjóða. Það hefur líklega ekki þótt sýna mikla ábyrgð af Íslendingum að hlaupast undan merkjum á þessum vettvangi né stórmannlegt að varpa henni á aðrar þjóðir.

Fram hafa komið rök þess efnis að lagalegar skuldbindingar Íslands standi ekki til þess að bæta töpuð innlán umfram það sem er á færi innlánatryggingasjóðsins og enn fremur að bætur til innlendra aðila eingöngu yrðu ekki taldar brjóta í bága við jafnréttissjónarmið við þær aðstæður sem nú eru. Hvernig hinni lagalegu stöðu kann að vera háttað virðist ekki skipta máli nú. Ástandið í fjármálaheiminum krafðist samstarfs og ábyrgðar allra ríkja sem vilja teljast fullburðug í samfélagi þjóðanna og ekki síst þeirra sem verst hafa staðið að málum. Því var ekki um að ræða lagalegt úrlausnarefni sem leysa mætti fyrir dómstólum heldur siðferðilegt og pólitískt mál sem kallar á pólitíska lausn.

Með því samkomulagi við Evrópuþjóðirnar, sem virðist í sjónmáli, tekur íslenska ríkið á sig hluta þeirra skuldbindinga sem íslensku bankarnir höfðu stofnað til en geta ekki efnt sjálfir. Ekki er fulljóst hversu mikil sú skuldbinding er. Það veltur m.a. á því hvers virði eignir bankanna reynast og ekki síður því hvort þær renna óskiptar til innistæðueigenda. Hætta er á að aðrir kröfuhafar telji þá hlut sinn fyrir borð borinn og leiti réttar síns.

Segja má að í samkomulagi þessu felist viðurkenning á ábyrgð íslenska ríkisins á því hvernig komið var, viðurkenning á því að íslensk stjórnvöld hafi brugðist. Þegar stjórnvöld bregðast hlutverki sínu bitnar það á þegnunum. Þeir verða að greiða skuldirnar. Þeir sem stýrðu siglingunni út í fenið ættu einnig að viðurkenna ábyrgð sína. Eigendur bankanna og þénarar þeirra sem mökuðu eigin krók á þessari vegferð ættu að sýna almenningi þann sóma að gera hreint fyrir sínum dyrum og hverfa af þessum vettvangi. Þeir sem bera þá pólitísku ábyrgð, sem nú hefur verið viðurkennd gagnvart erlendum aðilum, ættu einnig að sýna eigin landsmönnum þá virðingu að játa mistök sín og taka afleiðingunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartanlega sammála, þeta er nákvæmlega kjarni málsins.

Óskar Þór Kalrsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 16:25

2 Smámynd: Gerður Pálma

Áhugaverð og skýr lesning, hafðu þakkir. Ef Íslendingar ætla sér að halda virðingu siðmenntaðra þjóða, sem mér finnst nú óþægilegt að telja okkur vera, verðum við að gera hreint fyrir okkar dyrum. Hollendingar almennt, að stjórnmálamönnum meðtöldum, eru mjög skynsöm og samvinnuþýð þjóð, ég er þess fullviss að ef við komum með tillögu sem sýnir lit um samvinnu og samvisku þá er hægt að semja við Hollendinga og trúlega Breta líka.  Við getum ekki haldið virðingu og samvinnu við þessar þjóðir ef við ekki tökum á vandanum sem liggur fyrir gagnvart þeim.

Sóðalegt orðbragð í garð Breta er mér undrunarefni, breskur almenningur getur ekki ráðið við hvað hann segir og gerir frekar en við gegn okkar vitringum Gordon Brown á vonandi eftir að svara fyrir terrorista lögjöfina gegn Íslandi sem var gjörsamlega ótrúleg og á líklega eftir að vinna gegn honum síðar á sínum eigin heimavelli.

Gerður Pálma, 15.11.2008 kl. 18:15

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góðir pistlar, skýra vel stöðuna gagnvart innlánsreikningum íslensu bankana erlendis.  Það er vandséð hvernig stjórnvöld sem völdu þá leið að mismuna innlánseigendum á þennan hátt, þó með neyðarlögum hafi verið, geti samið um málið og endurheimt eitthvert traust út á við fyrir þjóðina.  Hvað þá þegar þau njóta ekki trausts þjóðarinnar sjálfrar.

Magnús Sigurðsson, 15.11.2008 kl. 23:36

4 identicon

Það er augljóslega undarleg þversögn í greiningu þinn Indriði. Þann 11.10.08 ritar þú: "Ekki kæmi mér á óvart að þegar öldurnar lægir og hagstjórnarsaga þessa tímabils verður skrifuð verði dómur hennar sá að þrátt fyrir ýmsa galla og veilur í sviðsframkomu hafi hlutverki Seðlabankans verið betur sinnt en annarra leikenda í þessum harmleik. Það kemur þó líklega ekki í veg fyrir að þjóðin “lendi í því” núna að hengja bakara fyrir smiði."

Þú telur m.ö.o. að þjóðin sé að "hengja bakara fyrir smið" með því að krefjast afsagnar DO, ásamt öðrum bankastjórum og stjórn seðlabankans.

Hins vegar ritar þú 15.11.08: "Þeir sem stýrðu siglingunni út í fenið ættu einnig að viðurkenna ábyrgð sína. Eigendur bankanna og þénarar þeirra sem mökuðu eigin krók á þessari vegferð ættu að sýna almenningi þann sóma að gera hreint fyrir sínum dyrum og hverfa af þessum vettvangi. Þeir sem bera þá pólitísku ábyrgð, sem nú hefur verið viðurkennd gagnvart erlendum aðilum, ættu einnig að sýna eigin landsmönnum þá virðingu að játa mistök sín og taka afleiðingunum.

Hagfræðingarnir í seðlabankanum (ásamt Bubba kóngi) og fme eiga semsagt engan þátt í vandanum.  Þeir eru bara í limbohlutverki í atburðarrásinni, svona eins og þægir og hlédrægir ráðuneytisstjórar. Öll ábyrgðin, að þínu mati, liggur hjá þeim sem bera "pólitíska" ábyrgð - og svo auðvitað hjá eigendum bankanna. Þú ert sannarlega stéttarsómi, sverð og skjöldur.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 09:17

5 identicon

Bankastarfsemi og sauðfjárræki eiga það sameiginlegt að sýslað er með fé.  Ef menn koma fé í fóður þá vilja menn heimta það til sín aftur og líða ekki annað. Menn kalla bara á sýslumanninn.

 

Eins er þetta ef menn fá slæmar heimtur að hausti að þá er farið að tala hástöfum um sauðaþjófa.

 

Í þessum fjárþjófnaði aldarinnar virðist engin koma til með að bera ábyrgð.

Hvar eru sýslumennirnir og hvers á almenningur að gjalda?

Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 13:08

6 Smámynd: Bjarni Þór Hafsteinsson

Samkvæmt nýjustu fréttum (14 nóv) stendur til Íslenska ríkið verði þvingað af hálfu ESB til að skrifa upp á skuldaviðurkenningu upp á 640 miljarða vegna innlána á Iceseve reikninga. Ekki er ætlun ESB að orðið verði við óskum Íslenskra stjórnvalda um neina lagalega meðferð þessa máls. Ef þetta gengur eftir er það okkar skattgreiðenda á Íslandi að reiða fram þesa 600 miljarða króna.

Til ráðstöfunar upp í þessa skuld kemur þrotabú Landsbanks. Hvaða eignir skyldu vera þar á ferðinni? Fullkomin óvissa ríkir um hvers virði þessar eignir eru og hverjar heimtur af þeim verða í framtíðinni. Bent hefur verið á allt eins sé líklegt að eingnirnar muni reynast lítils virði er á reynist. Að auki er ekki ólíklegt að það sé hvorki auðvelt né hreinlegt verk að halda lífi í eignum Landsbankans og hámarka virði þeirra. Að lokum er ljóst að virði eignasafnsins kemur ekki ljós fyrren að löngum tíma liðnum. ( Tekur líklega nokkur ár).

Ljóst er að þær tölur sem hér eru á ferðinni eru allar úr takti við stærð og getu Íslenska hagkerfisins. Tala af stærðinni 600 Mi er skattpíning á þegna Íslands líklega marga áratugi fram í tímann, og jafnvel þó að eitthvað skili sér af eignum Landsbankans.

Hvað má segja um þetta mál? Landsbankinn sem bar ábyrgð á Icesave innlánsreikningum var einkafyrirtæki sem starfaði ekki í umboði ríkisins. Ríkið bar hinsvegar eftirlitsskildur gangvart starfsemi hans. Landsbankinn starfaði heldur ekki í umboði almennings á Íslandi. Þarmeð er einkafyrirtækið Landsbankinn heldur ekki á nokkurn hátt á ábyrgð almennings á Íslandi. Ríkisstjórn Íslands hefur því ekkert umboð Íslensku þjóðarinnar til að samþykkja þessa skuld á hendur almennings og einhverja von um eignir Lansdbankans til uppbóta í skuldina.

Fjármálaútrás liðinna ára var framkvæmd og var á ábyrgð lítils hóp manna sem hafði einungis eigin hagsmuni og græðgi að leiðarljósi. Hin vinnandi alþýða Íslands ber enga ábyrgð á skuldum þess og mun ekki taka að sér að lepja upp skítinn eftir þá.


ÉG BORGA EKKI ÞÆR SKULDIR SEM ÉG BER ENGA ÁBYRGÐ Á.

Ríkissjórn Íslands hefur ekkert umboð í höndunum til að skrifa upp á þrælasamninga til handa Íslenskri Þjóð.

Annað mál er að hin Íslenska þjóð er á engann hátt í neinu stríði við sparifjáreigendur í Hollandi og Bretlandi. Lndsbankinn var einkafyrirtæki sem starfaði bæði á Íslandi, Bretlandi og Hollandi. Það má segja að það sé vafasamt að fara mismuna viskiptavinunum eftir þjóðerni við þrot bankanns. Það hlýtur að vera skynsamlegt að viðurkenna það að allar innistæður viðskiptavina Landsbankans séu jafnréttháar, sama hvaða útibú er um að ræða og hvert þjóðerni viðskiptavinarins er. Innistæður almennt yrðu þá forgangskröfur í þrotabú bankans.

Þetta þýddi að Íslenska ríkið bakkaði að einhverju leiti með neyðarlögin er sett voru sem fulltyggði einungis Íslenska innistæður. Þetta þýddi að Íslenska ríkið myndi í raun afnema hina innlendu innistæðutryggingu sína og allir viðskiptavinir Landsbankans tækju á sig tjón í réttu hlutfalli við innistæður sínar, eftir því hvernig vinnst úr þrotabúi bankanns. Ljóst er að þetta er ekki nákvæmlega tæknilega framkvæmanlegt svona þar er sumir viðskiptavinir LB eru nú þegar búnir að taka út sitt fé osfrv, en hugmyndafræðilega er þetta hægt. Það kæmi þá einhverskonar bakreikningur til Landsbankans eða ríkisins eftir því hvernig vinnst úr þrotabúi bankans. Þessi bakreikningur yrði viðráðanlegur fyrir Íslenska hagkerfið og sanngjarn. Málinu yrði þá lokið og engar risavaxnar skuldbindingar lagðar á Íslendinga til langrar framtíðar

Ég get ekki séð annað samkvæmt fréttum en að Íslensk stjórnvöld séu ófær um ljúka þessu máli á skynsamlegan hátt.

Ég vil sjá að það verði stofnuð hreyfing fólks hér á Islandi sem mun neita að borga skuldir sem það ber enga ábyrgð á. Að það verði ljóst íslensku þjóðinni hvernig uppgjör þessa fjármálaævintýris fárra einstaklinga lýtur út og að málalok hljóti samþykki þjóðarinnar.

Svo virðist sem núverandi stjórnmálaflokkar eru óhæfir til að vinna þetta verk, þeir eru of uppteknir af egin hagsmunum. Eitthvað annað afl þarf hreinlega að taka við.


Áfram Ísland.

Bjarni Þór Hafsteinsson, 16.11.2008 kl. 13:17

7 identicon

Saell,

I lydraedisriki bua engir thegnar, adeins borgarar. 

Islendingar haettu ad vera thegnar thegar einveldi Danakonungs leid undir lok.

Rikid er til fyrir og vegna borgaranna en ekki ofugt.

Embaettismenn og kjornir fulltruar eru thjonar almennings.

Kv

 Sveinn

Sveinn (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband