10.5.2007 | 11:36
Skattbyrði
(Fyrir nokkru samdi ég 3 greinar um skattamál. Tilefnið var gegndarlausar yfirlýsingar og loforð um skattalækkanir, sem að mínu mati eru blekkingar. Fyrsta greinin birtist í Mbl sem aðsend grein sl. mánudag. Síðari greinarnar hafa ekki birst, sem líklega stafar af því að annað aðsent efni hefur forgang. Vera kann að efni síðari greinanna komi einhverjum að gagni til að átta sig á innihaldsleysi þeirra gylliboða um skattalækkanir, sama frá hvaða flokki er, sem eiga eftir að dynja yfir á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Afréð ég því að nota þessa miðlunarleið til að koma þeim á framfæri og fer 2. greinin hér á eftir.)
Í fyrri grein minni, skattar og skattalækkanir, gerði ég nokkra grein fyrir skattahugtakinu og dró fram þá staðreynd að skattar eru aldrei annað en samneysla þegnanna og að skattar verða ekki hækkaðir eða lækkaðir með breytingum á skattalögum en aðeins með breytingu á samneyslunni. Í þessari grein er ætlunin að fjalla nokkuð um skattbyrði og breytingar á henni á síðustu áratugum.
Skattbyrði er hugtak sem hefur oft borið á góma á síðustu misserum en skilningur á því hugtaki virðist ærið misjafn. Deilt hefur verið um það hvort skattbyrði hafi hækkað eða ekki og hvort tilteknar skattabreytingar hafi lækkað skatta eða hækkað.
Í umfjöllun um skatta á alþjóðavettvangi er skattbyrði hugtak sem þýðir einfaldlega skattar eða samneysla sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu). Í þrengra samhengi er talað um skattbyrði einstakra skatttegunda t.d. tekjuskatts eða virðisaukaskatts og þá einnig sem hlutfall þess skatts af VLF. Annar mælikvarði á skattbyrði einstakra skatttegunda er meðalskatthlutfallið þ.e. viðkomandi skattur sem hlutfall af skattstofninum t.d. tekjuskattur sem hlutfall af heildartekjum. Þannig má bera saman skattbyrði einstakra hópa svo sem manna með mismunandi tekjur, aldraðra o.s.fr.
Góðar heimildir eru til um skatta á Íslandi. Þjóðhagsstærðir svo sem VLF og samneyslu má finna í skýrslum OECD og fyrir hendi eru ítarlegar upplýsingar um álagningu flestra skatta á heimasíðu ríkisskattstjóra. Hafa þær verið flokkaðar og greindar frá ýmsum sjónarhornum. Ástæðulaust ætti því að deila um staðreyndir varðandi skattbyrði hvernig svo sem menn túlka þær.
Samkvæmt skýrslum OECD hækkaðu meðalskattbyrði í aðildarríkjum þess úr 32,5% í 36% á árunum 1985 til 2005. Á Íslandi hækkaði meðalskattbyrðin úr um 31% í um 41% á sama tíma eða um 10 prósentustig sem var meiri hækkun en í nokkru öðru OECD ríki að Tyrklandi undanskildu. Óumdeilanlegt er því að skattar hafa hækka og skattbyrði aukist.
Við nánari greiningu kemur í ljós að skattbyrði af virðisaukaskatt hefur lækkað nokkuð á árunum frá 1995 og að nær alla hækkun skattbyrðinnar má rekja til breytinga á tekjuskatti einstakling, sem var 28% af skatttekjum hins opinbera í byrjun tímabilsins en var orðinn 36% í lok þess.
Í OECD ríkjunum lækkuðu tekjuskattar einstaklinga úr 10,5% af VLF í 9,1% frá 1990 til 2004. Á sama tíma hækkaði þetta hlutfall á Íslandi úr 8,3% í 14,3% eða um 6 prósentustig og var hlutfallið á Ísland þá orðið það fjórða hæsta í OECD.
Sé litið á tekjuskatta einstaklinga sem hlutfall af heildartekjum þeirra sést hið sama. Meðalskatthlutfallið hefur á árunum 1993 til 2006 hækkað úr rúmum 17% í um 22% eða um 5 prósentustig. Þessi hækkun var nokkuð jöfn og viðvarandi frá 1993 til 2002 en hlutfallið hefur haldist nær óbreytt síðan.
Í ljósi framangreindra staðreynda er ekki um það að deila að skattar hafa hækkað hér á landi og skattbyrði aukist á síðustu tveimur áratugum. Þessi hækkun er óhjákvæmileg afleiðing af þeirri samfélagsþróun sem hefur verið í gangi og kemur m.a. fram í því að meiru er varið en áður til samneyslunnar af ýmsum ástæðum. Þegar það gerist hækka skattarnir og skattbyrðin eykst hvað svo sem líður loforðum um skattalækkanir.
Því hefur verið haldið fram að skattbyrði hafi ekki hækkað því kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi aukist. Slík röksemdafærsla er byggð á misskilningi því skattbyrði getur hækkað án þess að leiða til skerðingar á kaupmætti einstaklinga ef tekjur þeirra vaxa á sama tíma meira en sem nemur verðlagsbreytingum. Hækkun skattbyrði við slíkar aðstæður þýðir þó að kaupmáttur ráðstöfunarteknanna hækkar minna en kaupmáttur tekna fyrir skatt. Einstaklingarnir sjá á eftir stærri hluta af kaupmætti tekna sinna til hins opinbera en áður var sem þýðir að skattbyrðin hefur aukist.
Hér hefur verið dregið fram að skattbyrði á Íslandi hefur aukist í samræmi við hækkun opinberra útgjalda á síðustu tveimur áratugum og að hækkunin kemur fyrst og fremst fram í hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Þetta segir okkur að boðaðar skattalækkanir með breytingum á skattalögum á undanförnum árum hafa ekki skilað sér. Er það eðlilegt því engin tengsl eru á milli slíkra breytinga og þess sem ræður skattbyrðinni í reynd. Loforð um lækkun skattbyrði með breytingum á skattalögum eru í eðli sínu marklaus.
Þótt breytingar á skattalögum hafi ekki áhrif á skattbyrðina í heild hafa þær afgerandi áhrif á hvernig skattbyrðin breytist hjá einstökum hópum, t.d. mismunandi tekjuhópum, öldruðum, barnafólki o.s.fr. Er þar komið að meginhlutverki skattalaga, þ.e. að sjá til þess að ákvörðun skatta sé með þeim hætti sem bestur þykir og að uppfylltar séu þær kröfur, sem gerðar eru til skattkerfisins og minnst var á í síðustu grein, að skattkerfið gæti jafnræðis, sé sanngjarnt og hlutlaust. Í næstu grein verður vikið að því og hvaða áhrif breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum hafa haft á dreifingu skattbyrði og breytt ásýnd skattkerfisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Indriði,
þú mundir gera vel með því að birta fyrstu greinina, þá sem birtist í mbl, einnig hérna inni.
Mbk., Þorsteinn Egilson
Þorsteinn Egilson, 10.5.2007 kl. 20:09
Er gert
Indriði Haukur Þorláksson, 11.5.2007 kl. 10:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.